141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014.

458. mál
[12:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þessa tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd. Eins vil ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, nefndarmanni í velferðarnefnd, fyrir góða ræðu og ágæta yfirferð. Ég kem upp til að segja örfá orð því að nú förum við að rýna þessa áætlun í nefndinni eftir að hafa sent hana út til umsagnar. Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór ágætlega yfir má segja að meðvitundin sé að aukast um mikilvægi þess að vernda börn sem sérstaklega viðkvæman þjóðfélagshóp. Aðstæður í samfélaginu breytast jú í tímans rás og kalla á annars konar úrræði og annars konar hugsunarhátt og verklag fyrir þá sem eiga að vernda börn, fyrir utan foreldrana sem eru þar í lykilhlutverki, en það sem lýtur að aðilum í ytra umhverfi barnanna.

Mikil umræða hefur verið í samfélaginu upp á síðkastið um kynferðislega misnotkun á börnum. Þegar umræða um jafnalvarleg samfélagsmál og þessi geisar er alltaf hætta á að mikið sé um það rætt tímabundið og síðan gerist tiltölulega lítið í kjölfarið. Reyndar hafa þessi mál verið af því tagi að ég held að þau hafi hreyft verulega við flestum aðilum og vakið okkur til umhugsunar um mikilvægi greinar barnaverndarlaganna um tilkynningarskylduna. Vakni grunur um vanrækslu eða misnotkun eða ofbeldi í garð barns þá eigum við að tilkynna það. Það er grundvallaratriði til þess að barnavernd geti orðið sómasamleg að við sem ábyrgir einstaklingar í samfélaginu séum ekki að verja okkur eða sambönd okkar við aðra fullorðna heldur lítum alltaf til hagsmuna barna og tilkynnum ef við höfum áhyggjur af velferð þeirra.

Frú forseti. Það dugir ekki heldur eitt og sér því að það þarf líka að vera þannig að þegar tilkynning hefur borist þá sé öruggt að börnin fái viðhlítandi umönnun, að tekið sé rétt á málum, að tilkynning liggi ekki bara inni heldur verði brugðist við. Svo er að sjálfsögðu í langflestum tilfellum en til að það sé viðunandi þarf að vera gott skipulag sem er í sífelldri endurskoðun og allir sem bera ábyrgð á börnum þurfa að vita hvað til þeirra friðar heyrir í því að tryggja börnunum velferð.

Mig langaði að segja að í kjölfar þeirra umræðna sem nú hafa verið hefur UNICEF sent Samfylkingunni og líka þinginu, velferðarnefnd, tillögur sínar til að verja börn gegn ofbeldi. Þar kemur fram að stærsta ógnin við velferð barna á Íslandi er ofbeldi, það er stærsta alvarlega vandamálið sem ógnar velferð barna á Íslandi og því hefur verið gefinn allt of lítill gaumur. Ofbeldi er náttúrlega víðtækt. Það getur verið allt frá vanrækslu yfir í gróft líkamlegt ofbeldi og kynferðisofbeldi er auðvitað hluti af því. Ég taldi því rétt að segja hér að ég mun leggja það til að nefndin sendi UNICEF þessa áætlun til umsagnar eins og öllum öðrum sem láta sig hag barna einhverju skipta. Ég tel rétt að fara yfir það hvort eitthvað úr tillögum þeirra ætti að koma hér inn í áætlunina til að við tryggjum að unnið verði sérstaklega gegn þessari stærstu vá gegn velferð barna.

Þá komum við að því líka, sem ég vil taka undir, að það er óheppilegt þegar útgjaldaáætlun fylgir ekki áætlun af þessu tagi. Ég held reyndar að hægt sé að bæta mjög margt í starfsemi opinberra stofnana eða almennt, hvort heldur sem það eru félagasamtök, fyrirtæki eða opinberir aðilar. Það má bæta verkferla, það má breyta hugarfari og slíkt þarf ekki að fela í sér sérstök útgjöld. Oft getur sparnaður falist í því að vinna hlutina með skynsamlegri hætti. En þó að margt af því sem er í þessari áætlun þurfi ekki að fela í sér viðbótarútgjöld þá er það svo að ætlum við að ná sérstökum árangri og leggja sérstaka rækt við ákveðna þætti málaflokka, í þessu tilfelli barnavernd, þá kallar það oft á fjármagn.

Ég tel að nefndinni beri skylda til að fjalla um þann þátt þannig að Alþingi sé ekki hér að samþykkja áætlun sem hætta sé á að verði orðin tóm eða að við upplifum það, sem vonandi verðum hér á þingi næst, að fara að berjast fyrir því að framkvæmdaáætlunin í barnavernd komist inn á milli umræðna í fjárlögum, eins og við höfum upplifað með aðrar áætlanir. Það er að sjálfsögðu ekki gott verklag og þeir sem eiga að taka ábyrgð á þessum mikilvæga málaflokki þurfa líka að vita að samtímis því sem löggjafinn er með væntingar og fyrirskipanir um ákveðið verklag þurfum við líka að tryggja að hægt sé að fara að vilja þingsins, þ.e. að fjármagn sé nægilegt.

Frú forseti. Hér með er ég ekki að boða sérstakt örlæti velferðarnefndar en ég er bara að benda á þá staðreynd að sé raunverulegur vilji til breytinga eða framfara er ekki nóg að setja hann fram í orðum á blaði heldur þarf að fylgja fjármagn þegar það á við. Sem formaður nefndarinnar vil ég segja að við munum að sjálfsögðu, eins og með önnur mál sem nefndir þingsins fá til vinnslu, vinna þetta vel. Við munum gefa ofbeldi í garð barna sérstakan gaum en ekki þannig að það sé eina málið sem við ætlum að fjalla um því að það er margt annað, eins og hv. þingmaður fór yfir, sem þarf að skoða. Við munum skoða sérstaklega hvort við þurfum að tryggja frekara fjármagn til barnaverndar á Íslandi.