141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014.

458. mál
[11:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Auðvitað er það bagalegt að menn geti ekki brugðið upp kostnaðarmyndinni af jafnmikilvægu plaggi og tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd. Ég hefði að sjálfsögðu kosið að menn hefðu sett fram, þó að ekki sé kveðið á um það í þingskapalögum, kostnaðarmat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins því að þá hefði verið hægt að sjá hvort þetta sé efnislega raunhæf tillaga. Ég tek fram að það er margt afar mikilvægt og brýnt í henni, en hún er eins og það er.

Aðeins varðandi dómstólana og Barnahús. Ég undirstrika að mikilvægt er að passa upp á sjálfstæði dómstólanna þannig að bæði löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið fari ekki hverju sinni eftir einhverri pólitískri hentisemi, sama um hvaða flokk er að ræða, þar sem farið sé inn á verksvið dómstólanna. En dómstólarnir verða líka að hlusta á umræðuna og taka þátt í þeirri þróun sem verður, m.a. varðandi yfirheyrslur. Yfirheyrsluaðferðir hafa þróast í gegnum tíðina, bæði gagnvart fullorðnu fólki og börnum. Mér sýnist á öllu að Barnahús og reynsla okkar Íslendinga af því sé það góð að hún hafi að vissu leyti orðið fyrirmynd margra annarra landa í því hvernig við höfum starfrækt það og komið því upp hér. Það væri ágætt, og getur vel verið að við gerum það innan allsherjar- og menntamálanefndar, að hvetja til samtals á milli ráðuneytanna. Við fáum þá líka viðhorf dómstólaráðs varðandi þetta því að það skiptir máli í tengslum við þessa framkvæmdaáætlun í barnavernd.

Síðan aðeins örstutt varðandi vinnubrögðin sjálf, að þetta sé ekki til fjögurra ára, þá skil ég mætavel við hvað hæstv. ráðherra á en ég held að þetta sé kannski nokkuð sem ekki síst embættismenn innan allra ráðuneyta, sem standa frammi fyrir því að þurfa að vinna undir ábyrgð ráðherra svona tillögur strax eftir annaðhvort þingkosningar eða sveitarstjórnarkosningar, verði einfaldlega að vera tilbúnir. (Forseti hringir.) Við vitum vel að þetta er plagg sem er unnið mikið af Barnaverndarstofu og starfsmönnum velferðarráðuneytisins og ég (Forseti hringir.) beini því til þeirra að vera tilbúnir strax eftir sveitarstjórnarkosningar að ári.