141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

velferðarstefna -- heilbrigðisáætlun til ársins 2020.

470. mál
[12:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held nú að allir hv. þingmenn og landsmenn geti verið sammála markmiðum með heilbrigðisáætlun en það verður að segjast eins og er að þessi áætlun sem kemur núna korteri fyrir kosningar veldur miklum vonbrigðum. Í rauninni tekur hún þó því miður ansi vel saman úrræða- og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokkum.

Það er auðvitað ekkert nýtt að gerðar séu áætlanir eða komið fram með háleit markmið. Það hefur vantað mikið upp á að þeim sé fylgt eftir og þess vegna var í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar — sem hét nú ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins af hálfu hv. samfylkingarþingmanna þangað til haustið 2008 en þá breyttist það nokkuð — til dæmis tekin upp sú nýbreytni að þegar stefnur voru gerðar voru settir ábyrgðaraðilar og tímasetningar. Af hverju? Vegna þess að það er svo auðvelt að setja niður hluti nákvæmlega eins og þessa og standa síðan uppi nokkrum árum seinna og enginn veit í rauninni hver átti að framkvæma þá og það var enginn tími á þeim.

Það er kaldhæðni að þegar við lesum í gegnum þessi markmið sjáum við að ríkisstjórnin hefur í rauninni unnið mjög gegn markmiðum sínum sem hún leggur hér fram.

Virðulegi forseti. Ég fer bara í fyrsta lið sem er aðgengi að þjónustu:

„Markmið. Tryggt aðgengi allra, óháð efnahag, að viðeigandi velferðarþjónustu.“

Þá eru mælikvarðarnir þeir, með leyfi forseta:

„1. Skilgreind verði hámarksgjaldtaka einstaklinga á ári í heilbrigðisþjónustu fyrir árslok 2014.“

Gott og vel. Þessi vinna var mjög langt komin, og hefði klárast á árinu 2009 ef haldið hefði verið áfram með hana, undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur.

Það sem þessi ríkisstjórn gerði var að stöðva þá vinnu og koma í veg fyrir að þetta yrði gert. Það er þess vegna svolítið kaldhæðnislegt að menn komi síðan fram með þetta núna og vilji að einhverjir aðrir geri það.

Sömuleiðis segir hér að starfshópur skilgreini hámarksbiðtíma eftir heilbrigðisþjónustunni vegna vanda sem getur haft alvarlegar afleiðingar. Það eru engin tímamörk á því. Í rauninni hefði kannski verið æskilegast að við færum þá leið sem menn voru byrjaðir á, að reyna að koma í veg fyrir biðtíma og lágmarka hann, með sömu leiðum og nágrannaríkin hafa farið og gefist þeim best, en komið hefur verið í veg fyrir það af hæstv. ríkisstjórn, t.d. með því að fresta sífellt lögum um Sjúkratryggingar Íslands þar sem þeir eiga að taka yfir samninga við aðra en þeir eru með samninga við núna.

Síðan kemur svolítið sérkennilegur hlutur hérna sem er félagsleg staða.

Þar segir:

„Markmið. Jöfnuður í heilsu og líðan óháð félagslegri stöðu.“

Þá koma mælikvarðarnir:

„1. Auka jöfnuð á Íslandi þannig að Gini-stuðull fyrir ráðstöfunartekjur lækki úr 23,6 árið 2011 í um 23 árið 2020.“

Aðgerðirnar eru að:

„1. Undirbúa innleiðingu barnatrygginga til að jafna lífskjör barnafjölskyldna.

2. Tryggja að unnið sé eftir þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum í öllu starfi velferðarráðuneytisins.

3. Auka þekkingu innan velferðarþjónustu á áhrifum ójafnaðar á heilsu og líðan.“

Virðulegi forseti. Nú er það þannig að umræða um Gini-stuðulinn hefur verið svolítið sérkennileg. Oft hafa menn, kannski af pólitískum ástæðum, blandað fjármálatekjum inn í laun. Við getum skoðað bestu heimildirnar eins og t.d. tímaritið Vísbending hefur gert, þ.e. tekið fyrir allar skatttekjur en við höfum allan grunninn sem aðrar þjóðir hafa ekki. Oft og tíðum taka aðrar þjóðir bara stikkprufur.

Í því tímariti segir, með leyfi forseta:

„Það sýnir að Gini-stuðullinn var vissulega í hámarki árið 2007 en hann snarlækkaði árið 2008 en hefur hækkað síðan. Þessi niðurstaða veldur þeim vonbrigðum sem hafa haldið hinu gagnstæða fram.“

Gini-stuðullinn, ófjöfnuðurinn, hefur aukist í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég ekki séð að aðgerðir sem eru mjög almennt orðaðar muni hafa stórfelld áhrif á launatekjur fólks. Spurningin er náttúrlega hvað velferðaráætlun leggur til að gert verði ef við segjum að til að mynda þeir Íslendingar sem hafa mestar tekjur og eru nú í útlöndum komi hingað til lands, t.d. Björk tónlistarmaður eða eitthvað slíkt. Það mundi rugla mjög Gini-stuðulinn og auka ójöfnuðinn gríðarlega. Hvað við ættum að gera þar sem það færi þvert á þetta markmið?

Hér er atvinnuþátttaka og starfsendurhæfing. Þar eru mælikvarðarnir þeir, með leyfi forseta, að:

„1. Lækka hlutfall atvinnulausra úr 7% árið 2010 í 3% af heildarvinnuafli árið 2020.“

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn hefur með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi komið í veg fyrir atvinnuúrræði. Við höfum séð eitt stykki Grafarholt, íbúa Grafarholts, flytja til annarra landa og störfum hefur fækkað. Lækkun atvinnuleysis á allra síðustu mánuðum er ekki vegna þess að störfum hafi verið fjölgað heldur þvert á móti, fólk hefur flutt úr landi og farið í önnur störf.

Við erum sömuleiðis með forvarnir og lífsstílstengda áhrifaþætti heilsu. Þá erum við til dæmis með hreyfingu og þar eru ágætis markmið.

Aðgerðirnar eru þær að:

„Móta heildstæða stefnu og aðgerðaáætlun á sviði hreyfingar alls almennings á Íslandi þar með talið fólks með fötlun og barna.“

Virðulegi forseti. Það var til staðar heilsustefna sem var samin í samvinnu fleiri, fleiri aðila, ég held að ég megi fullyrða að það voru eiginlega allir þeir sem komu að þessum málum í okkar litla þjóðfélagi. Þar voru ekki bara markmið heldur líka tímasetningar varðandi það hvernig átti að ná þeim og ábyrgðaraðilar. Þrátt fyrir að það hafi oft verið talað um þetta hér á þinginu gerði hæstv. ríkisstjórn nákvæmlega ekkert með hana og við erum í rauninni að byrja á núlli, þ.e. það á að móta heildstæða stefnu. Þessi velferðarstefna er stefnumótun og aðgerðirnar vísa í mótun stefnu. Þetta er það sem ríkisstjórnin leggur fram núna á síðustu dögunum.

Þegar maður les í gegnum þetta getur maður ekki annað en orðið fyrir alveg gríðarlegum vonbrigðum því langflest af þessu er mjög almennt. Það er ekkert um hver á að halda utan um þetta, eða ég segi ekki ekkert þar sem það eru tímamörk á nokkrum stöðum, stundum mjög víðtæk. Menn miða við 2020 í mörgum tilfellum og síðan er þetta svona hefðbundið hjal leyfi ég mér að segja, að það eigi að móta stefnu í viðkomandi máli.

Meira að segja heilsugæslan. Þar lá fyrir, og þessi ríkisstjórn fékk það í arf, álit nefndar um málefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem er stærsti einstaki vandinn og hann er verulegur. Við horfum á vanda sem er til kominn vegna þess að aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast, það eru fleiri sem þurfa á læknisþjónustu að halda af því að hlutfall eldra fólks er að hækka. Á sama tíma sjáum við að flestir heimilislæknar, þar er stærsta hlutfallið eldra fólk, eða ég ætla ekki að segja eldra fólk en það er 60 ára og eldra, þannig að við horfum á veruleg verkefni hérna á næstunni.

Þessi nefnd samanstóð af aðilum úr öllum flokkum undir forustu Guðjóns Magnússonar, blessuð sé minning hans, sem var aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Allir sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu komu að vinnunni og annað slíkt. Það hefur ekkert verið gert við það frekar en annað. Það hefur bara ekkert verið gert og því miður. Maður mundi ætla eftir allan þennan tíma að menn hefðu kannski verið að vinna að undirbúningi og þeir væru að koma hér með einhverjar áætlanir, markmið og ábyrgðaraðila en það er ekki.

Virðuleg forseti. Ég ætla ekki að segja að það sé ekkert í þessu sem nýtist. Auðvitað er það ekki þannig, ég er ekki að segja það heldur að þetta er mjög metnaðarlítið plagg. Sú vinna sem hefur verið unnin svo árum og áratugum skiptir hefur ekki verið nýtt. Það hefur ekkert verið framkvæmt af þeim áætlunum sem voru lagðar til jafnvel þótt þær væru vel skilgreindar, vel undirbúnar, tímasettar, með ábyrgðaraðilum og öllum þeim þáttum í þessu máli sem við erum sammála um. Það er ekki stór pólitík í þessu. Ég held að stærsta pólitíkin í þessu snúist um hvort það markmið (Forseti hringir.) að það eigi að skattleggja nái hér fram að ganga.

Þetta snýr fyrst og fremst að því að nýta þá þekkingu sem fagaðilar hafa (Forseti hringir.) og koma með vel skilgreinda stefnu með markmiðum og tímasetningum.