141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

velferðarstefna -- heilbrigðisáætlun til ársins 2020.

470. mál
[12:33]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mikilvægt sem hv. þingmaður segir, að við erum sammála um öll meginatriði. Það skiptir máli og þá ræða menn á því plani um hvernig getum við leitt þau mál áfram.

Aftur á móti erum við ekki sammála um túlkun hans á atvinnuþátttöku, fjölda starfa og slíkt. Núna er að koma yfirlit yfir það og við getum farið yfir það betur síðar. Það er alveg hárrétt sem hér kemur fram — það hefur raunar ekki komið fram en ætti að hafa komið fram að hér höfum við farið í gegnum ótrúlegan tíma sem gleymist gjarnan þegar menn tala um hvað hefði átt að gera, þ.e. þegar við misstum fimmtung af tekjunum og þurftum að endurstokka allt okkar kerfi. Það bitnar auðvitað illa á heilbrigðiskerfinu sem er svo stór hluti af útgjöldum ríkissjóðs.

Ýmislegt hefir einmitt verið látið bíða á meðan við erum að sjá hvernig við komum út úr þeim hremmingum öllum saman. Ég held að flestir hafi skilning á því að það hefur verið ærið verkefni fyrir alla stjórnsýsluna og pólitíkina að takast á við.

Hv. þingmaður nefnir gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Það er auðvitað eitt af þessum málum sem þarf að vinna og er stórmál. Það er ekki svo einfalt að sú tillaga hafi verið komin að fullu. Það hefur verið vinnureglan hjá mér og þeim sem vinna í ráðuneytinu að menn hafa einmitt dregið fram allar þær skýrslur og þau gögn sem hafa verið notuð áður, þær niðurstöður sem hafa komið fram og eru lagðar til grundvallar frekari vinnu. Það gildir um heilbrigðisáætlunina og gjaldtökumálin þar sem við erum núna komin í gegn með breytingar á lyfjaþátttöku. Það gildir líka um atvinnumálin. Það verður ágætt að fá það inn í velferðarnefnd og að menn ræði hvernig er hægt að auka atvinnu í landinu.

Það er búið að gera heilmikið í því og síðast núna var verið að styrkja vinnu og menntun. Allt hefur þetta áhrif á velferð þjóðarinnar og heilsu hennar þar með.