141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014.

458. mál
[11:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þessi tillaga liggur fyrir þó að það væri ágætt að fá örlitlar tæknilegar útskýringar frá ráðherra á því hvers vegna hún var ekki lögð fyrir þingið strax eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar 2010, og hefði þá gilt til fjögurra ára. Þetta fór kannski fram hjá mér í framsöguræðu ráðherrans. Ég fagna því sérstaklega að tillagan skuli liggja fyrir og að það sé ljóst hvert ábyrgðarsvið Barnaverndarstofu sé og þeirra sem koma að því að verja börnin okkar víða í samfélaginu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra þar sem þetta mun kosta ákveðið fjármagn því að við sjáum til dæmis hugsanlegar breytingar á Stuðlum og það sem þarf að gera á BUGL og kann að kosta töluvert fjármagn: Hvernig og hvaða fjárhagsáætlun liggur til grundvallar þessari þingsályktunartillögu?

Síðan er mín þriðja spurning. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því sem hefur komið fram ítrekað frá því að ég kom á þing og eftir tilkomu Barnahúss, sem var til farsældar að mínu mati fyrir vernd barna og öryggi þeirra, að dómstólar yfirheyra börn um kynferðisbrot á mjög mismunandi hátt. Ég vil fara afar varlega í að gera athugasemdir við það er varðar sjálfstæði dómstólanna, það er þeirra og dómara að ákveða hvernig málsmeðferð er fyrir dómi á grundvelli laga, en við erum með héraðsdómstóla eins og á Reykjanesi sem hafa það að meginreglu að nota Barnahús og svo eru aðrir dómstólar sem nota ekki Barnahús. Hafa verið gerðar rannsóknir á því hvort notkun á Barnahúsi hafi verið til farsælda fyrir málin og þá börnin fyrst og fremst? Hafa farið fram samræður milli hæstv. velferðarráðherra og hæstv. innanríkisráðherra um það hvernig hægt sé að bæta úr og efla, að fengnum rannsóknum, notkun (Forseti hringir.) Barnahúss, sérstaklega þegar kemur að yfirheyrslum á börnum?