141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

velferðarstefna -- heilbrigðisáætlun til ársins 2020.

470. mál
[12:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið ágætisumræða og það er rétt sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson bendir á að stærsta einstaka málið, þó að þau séu nú mörg stór, er fjölgun aldraðra, ætli það sé ekki stærsta verkefni heilbrigðisþjónustunnar. Ekkert bendir til þess að við Íslendingar séum öðruvísi en aðrar þjóðir og eftir því sem öldruðum fjölgar munum við sjá kostnað og verkefni heilbrigðisþjónustunnar aukast mjög mikið. Þumalputtareglan er sú að kostnaður við heilbrigðisþjónustu þeirra sem eru eldri en 60 ára sé fjórum sinnum meiri en vegna þeirra sem yngri eru. Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni þegar hann talar um heilsugæsluna, þar virðist mikið vanta upp á. Ég held að tími sé kominn til að menn ræði þá hluti eins og þeir eru. Mér finnst það algjörlega vanta inn í þessa umfjöllun, ég efast ekki um að þær upplýsingar liggja einhvers staðar fyrir, að nú þegar er það orðið mikið vandamál hvað varðar biðtíma og þörf á heilsugæslulæknum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og ekki síður um landið.

Virðulegi forseti. Ef við ætlum til dæmis að ná því markmiði að allir eigi kost á að hafa eigin heimilislækni sem er á ábyrgð velferðarráðuneytisins og á að vera komið í gagnið fyrir árslok 2015 þá þurfum við að fara að hugsa það út fyrir boxið. Ég hvet menn til að skoða álit nefndar um málefni heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þeirri vinnu var stýrt af Guðjóni Magnússyni — ég man ekki hvort hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom að því þó að hann hafi komið að ýmsu í minni tíð í heilbrigðisráðuneytinu held ég að ég hafi sleppt honum við það, en þarna var nú ágætt samfylkingarfólk og ég mundi ætla að um þetta gæti náðst góð samstaða. Við þurfum hins vegar að koma okkur á næsta stig og nýta það sem hefur verið unnið og leggja fram metnaðarfullar áætlanir til að ná þessu markmiði.

Eftir mínum bestu heimildum fóru Norðmenn þá leið — þeir voru í ekkert ósvipuðum vanda og við — að auka samvinnu við sérfræðinga til að geta náð því markmiði að allir hefðu aðgang að lækni. Ég held að það sé alveg þess virði að skoða það. Það var niðurstaða nefndar undir forustu Guðjóns Magnússonar, sem var í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, að víða væri pottur brotinn í þjónustunni eins og hún er núna, og kom nefndin með ýmsar hugmyndir til úrbóta. Það er ljóst að menn hafa ekki farið yfir þá vinnu en ég tel skynsamlegt að menn geri það og komist að niðurstöðu um hvort þetta er ásættanlegt eða ekki.

Virðulegi forseti. Ég tel líka mjög mikilvægt að þar sem við getum náð til barna og ungmenna hvað varðar mataræði og hreyfingu — sem við gerum bæði í grunnskólunum og í leikskólunum í það minnsta á mörgum stöðum á landinu — ættum við að vinna með skipulegum hætti að því að hafa eftirlit með því og hvetja alla til að vera með góðan mat. Það þarf ekki að gera það með boðum og bönnum, það er líka hægt að gera það með hvatningu eins og til dæmis er lagt upp með í heilsustefnunni. Ef pottur er víða brotinn í þeim efnum, eins og ýmsir halda fram, þurfum við að fylgja því eftir með skipulegum hætti.

Það veldur mér áhyggjum að rafræn sjúkraskrá á samkvæmt þessum áætlunum ekki að vera tilbúin fyrr en í árslok 2015. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér finnst það mjög skrýtið. Það er grunnur að mjög mörgu.

Ég ætla ekki að fara nánar út í það hvernig núverandi ríkisstjórn hefur brugðist við mörgum af þessu góðu markmiðum en vonast til að menn nái góðri sátt um að vinna áætlun eins og þessa. Við þurfum hins vegar augljóslega að bæta aðeins í þá vinnu án þess — og mér finnst það miður að það hafi verið nefnt hér — að gera lítið úr vinnu þeirra aðila sem hafa komið að þessu. Þetta snýst ekki um það, þetta snýst um pólitíkina. Þegar ég er hér að gagnrýna þá er ég að gagnrýna stjórnmálamennina sem (Forseti hringir.) stýra nú og eru í meiri hluta hér á Alþingi.