141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hætti mér ekki einu sinni út í það að gera mér hugmynd um hvaða aðstæður það gætu verið og tel ég mig eiginlega ekki til þess bæra. Ég mundi vilja leggja málið í hendur þeirra sem hafa meira vit á málum en ég.

Ég vil hins vegar segja, af því að hv. þingmaður vísaði til Ríkisútvarpsins, að verið er að taka jákvæð skref í því frumvarpi sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd er með til skoðunar hvað varðar stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Og ég tel til lengri tíma litið að eðlilegt sé að halda áfram á þeirri braut sem þar er lagt af stað á. Að einhverju leyti kynni það að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi. Ég legg áherslu á að þetta frumvarp snýst ekki um það. Það er stærra mál, það er bara almennt rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi sem hefur lengi verið sveiflukennt og lítið öryggi, svo dæmi sé tekið, í rekstri fjölmiðla og fyrir þá blaðamenn, fréttamenn og dagskrárgerðarfólk sem hefur unnið á þeim markaði. Það er kannski annað vandamál og snýr líka að því hvort aðkoma ríkisins eigi að verða að einhverju leyti til styrktar fjölmiðlum eins og við höfum stundum rætt í þessum sal. Það er ekki í því frumvarpi sem við ræðum nú.