141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér aðeins í þessa umræðu um meðferð fagnefnda á þeim beiðnum sem komu frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um einstakar greinar sem fjallað er um í viðkomandi nefndum. Ég vil að það komi skýrt fram, þar sem forsetinn hefur hlýtt á þessa umræðu, að í hv. fjárlaganefnd var minni hlutanum meinað að kalla á gesti til að fara yfir þær athugasemdir og greinar sem hv. fjárlaganefnd átti að fjalla um. Eftir því sem ég best veit er þetta eina fagnefnd þingsins sem stóð ekki til boða að fá gesti til fundar til að fara yfir þær greinar sem þar er fjallað um. Ég hvet hæstv. forseta til að skoða þetta mál sérstaklega vegna þess að þetta er brot, stílbrot, á því hv. nefndir fjalla um einstaka liði. Varðandi hv. fjárlaganefnd og það álit sem tekið var þar út í gær þá mun minni hlutinn skila séráliti þar sem þessum vinnubrögðum verður mótmælt harðlega. Ég hvet hæstv. forseta til að skoða þetta mál sérstaklega.