141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014.

458. mál
[11:36]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd fram til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2014.

Barnavernd heyrir undir velferðarráðuneytið samkvæmt lögum um barnavernd, nr. 80/2002. Ráðuneytið ber ábyrgð á stefnumótun málaflokksins og skal ráðherra leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Áætlunin sem hér um ræðir er unnin af ráðuneytinu og Barnaverndarstofu sem saman skulu vinna að framkvæmd hennar með það að markmiði að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð. Við gerð framkvæmdaáætlunarinnar var byggt á ákvæðum barnaverndarlaga um ábyrgð og skyldur ríkisins í barnaverndarmálum.

Barnavernd er stór og mikilvægur málaflokkur sem snýst um vandasöm og viðkvæm mál. Mikilvægi þess að vandað sé til verka verður því aldrei ofmetið. Í barnavernd er fjallað um hagsmuni, velferð og framtíð barna og fjölskyldna þeirra. Barnaverndarlög leggja ríkar skyldur á þá sem vinna að barnaverndarmálum og það sem stendur ávallt efst í barnaverndarstarfi er sú fortakslausa krafa að hagsmunir barns séu ávallt hafðir í fyrirrúmi og gilda þar engar undantekningar.

Eðli þessara mála er slíkt að þau krefjast mikils af þeim sem að þeim vinna og því er fagleg þekking þeirra, menntun, kunnátta og færni hornsteinninn að farsælu starfi. Aðgerðir þess hluta áætlunarinnar sem snýr að ráðuneytinu felast einkum í því að ráðuneytið eigi frumkvæði að þróun löggjafar á sviði barnaverndar. Í því skyni er miðað við að ráðuneytið meti reglulega framkvæmd barnaverndarlöggjafarinnar, sérstaklega með hliðsjón af nýjungum og breytingum í barnaverndarstarfi. Einnig er lögð rík áhersla á hlutverk ráðuneytisins í því að tryggja samráð og samvinnu við önnur ráðuneyti sem sinna málefnum barna.

Aðgerðir framkvæmdaáætlunarinnar sem snúa að Barnaverndarstofu miða að því að efla barnaverndarstarf með því að greina úrlausnarefni á málefnasviðinu, fylgjast með þróun málaflokksins og leggja reglubundið fram tillögur til endurbóta til velferðarráðuneytisins. Barnaverndarstofa mun vinna að verkefnum sem miða að því að efla ráðgjöf, fræðslu, rannsóknir og stofan mun koma á fót nokkrum tilraunaverkefnum.

Hæstv. forseti. Ég mun nú fara nokkrum orðum um efnisatriði þeirrar framkvæmdaáætlunar sem hér liggur fyrir þótt hún sé viðameiri en svo að hægt sé að gera nema nokkrum atriðum hennar skil.

Á tímabilinu verður unnið að þróun meðferðarúrræða fyrir börn og fjölskyldur barna sem sýna alvarlegan hegðunarvanda í þá átt að styrkleiki og tegund inngripa sé hverju sinni í samræmi við þarfir barns og viðurkenndar aðferðir. Þannig verði greining og mat á þjónustuþörf í auknum mæli unnið áður en ákvörðun er tekin um að vista barn utan heimilis til meðferðar svo flýta megi fyrir slíkri þjónustu þegar það á við eða leiðbeina barni og fjölskyldu um aðra viðeigandi þjónustu. Meðferðarkerfið taki mið af stigsskiptri þjónustu innan sem utan stofnunar og samþættingu meðferðarstarfs á Meðferðarstöð ríkisins eða Stuðlum, á meðferðarheimilum og í fjölkerfameðferð, svokallaðri MST. Lögð verður áhersla á meðferðarúrræði í nærumhverfi eða sem næst heimabyggð fjölskyldnanna og á samfélagslega aðlögun barnanna.

Í þessu skyni verða gerðar breytingar á Stuðlum í samráði við barnaverndarnefndir sem miða að bættri bráðaþjónustu, meðal annars á lokaðri deild og aukinni þjónustu við börn og fjölskyldur eftir að vistun á meðferðardeild lýkur. Gerðar verði viðeigandi breytingar á fyrirkomulagi meðferðardeildar Stuðla og annarra meðferðarheimila, einnig með það að markmiði að draga úr blöndun barna með ólíkan vanda og skerpa aðgreiningu markhópa eftir meðferðarþörf svo auka megi gæði í meðferð og draga úr neikvæðum félagslegum áhrifum vistunar á stofnun.

Í tengslum við breytingarnar á Stuðlum er einnig stefnt að því að gerð verði endurskoðun á fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu fyrir börn sem eru bráðavistuð á lokaðri deild Stuðla eða eru í meðferðarúrræðum á vegum Barnaverndarstofu. Tryggja þarf viðeigandi heilbrigðisþjónustu fyrir börn sem eru metin í sjálfsvígshættu, eru í óskilgreindu vímuástandi við komu á lokaða deild, í alvarlegum fráhvörfum eða öðru því ástandi þar sem þörf er á aðkomu læknis eða hjúkrunarfólks. Þannig verði meðal annars tryggt að lyfjagjafir til barna sem eru bráðavistuð á lokaðri deild, og ekki hafa með sér ávísuð lyf, fari eingöngu fram eftir mati heilbrigðisstarfsmanna sem eru á staðnum og sjá barnið þegar matið fer fram.

Kynferðisbrot gegn börnum eru meðal erfiðustu og vandmeðförnustu mála sem til kasta koma hjá þeim sem vinna við barnavernd. Undanfarið ár hefur Barnahús gegnt mikilvægu hlutverki í þessum málum en nú eru 14 ár liðin frá því að starfsemi hófst í Barnahúsi. Stefnt er að því að hefja undirbúning að stækkun Barnahúss svo bæta megi aðstöðu og þjónustu við börn og fjölskyldur. Brýnt er að bæta aðstöðu í Barnahúsi svo sinna megi betur grunnþjónustu við þolendur kynferðisofbeldis og til að tryggja fjölbreytta þjónustu við þann breiða hóp barna sem eru þolendur kynferðisofbeldis, börn sem eru beitt öðru líkamlegu ofbeldi og börn sem búa við heimilisofbeldi.

Það liggur fyrir að allnokkur fjöldi barna sýnir af sér óæskilega eða skaðlega kynhegðun. Einnig hafa rannsóknir leitt í ljós að yfir helmingur fullorðinna kynferðisafbrotamanna hefur feril sinn á unglingsaldri. Samkvæmt samningi Evrópuráðsins um vernd gegn kynferðislegri misbeitingu, sem Ísland á aðild að, ber að bregðast við þessum vanda og veita viðeigandi aðstoð. Nauðsynlegt er að bregðast við á markvissan og faglegan hátt þegar börn sýna af sér óæskilega eða skaðlega kynhegðun.

Sálfræðiþjónusta fyrir börn sem sýna af sér óviðeigandi kynhegðun hefur verið í boði á vegum Barnaverndarstofu frá haustinu 2009. Sökum aðstöðuleysis hefur ekki verið hægt að bjóða upp á þjónustuna á vegum Barnahúss eins og upphaflega var áætlað en gerður var samningur við sérhæft teymi þriggja sálfræðinga.

Það þarf ekki að fara í grafgötur með það að umræðan og upplýsingar liðinna daga og vikna munu auðvitað hafa áhrif á umfjöllun þessarar þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í barnavernd einmitt hvað varðar kynferðisbrot gegn börnum, og er það vel. Verið er að vinna vinnu í framhaldi af þeim ósköpum sem hefur verið upplýst um á síðustu dögum og vikum.

Í lokin ætla ég að nefna að á tímabilinu á að skoða verklag vegna kvartana hjá Barnaverndarstofu með það fyrir augum að hægt verði að stytta afgreiðslutíma kvörtunarmála hjá stofnuninni og skilgreina hvenær sé ástæða til að afla upplýsinga og skýringa um vinnslu einstakra mála hjá barnavernd. Stefnt er að því að nýtt verklag vegna kvartana og frumkvæðismála verði kynnt barnaverndarnefndum og gert aðgengilegt á heimasíðu Barnaverndarstofu fyrir árslok 2013.

Hæstv. forseti. Með þessum orðum hef ég mælt fyrir þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í barnavernd til sveitarstjórnarkosninga árið 2014. Ég legg til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og til hv. velferðarnefndar.