141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

velferðarstefna -- heilbrigðisáætlun til ársins 2020.

470. mál
[12:10]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun til ársins 2020. Henni er ætlað að taka við af heilbrigðisáætlun fyrir árin 2000 til 2010 sem samþykkt var á Alþingi á vormánuðum 2001. Forveri þeirrar áætlunar, sem unnin var í samræmi við stefnumörkun WHO, eða Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, um heilbrigði fyrir alla árið 2000, var samþykkt á Alþingi 1991. Ekki var mælt fyrir í lögum að leggja skuli heilbrigðisáætlun fyrir Alþingi en segja má að hefð hafi skapað fyrir heilbrigðisáætlun á síðustu áratugum. Nú heitir þingsályktunartillagan sem hér er flutt: Velferðarstefna – heilbrigðisáætlun, sem er annar titill en var á fyrri áætlunum. Ástæður eru annars vegar að samspil félagslegra þátta og heilsu hefur orðið æ ljósara á undanförnum árum og hins vegar breytt stjórnskipan, þ.e. að velferðarráðuneytið var stofnað með sameiningu fyrrum félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytisins.

Lögð er meiri áhersla á félagslega áhrifaþætti í þessari áætlun en hinum fyrri. Stefnt er að því að setja fram heildræna velferðarstefnu þar sem fram komi framtíðarsýn á þeim málaflokkum sem heyra undir velferðarráðuneytið, svo sem í málefnum fjölskyldna, barna og ungmenna, heilbrigðismálum, húsnæðismálum, vinnumarkaðsmálum og jafnréttismálum. Segja má að sú tillaga að áætlun sem hér er lögð fram sé fyrsta skrefið og mikilvægur áfangi í að móta heildstæða velferðarstefnu en áherslan er á heilbrigðismál og því er undirtitillinn heilbrigðisáætlun.

Í heilbrigðisáætlun til 2020 eru orðin velferðarþjónusta og velferðarmál notuð um þá þjónustu og málefni sem skilgreind eru á málefnasviði velferðarráðuneytisins samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Við gerð tillögunnar var leitast við að móta framtíðarsýn í heilbrigðismálum til ársins 2020 og lögð er fram aðgerðaáætlun til að nálgast þau markmið sem fram eru sett.

Í undirbúningnum var lögð rík áhersla á víðtækt samráð. Í þeim anda var boðað til þjóðarfundar um heilbrigðismál í mars 2012 með 220 þátttakendum. Í maí, ágúst og september sama ár voru haldnir fundir með sérfræðingum og fulltrúum sveitarfélaga og notenda um tiltekna hluta áætlunarinnar. Auk þess hafa verið haldnir fjölmargir smærri fundir með leikum og lærðum. Einnig var tekið mið af tillögum ráðgjafarhóps ráðherra, sem skipaður var í kjölfar úttektar ráðgjafarfyrirtækisins Boston Consulting Group á heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Drög að heilbrigðisáætlun voru sett á vef velferðarráðuneytisins í september og óskað umsagna og umsagnir bárust frá tæplega 80 aðilum, bæði munnlegar og skriflegar. Farið var vandlega yfir allar umsagnir og mörgum atriðum í áætluninni breytt til samræmis við athugasemdir. Við öðrum var ekki hægt að bregðast og oft komu athugasemdir sem beindust hver í sína áttina. Það sem einum þótti gott þótti öðrum ótækt. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum sem hafa tekið þátt í undirbúningnum fyrir þeirra mikilvæga og óeigingjarna framlag.

Áhrifaþættir heilsu geta verið margbreytilegir og að sama skapi hefur heilsufar áhrif á margvíslega þætti í samfélagi okkar. Heilbrigði er meðal annars mikilvægt fyrir menntun, samfélags- og atvinnuþátttöku, efnahagslega þróun og fyrir samfélagið í heild.

Heilbrigðismál eru mál ólíkra geira samfélagsins og varða allt stjórnkerfið og þar með öll ráðuneyti og sveitarfélög því að heilbrigði veltur ekki aðeins á heilbrigðiskerfinu heldur líka á félagslegri stöðu, aðbúnaði, atlæti í bernsku, atvinnuþátttöku og fleiri þáttum. Á þetta hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lagt ríka áherslu sem endurspeglast að nokkru í þeirri tillögu sem hér er lögð fram.

Sú jákvæða þróun hefur orðið hér á landi á síðustu árum að heilbrigði landsmanna hefur verið tekið inn í aðrar stefnur og löggjöf en þær sem snúa beint að heilbrigðismálum. Það er sérstaklega ánægjulegt að heilbrigði og velferð er einn af grunnþáttum menntunar í leik- og grunn- og framhaldsskólum landsins. Stefnur og aðgerðir í öðrum málaflokkum, svo sem samgöngu- og öðrum innanríkismálum, umhverfismálum, atvinnu- og nýsköpunarmálum, fjár- og efnahagsmálum og utanríkismálum, geta líka haft bein áhrif á heilbrigði landsmanna.

Þingsályktunartillagan endurspeglar alþjóðlegar áherslur samtímans en hvílir jafnframt á stoðum fyrri landsáætlana og lagafyrirmæla. Eins og fyrr segir er kastljósinu nú í ríkara mæli beint að félagslegum áhrifaþáttum heilbrigðis og mikilvægi þess að samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu. Sett eru fram markmið, mælikvarðar og vörður um aðgerðir, framtíðarsýn og stefnu í velferðarmálum. Þetta er grundvöllurinn að þeim markmiðum sem fram eru sett í tillögunum. Einnig eru ábyrgðaraðilar skilgreindir fyrir allar aðgerðir.

Gert er ráð fyrir að þessi áætlun verði endurskoðuð árið 2016. Markmiðin sem sett eru fram eru leiðarljós í viðkomandi málaflokkum. Settir eru fram mælikvarðar og vörður og líka reynt að setja fram fjárhagslegar áætlanir, hverjir eiga að bera ábyrgð og hvernig eigi að mæla. Það er reynt að meta kostnað og þar eru stærstu þættirnir ný rafræn sjúkraskrá og aukin framlög til kaupa á lækningatækjum. Í báðum þeim tilvikum er um verulega fjármuni að ræða, um 1.200 millj. kr. á ári til sjö ára í sjúkraskrá og um 800 millj. kr. á ári til lækningatækja. Þetta eru auðvitað háar upphæðir en það skiptir samt miklu máli að þeim sé fylgt eftir því að hvar sem okkur hefur borið niður hefur rafræna sjúkraskrá borið á góma og krafan um það að bæta gagnagrunna sem við höfum í heilbrigðisþjónustunni.

Það er samdóma álit að góð rafræn sjúkraskrá sé grundvöllurinn að aukinni hagkvæmni og auknum gæðum þjónustu og vandaðri ákvörðun um þróun heilbrigðisþjónustu. Því spyrja ugglaust margir: Hvers vegna nýtt kerfi? Það er vegna þess að hið gamla uppfyllir ekki nógu vel þær kröfur sem nú eru gerðar til slíkra kerfa.

Ég ætla hér í inngangi ekki að fara yfir einstaka þætti áætlunarinnar enda er hún mjög viðamikil og sérstaklega er greinargerðin ítarleg. Ég hef rétt tæpt á nokkrum meginhugmyndum og atriðum sem þar eru lögð til grundvallar en það er von mín að þingsályktunartillaga um velferðarstefnu og heilbrigðisáætlun geti orðið sá vegvísir í heilbrigðismálum sem heilbrigðisþjónustan og almenningur í landinu hefur lengi kallað eftir.

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að leggja til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og síðari umræðu og hljóti þar ítarlega umfjöllun í framhaldi af öllu því ferli sem er að baki. Ég vona að í framhaldinu megum við eiga góða stefnu sem allir geta sameinast um fram til ársins 2020.