141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

velferðarstefna -- heilbrigðisáætlun til ársins 2020.

470. mál
[12:38]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Forseti. Sú áætlun sem hæstv. velferðarráðherra mælti fyrir áðan er að sönnu mikil að umfangi og mjög margt í henni sem hv. velferðarnefnd þarf að fara yfir og ræða. Margt þar í þarf að skoða. Ég vil í upphafi lýsa ánægju minni með það að nú heitir þetta velferðarstefna með undirtitlinum heilbrigðisáætlun. Þar með er lögð áhersla á það atriði að þessir tveir þættir í samfélaginu, þ.e. hvernig við byggjum upp velferðarkerfið, hvernig við byggjum upp heilbrigðisþjónustu og hvernig útkomu við fáum, skipta gríðarlega miklu máli og hanga mjög saman.

Mig langar aðeins í upphafi að velta því fyrir mér vegna þess sem kom fram í máli hæstv. ráðherra, að áætlunin kemur fram þó þetta seint, hvort við ættum að breyta út af vananum og í staðinn fyrir að láta hana standa á áratug að ákveða hreinlega að hún standi til 10–12 ára, að lengja áætlunina vegna þess að það er gríðarleg vinna á bak við hana og sum markmiðin þess eðlis og verkefnin að það má ætla að þetta verði verkefni inn í lengri framtíð en bara til næstu sjö ára. Við gætum þá hugað frekar að því að endurskoða eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan.

Varðandi yfirbragð áætlunarinnar í heild kemur það kannski ekki mörgum hv. þingmönnum á óvart að mér finnst vanta svolítið inn í markmiðin og aðgerðirnar að það sé horft til kannski eins viðkvæmasta hópsins í heilbrigðiskerfinu. Eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom inn á áðan vantar mest hraðast stækkandi hópinn, þ.e. aldraða. Mörg markmiðin sem eru nefnd væru vel til þess fallin að hv. velferðarnefnd liti sérstaklega til þess og ég hvet nefndarmenn eindregið til þess.

Ég ætla að fara ofan í nokkur atriði í stefnunni, byrja á lið þar sem talað er um lífsgæði fólks með heilsubrest. Þar vantar svolítið inn í og ég veit ekki alveg hvort menn hafa hugsað út í það að skilgreina heilsubrest, reyna að átta sig á hugtakinu og þá hvað tengist heilsubresti. Það kemur að vissu leyti fram í nafninu á áætluninni, þ.e. að menn átti sig á samhenginu á milli velferðar og heilsu, en menn þurfa að velta þessu betur fyrir sér. Í aðgerðunum þar sem verið er að tala um að auka þekkingu almennings á áhættuþáttum og einkennum ýmissa sjúkdóma þyrfti líka að tala um að það er mjög ríkulegt samspil á milli áhættuþátta margra sjúkdóma og samspil á milli sjúkdóma með tilliti til þess hvert þeir leiða fólk.

Ég er afar ánægður, frú forseti, með markmiðið í B.1 sem er um forvarnir og lífsstílstengda áhrifaþætti, heilsu og hreyfingu. Það er afar gott markmið og mikilvægt að komi fram. Í aðgerðapartinum er hins vegar alveg klassískt dæmi þar sem þyrfti að nefna sérstaklega eldra fólk vegna þess að þar á í hlut hópur sem hefur margsinnis verið sýnt fram á að hreyfing og líkamsrækt getur haft mjög ríkuleg áhrif á, ekki bara á tilurð sjúkdóma heldur líka meðferð þeirra. Því er mikilvægt að taka það fram, sérstaklega þegar við horfum til þess með hvaða hætti við getum best nýtt fjármuni í heilbrigðiskerfinu.

Í aðgerðakaflanum með markmiði um slysa- og ofbeldisvarnir teldi ég líka mega tala um ofbeldi og misneytingu gegn öldruðum sem er að verða sífellt stærra vandamál í samfélaginu. Við þurfum að vera stöðugt á varðbergi gagnvart þessu af því að eins og menn vita hættir ofbeldi og ofbeldissamband ekkert þó að menn nái einhverjum tilteknum aldri. Það er mikilvægt að hafa það í huga.

Mér finnst vanta inn í markmiðin um geðvernd sérstaklega að það er lengi búið að vera markmið margra undanfarinna hæstv. heilbrigðisráðherra, og þá núna væntanlega hæstv. velferðarráðherra, að gera gangskör að því að setja upp sérhæfða geðdeild fyrir eldra fólk. Ég hefði viljað sjá þess getið sérstaklega í áætluninni og beini því til nefndarinnar hvort ekki sé efni til að bæta því við.

Varðandi sóttvarnirnar eru þær einmitt mál sem við ættum sérstaklega að hugsa til þessa dagana og þessar vikurnar. Á Landspítalanum eru tugir rúma og tugir plássa í einangrun vegna margvíslegra smitsjúkdóma, sumra hverra sem væri hægt að fyrirbyggja. Ég hefði viljað sjá þarna inni að minnsta kosti markmið eða vangaveltur um að taka ekki gjald fyrir árlega bólusetningu gegn inflúensu heldur hafa hana gjaldfrjálsa, a.m.k. fyrir stærstu áhættuhópana.

Það eru nokkur fleiri atriði í áætluninni, frú forseti, sem ég tel mikilvægt að ræða. Ég vil koma næst að þætti sem er merktur C.1, samþætting og samfella í þjónustu undir yfirheitinu örugg og heildstæð velferðarþjónusta. Þar er meðal annars talað um að árið 2020 geti yfir 83% íbúa landsins 80 ára og eldri búið heima með viðeigandi þjónustu. Þetta er frábært, en við erum raunar nú þegar komin mjög nálægt þessu markmiði fyrir þennan aldurshóp. Maður veltir fyrir sér hvort ekki sé að verða tímabært að skoða það að hækka aldurinn í þessu markmiði, hækka hann upp í 85, vegna þess að heilsufar þjóðarinnar er sem betur fer að batna. Við lifum lengur heilsusamlegra lífi og heilbrigðisþjónustan hefur meðal annars gert fólki það kleift að búa lengur heima, og þar kemur velferðarþjónustan líka inn í, og þess vegna væri gagnlegt að tiltaka þetta sérstaklega.

Varðandi heilsugæsluna er ég algjörlega sammála því markmiði sem kemur fram í C.2, að heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaðurinn. Ég tek þó undir það sem hefur bæði komið fram í þessari umræðu og umræðunni sem var hér áðan, frú forseti, að það er útilokað að gera þetta nema til komi verulegt fjármagn. Menn þurfa þá að vera tilbúnir að leggja í það peninga.

Undir liðnum um fjölgun heimilislækna, sem er í kaflanum um mannafla og búnað í heilbrigðisþjónustu, sjáum við að það er langur vegur á milli þess að allir geti haft heimilislækni árið 2016 og þess að það eigi að fjölga um fimm námsstöður í heimilislækningum á ári. Það eru allt of fáar stöður og við skulum ekki gleyma því að það þarf býsna mörg ár til þess að búa til einn heimilislækni. Ef við ímyndum okkur að það sé eitthvert tiltekið verkefni líður sennilega einn áratugur frá því að menn fá þá hugmynd og þangað til út kemur einn fullbúinn læknir með þessa menntun.

Frú forseti. Ég er í heildina tekið ánægður með að þetta mál skuli komið fram og velti því upp við hæstv. ráðherra og nefndina hvort það ætti að skoða að lengja lítið eitt í, lengja um fáein ár í áætluninni. Ég vona að hv. velferðarnefnd taki þessar athugasemdir til efnislegrar umfjöllunar.