141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:20]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil ítreka það aftur að ég er ánægður með að hæstv. ráðherra er komin með til þingsins frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla. Við unnum fína vinnu, nefndin og ráðuneytið, í fyrravetur á forveranum og var farið mjög ítarlega í gegnum marga þætti. Einnig var gagnlegt í nefndinni að vinna þetta samhliða frumvarpinu um Ríkisútvarpið. Við spiluðum vinnuna mjög saman því að vissulega féll þetta allt mjög saman. Frumvörpin voru bæði til umfjöllunar á sama tíma þannig að gestirnir, sem margir hverjir standa að rekstri fjölmiðla á Íslandi í dag, bæði ríkisrekinna og einkarekinna, höfðu auðvitað nokkuð samofnar skoðanir á þessu. Það skaraðist og umræðan var mjög gagnleg. Málunum hefur báðum fleygt fram. Þau hafa styrkst og batnað í meðförum ráðuneytis og þings á þessum tíma. Auðvitað voru mörg álitaefni eins og alltaf þegar rætt er um fjölmiðla því að þetta er mjög viðkvæmt samspil, eins og ég nefndi áðan í spurningu til hæstv. ráðherra hvaða vandamál eða álitaefni tæknin hefur leyst fyrir okkur, því að auðvitað hefur hún svo sannarlega gert það.

Tilkoma netsins og óhemjumikil útbreiðsla þess eins og á Íslandi þar sem þorri almennings, fólk á efri árum er með aðgengi að netinu sem betur fer, nýtir sér netið til upplýsingaöflunar og samskipta á samfélagsmiðlum og í gegnum tölvupóst og annað — allt er þetta í öllum aðalatriðum ánægjulegar breytingar og marka náttúrlega þáttaskil í hinu lýðræðislega nútímasamfélagi þar sem hver maður er sín rödd, sinn fjölmiðill upp að vissu marki og breytir með samspili almennings, fjölmiðla og stjórnvalda, þessu viðkvæma og mikilvæga samspili. Við höfum séð þær gagngeru breytingar sem hafa orðið á þessu sviði í rauninni á örfáum árum, frá því fyrir 15, 18 árum þegar flokksblöðin voru enn til staðar eða voru að syngja sitt síðasta. Árin þar á undan voru rammpólitísk flokksblöð, eins rammpólitísk og þau gátu orðið, eitt síðdegisblað og síðan ríkisrekinn ljósvakamiðill sem gnæfði þar yfir. Einkarekstur á ljósvakamarkaði var ekki heimilaður fyrr en eftir 1985. Við höfum því upplifað miklar breytingar á rúmum aldarfjórðungi, gríðarlega miklar breytingar á 20, 30 árum.

En eftir sem áður er ég á þeirri skoðun að markmiðin sem eru að hluta til með þessu frumvarpi standa samt óhögguð. Við þurfum að tryggja fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlum með skynsamlegri og hóflegri lagasetningu sem miðast auðvitað ekki við, eins og var haldið fram hérna fyrir níu árum síðan þegar deilurnar rifu í sundur íslensku þjóðina, fjölmiðlalögin þá, nú er heldur stilltara yfir, vegna þess að að margra mati beindist það frumvarp að tiltekinni fjölmiðlasamsteypu. En þetta eru almenn lög og með almannahagsmuni í huga og frumvarpið nú er svo búið. Hér er verið að feta þá slóð varfærnislega en samt ákveðið þar sem lagt er til að Samkeppniseftirlitið fái heimild til að hafa áhrif, svo ég vitni í frumvarpið, með leyfi forseta:

„Með aðstæðum er m.a. átt við atriði sem tengjast eiginleikum viðkomandi markaðar, þar með talið uppbyggingu fyrirtækja sem á honum starfa. Aðgerðir Samkeppniseftirlitsins geta falist í úrræðum til breytinga á skipulagi ef sýnt þykir að ekki séu fyrir hendi önnur og jafnárangursrík úrræði sem eru minna íþyngjandi fyrir aðila. Samkeppniseftirlitið skal afla umsagnar fjölmiðlanefndar“ — sem er líka skynsamlegt samspil eins og er ráðherra gat um hérna áðan.

Hérna er því verið að fara varlega. Það er kannski ekki sanngirni að ætlast til þess að þingmenn eða ráðherrann nefni dæmi sem gætu komið upp, en það þarf svo sem ekki að beita miklu ímyndunarafli til að sjá þau að einhverju leyti fyrir sér á þeim örmarkaði sem íslenski fjölmiðlamarkaðurinn er. Sem betur fer hefur netið og allt það opnað hann út í heim. Fullt af fólki horfir jafnan mikið á erlendar sjónvarpsstöðvar og notar síður á netinu, íslenskar og erlendar, sér til afþreyingar og upplýsingar, þannig að að einhverju leyti er búið að brjóta upp múrinn í kringum íslenska örmarkaðinn sem betur fer fyrir alla neytendur í landinu.

Sú staða að hér væri til dæmis eitt risastórt ríkisútvarp, sem verið er að reyna að ná aðeins utan um stöðu þess á auglýsingamarkaði með frumvarpinu, og hugsanlega ein sjónvarpsstöð sem ætti kannski líka flestar útvarpsstöðvarnar einkareknu í landinu, væri kannski einhver staða sem mundi kalla á afskipti. En þó, það mundi væntanlega alltaf ráðast af stærð ríkismiðilsins. Sumir mundu kannski halda því fram að yfirburðastaða slíks miðils gæti líka skekkt með einhverjum hætti lýðræðislega umræðu í landinu af því að þeim miðli yrði líka stjórnað af fáeinum, sem mjög sjálfstæð stjórn þar. Oft er deilt mjög mikið um fyrirkomulag pólitískrar og lýðræðislegrar umræðu í ríkissjónvarpinu og Ríkisútvarpinu rétt eins og í einkamiðlunum sem sinna kannski í rauninni þeim þáttum í miklu minna mæli en áður var.

Það verður því gagnlegt og fróðlegt að fara yfir þetta allt í nefndinni núna. Við unnum það mikið í þessu á síðasta vetri að við eigum mikið efni til að fara vel í gegnum málið núna og kalla fram upplýsingar um hvaða aðstæður gætu kallað á eignarhaldstakmarkanir á fjölmiðlamarkaði út frá því fyrirkomulagi sem við erum að stilla upp hérna og fordæmum fyrir því, slíkum inngripum, sem verða alltaf mjög umdeild og mun alltaf valda miklum deilum, eða oftast nær eins og maður ímyndar sér alla vega.

Markmiðin eru háleit. Verið er að setja upp ákveðinn ramma, og ég held að það sé skynsamleg nálgun. Það koma þá fram ábendingar um hvernig mætti skýra þetta betur en að það sé ekki eins matskennt og við erum að gera úr garði hér með, hver hin fjölmiðlaréttarlegu sjónarmið eru o.s.frv.

Ég vil nefna annað sem mikil umræða fór í í nefndinni síðasta vetur. Lagt var til af hálfu nefndarinnar að tiltekin grein færi út á þeim tíma, eins og hún var orðuð þá, til að ná breiðari samstöðu í nefndinni þar sem nokkrir þingmenn höfðu ýmislegt við hana að athuga, þ.e. 9. gr. í frumvarpinu sem er kölluð hatursáróðursgreinin, 27. gr. laganna. Er því stillt þannig upp, með leyfi forseta:

„Fjölmiðlum er óheimilt að hvetja til refsiverðar háttsemi. Einnig er þeim óheimilt að kynda með markvissum hætti undir hatri á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, trúarskoðana, þjóðernis eða menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar eða annarrar stöðu í samfélaginu.“

Hugsunin er sú ef ritstjórn fjölmiðils væri með þeim hætti að hún hefði mjög skaðleg áhrif á lýðræðislega umræðu í landinu vegna þess hvernig áróðri væri beint gegn tilteknum hópum sem hérna eru taldir upp, ef starfsemi fjölmiðilsins þar sem ritstjórn og efni miðilsins en ekki einstök ummæli í fréttum o.s.frv., eðlilega ekki, ef með markvissum og kerfisbundnum hætti væri verið að keyra hatursáróður gegn þeim hópum.

Hins vegar var mjög deilt um þetta í nefndinni í fyrra, hvernig ætti að meta þetta og hvort væri hægt að misnota það mat til að loka einhverjum fjölmiðlum eða stoppa þá af, einhverjir sem væru á grensunni og allt það. Nú hefur orðalagi eitthvað verið breytt og við förum aftur yfir það hvernig viðhorfin verða til þess að slíkt ákvæði sé þarna inni, sem efni standa vissulega til að reyna að ná utan um eins og fram kemur í útskýringum um 9. gr. þar sem gerð er tillaga um að færa til orðalag „til að skýra betur innihald hennar og koma í veg fyrir hugsanlega réttaróvissu, einkum vegna staðsetningar orðanna „í fjölmiðlum“ í gildandi lögum. Þá þykir betur fara á því að nota orðin „óheimilt er“ í stað „bannað er“. Einnig er lagt til að orðið „skoðanir“ verði fellt út úr ákvæðinu.“

Það er því búið að breyta og laga þá grein, þetta ákvæði, og verður athyglisvert að sjá hvernig viðhorfin verða til hennar nú.

Með því að tilgreina að ákvæðið eigi við starfsemi fjölmiðilsins sjálfs er átt við að ritstjórn og efni fjölmiðilsins beri þess ótvíræð merki að því sé ætlað að stuðla að tilteknum markmiðum, jafnvel þótt þeirra sé ekki getið með skýrum hætti í stefnu eða yfirlýsingum í nafni fjölmiðilsins.

Sú umræða var skrumskæld nokkuð í fyrravetur og lögð þannig út eins og þessu væri beint gegn einhverjum fjölmiðlum og til stæði að fara gegn þeim með þessu o.s.frv., það er auðvitað eins fjarri lagi og hugsast getur. Verið er að hugsa almennt og inn í framtíðina. Mikið var rætt um hvernig netið kæmi inn í þetta, samfélagsmiðlarnir og allir hinir og hvort þetta væri almennt framkvæmanlegt.

Hér er áréttað að beiting ákvæðisins er háð rannsóknum á efnisinnihaldi, hvort miðlun efnis af þessum toga hafi verið samfelld og hvort hugsanlega megi sjá þess stað í atvikum eða samfélagsumræðu að einstaklingar eða samfélagshópar hafi í auknum mæli orðið fyrir aðför eða aðkasti af einhverju tagi. Ýmsir varnaglar eru því slegnir og það ítrekað að ítarleg rannsókn liggi á bak við það áður en því væri beitt. Þetta er eitt af því sem verður auðvitað umdeilt og verður rætt töluvert um og verður athyglisvert að sjá hvernig viðhorfin verða í efnislegri umfjöllun í nefndinni til þess.

Þetta eru þau atriði sem ég vildi nefna sérstaklega en tek það fram aftur að ég tel fyllstu ástæðu til að freista þess að frumvarpið verði að lögum. Ég held að það verði til bóta í öllum atriðum, burt séð frá viðhorfum til einstakra greina eða blæbrigða í þeim þá sé ástæða til að bæta þessu inn í fjölmiðlalögin og breyta nokkrum ákvæðum eins og hér er lagt til. Skerpt er til dæmis mjög á ábyrgðarmannsheitinu og fyrirkomulagi fyrirsvarsmanns, hverjir það eru o.s.frv.

Ég vona að okkur takist að klára málið. Ég held að það sé almennt til bóta fyrir fjölmiðlalögin og þann ramma sem löggjafinn er að sníða utan um fjölmiðlana og starfsemi þeirra, sem er auðvitað sífelldum breytingum háð eins og kom svo ágætlega fram í máli ráðherrans. Það þarfnast sífelldrar endurskoðunar og pólitískrar umræðu hvernig þeim ramma utan um fjórða valdið, þeirrar mikilsverðu starfsemi, er fyrir komið, sérstaklega út af hinum gríðarlegu tæknibreytingum. Fyrir 10–15 árum, sáum við ekki fyrir hvernig það mundi allt þróast á þeim undraskamma tíma, Enginn veit hvernig staðan verður eftir tíu ár, hvort dagblöðin heyri þá sögunni til og hinar formlegu, eiginlegu stóru sjónvarpsstöðvar sem við þekkjum núna sem skaffa okkur fyrir fram ákveðna efnisröðun og fréttatíma o.fl — það mun kannski allt heyra sögunni til og verða með allt öðrum hætti og miklu einstaklingsmiðaðra o.s.frv.

Vegna þess að deiglan er svo mikil er nauðsynlegt að endurskoða þetta reglubundið. Við erum að taka stöðuna eins og hún er núna. Það er sjálfsagt að sníða sterkari ramma utan um starfsemi þessara mikilvægu miðla eins og staðan er í dag.