141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir þessi svör. Það sem ég spurði um varðandi samrunaeftirlitið stendur á bls. 4, með leyfi forseta:

„Samruni telst hafa átt sér stað þegar breyting verður á yfirráðum til frambúðar.“

Ég velti þessu orðalagi fyrir mér, til frambúðar. Ég viðurkenni að ég hef ekki náð að lesa þetta allt í gegn og það getur vel verið að það sé skýring á þessu einhvers staðar í frumvarpinu, en þetta vakti upp spurningar hjá mér.

Mig langar líka spyrja um eitt ef hæstv. ráðherra getur svarað því, hún þarf mín vegna ekki að svara því núna. Ég vil vekja athygli á því að á bls. 5 neðst segir, með leyfi forseta, og er einnig fjallað um þetta í skýringum við 1. gr.:

„Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins var einnig unnið að tillögum að breytingum á nokkrum þáttum laganna sem brýnt er að bæta úr, m.a. vegna ábendinga sem hafa komið fram á rýnifundum með framkvæmdastjórn ESB í viðræðum um aðild Íslands að ESB.“

Í skýringum kemur fram að lögunum er breytt vegna þess að í viðræðunum hefur komið ábending eða krafa frá Evrópusambandinu um að það sé gert. Það má sem sagt halda því fram, ef maður vill vera með Evrópusambandið á heilanum, ef einhver vill orða það þannig, að þarna sé verið að aðlaga í rólegheitunum (Forseti hringir.) Ísland að Evrópusambandinu.