141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gildir það sama um þær tillögur sem hér eru og gildandi lög að fjölmiðlanefnd er aðaleftirlitsaðili laganna og sá aðili sem hægt er að skjóta málum til ef upp vakna spurningar, til að mynda um hatursáróður eins og hv. þingmaður nefndi eða hvenær ákvæði um friðhelgi einkalífs eru ríkari en almannahagsmunir.

Það eru ákveðnar breytingar fólgnar í 8. gr. sem snúast um friðhelgi einkalífs. Það ákvæði hefur skírskotun til 5. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sem felur líka í sér aðra innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Það má eiginlega segja að við byggjum þetta ákvæði á því þannig að það sé samræmi hjá okkur, getum við sagt, í fjölmiðlalögum og í lögum um persónuvernd.

Úrskurðurinn um það hvar línan liggur hlýtur hins vegar alltaf að liggja hjá fjölmiðlanefnd. Hugsunin á bak við þá nefnd er að þar fari eitthvert sjálfstætt úrskurðarvald sem byggir á faglegri þekkingu á málinu.

Það sama má segja um ákvæðið um hatursáróður. Það hefur líka tekið ákveðnum breytingum frá síðustu framlagningu frumvarpsins. Við höfum átt góða umræðu við ýmsa hv. þingmenn sem hafa tekið það mál til umræðu því að þar er mjög mikilvægt að við bindum ekki um of hendur fjölmiðla og tjáningarfrelsi þeirra. Að sama skapi eru til þekkt dæmi um fjölmiðla — sem betur fer eru þau kannski flest annars staðar frá — sem reka í krafti stöðu sinnar sem fjölmiðils sem fólk treystir að einhverju leyti sem hlutlægri upplýsingaveitu, kröftugan hatursáróður. Við höfum séð dæmi frá nágrannaríkjum okkar til að mynda um hatursáróður gegn tilteknum kynþáttum.