141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að hvorki ég né hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson erum með Evrópusambandið á heilanum og sjáum það ekki í hverju horni. Það er hins vegar ekkert launungarmál að fjölmiðlalöggjöfin sem við settum árið 2011 var að stóru leyti innleiðing á löggjöf Evrópusambandsins og snýr að okkar skyldum gagnvart EES-samningnum, þannig að þær breytingar sem hér er verið að leggja til eru vissulega byggðar á athugasemdum sem snúa að þeirri gerð sem við ásamt Norðmönnum og öðrum EES-þjóðum höfum verið innleiða. Það skýrir þetta og ég tel því ekki ástæðu til að sjá aðlögun í þessu horni.

Hvað varðar greinina um samrunaeftirlitið er þetta orðalag tekið úr lögum sem gilda um Samkeppniseftirlitið núna. Það er forsenda fyrir því að þetta orðalag er notað, en ég tel eðlilegt að hv. nefnd skoði nánar hvað til frambúðar merkir nákvæmlega í þessu samhengi því að eins og hv. þingmaður benti á í fyrra andsvari sínu eru svona eignaskipti kannski aldrei í raun og veru til frambúðar.