141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á þessu frumvarpi. Mér sýnist við fyrstu sýn að þetta sé býsna stórt og mikið mál. Fyrsta spurningin sem kviknar kannski hjá manni er hvaða áhrif frumvarpið hafi á fjölmiðla í dag. Getum við sagt að það muni hafa einhverjar breytingar á fjölmiðlamarkaðnum í för með sér eins og hann lítur út á þessari stundu?

Ég velti líka fyrir mér því sem við tókum eftir og kemur einnig fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins en þar er talað um Samkeppniseftirlitið og matskenndar reglur um það hvenær eignarhald sé komið yfir einhver viðmið frekar en að settar séu skýrar reglur um að eignarhlutur megi ekki vera þessi eða hinn. Það væri ágætt að komast að því af hverju sú leið var farin, frekar en að setja fyrir fram ákveðin viðmið um hámark eignarhluta á einni hendi. En það getur svo sem verið að þetta komi allt síðar í ljós.

Síðan langar mig að spyrja líka um samrunaeftirlitið. Um það segir á bls. 4 í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Samruni telst hafa átt sér stað þegar breyting verður á yfirráðum til frambúðar.“

Það er kannski hártogun að velta fyrir sér hvað þetta þýðir nákvæmlega, „til frambúðar“. Á þetta ekki við ef fyrirtæki gengur kaupum og sölum og einhver á það í mánuð eða einn mánuð eitthvað svoleiðis, eða það er selt út úr einhverju apparati eftir þann tíma? Þarf að skýra þennan samruna með einhverjum hætti til að hann sé ljós?

Síðan er hér eitt (Forseti hringir.) atriði enn sem ég ætla að leyfa mér að geyma.