141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[15:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Ég hef hlustað af mikilli athygli og fagna þeim vilja sem mér finnst ég finna hjá þeim sem hafa tjáð sig til að setja ramma um eignarhald fjölmiðla og fagna því að fólk er reiðubúið að skoða þær tillögur sem hér eru settar fram með opnum huga. Ég tel að þær hafi verið vel unnar og lagður metnaður í þá vinnu að ná fram tillögum sem unnt er að ná sátt um. Ég legg mikla áherslu á að við reynum að ná eins mikilli sátt um þetta mál og unnt er og meðal annars af þeim sökum hafa verið gerðar breytingar á frumvarpinu síðan það var lagt fram síðast. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi sérstaklega hatursáróðursákvæðið sem við áttum mjög gott samtal við hv. þm. Eygló Harðardóttur um, og því ákvæði var breytt til að reyna að bæta það og svara þeirri gagnrýni sem það hafði mætt í umfjöllun þingsins. Sama má segja um ákvæðið um skoðanakannanir sem var í fyrra frumvarpi sem ég felldi út eftir þá umræðu sem varð í þinginu.

Ég ítreka vilja minn til að reyna að vinna þetta mál með þinginu af því að ég tel mjög mikilvægt að við náum því á þessu þingi að lenda einhverri lausn þar sem þessi rammi er skilgreindur. Eins og ég sagði í framsögu minni áðan tel ég að sú leið sem hér er lögð fram, eftir vinnu þeirra aðila sem komu að undirbúningnum, sé skynsamleg.

Þá kem ég að því sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson spurði mig um, hvort ég gæti dregið upp sviðsmyndir af þeim aðstæðum sem gætu kallað fram uppbrot á eignarhaldi og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi að ég hefði vísað því máli frá mér. Að einhverju leyti geri ég það af því að þessi markaður hefur breyst mjög mikið. Hér ræða hv. þingmenn hvort það sé nóg að hafa tvær fréttastofur eða bara tvö dagblöð eða tvo sterka aðila á markaðnum, en þessi markaður er auðvitað mjög breyttur frá því sem verið hefur. Ég nefni sérstaklega þann markað sem unga fólkið nýtir sér í æ meira mæli. Það horfir ekki á línulega miðlun dagskrárefnis í gegnum sjónvarpstækið, sem er sú hefðbundna leið sem við ólumst upp við, heldur nýtir sér netmiðlana. Þar hefur orðið heilmikil samþjöppun á undanförnum árum, netmiðlar hafa runnið saman og gegna hlutverki fréttaveitna og hafa mjög mikil áhrif.

Þegar svo er er ekki endilega horft á málin út frá efnahagslegu áhrifum og stærð fjölmiðla á markaði, sem ný 62. gr. b laganna byggir fyrst og fremst á. Það er rétt að sú grein er mjög tæknilega orðuð og flókin og mér finnst að sjálfsögðu eðlilegt eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi að þetta sé skoðað mjög ítarlega með Samkeppniseftirlitinu. Ástæða þess að fjölmiðlanefnd er tekin þar inn í er að það getur orðið samruni sem miðar að því að draga úr þessu fjölræði og það er mjög erfitt fyrir Samkeppniseftirlitið að meta það út frá efnahagslegum sjónarmiðum eingöngu. Hlutfallslega litlir fjölmiðlar geta runnið saman og haft í för með sér stóraukna einsleitni á fjölmiðlamarkaði og það er kannski verið að horfa til þeirra fræða þegar nefndin velur þá leið að hafa matskenndar heimildir í stað þess að setja statísk viðmið. Þess vegna segi ég að ég sé ekki tilbúin að draga upp einhverjar sviðsmyndir. Mér finnst hins vegar mjög eðlilegt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd kalli til sín fræðimenn og óski eftir því að þeir dragi upp sviðsmyndir, miðað við núverandi fjölmiðlamarkað á Íslandi, af því sem gæti valdið því að þeim heimildum yrði beitt.

Þarna tel ég að mætist tvö sjónarmið. Það er ekki alltaf svo einfalt að hægt sé að segja: Já, þessi fjölmiðill er svona stór og ef þessir tveir stóru fjölmiðlar sameinast er komin ástæða til íhlutunar. Það er kannski ekki endilega nægilegt atriði ef um það er að ræða að margir litlir fjölmiðlar renna í eina sæng. Þeir hafa kannski ekkert sérstaklega stóra markaðshlutdeild en fjölræðið glatast. Þetta er kannski stóra atriðið sem mér finnst skipta mjög miklu máli. Ég er sannfærð um að þetta skiptir miklu máli því að ég lít ekki á fjölmiðla eins og hvert annað fyrirtæki, eins og hvert annað verslunarfyrirtæki svo að dæmi sé tekið, því að þeir hafa því mikilvæga hlutverki að gegna sem ég nefndi áðan sem fjórða valdið, sem aðhald fyrir ríkjandi gildi og ríkjandi stjórnvöld og sem miðlunarleiðir ólíkra sjónarmiða.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson ræddi talsvert um tæknina og hvort hún hefði leyst að einhverju leyti vandann fyrir okkur. Vissulega er rétt að það eru allt aðrar leiðir til að skapa og búa til fjölmiðil núna en fyrir tíu eða fimmtán árum og kannski miklu auðveldara að búa til nýjan fjölmiðil, ef horft er út frá hversu mikið fjármagn maður þarf til að fara af stað með slíkan miðil. En við gerum skýran greinarmun í núgildandi fjölmiðlalöggjöf á fjölmiðlum á netmarkaði og þeim miðlum sem eru reknir í nafni einstaklinga og eru ekki fjölmiðlar samkvæmt skilgreiningu fjölmiðlalaga. Við þurfum auðvitað að halda þeirri skilgreiningu opinni.

Ég held að tæknin hafi leyst vandann að sumu leyti, hún hefur að einhverju leyti auðveldað nýliðun á fjölmiðlamarkaði en hún býr líka til ný viðfangsefni. Ég held að hún hafi ekki dregið úr þörfinni á þessum ramma og ég legg mikla áherslu á að hann verði settur.

Mig langar að nefna það sem hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir minntist á undir lok ræðu sinnar og einhverjir fleiri hv. þingmenn nefndu líka, sem snýr að fjármálahlið frumvarpsins. Í umsögn fjárlagaskrifstofu er sagt að kannski þurfi nýjan starfsmann, kannski ekki. Ég lít ekki svo á að þar sé við frumvarpið að sakast, ég verð að segja það. Ég tel hins vegar eðlilegt að hv. nefnd fái álit Samkeppniseftirlitsins á þessu og ég tel eðlilegt að ef mat manna er að þetta hafi í för með sér aukinn kostnaði verði tekið tillit til þess við vinnslu fjárlaga þessa árs. Þetta kann að hafa í för með sér auknar skyldur, bæði hjá Samkeppniseftirlitinu og að einhverju leyti fjölmiðlanefnd.

Ég ætla ekki að fara í öll þau mál sem hér hafa verið nefnd, svo sem um áfengisauglýsingar og fleira, en ég vil bara ítreka að lokum að mér finnst vera vilji hjá hv. þingmönnum til að ná lendingu um ramma í þessum málum og ég fagna því. Ég tel að það sé mikið kappsmál allra sem vilja veg lýðræðissamfélagsins sem mestan að setja þarna skýr viðmið. Ég ítreka það líka sem ég sagði áðan að þarna eru til að mynda ný ákvæði um friðhelgi einkalífs, breytingar á hatursáróðursákvæðum og fleira sem ég tel til bóta fyrir gildandi löggjöf. Að einhverju leyti tel ég að ef við náum að afgreiða þetta frumvarp, að sjálfsögðu með þeim umbótum sem nefndin telur sig þurfa að gera á því, séum við að ná að loka þessu máli og þá getum við farið að vinna samkvæmt lögunum því að hér er líka verið að leggja til breytingar sem stafa af þeim annmörkum sem hafa komið í ljós á framkvæmd gildandi laga.

Hér undir lokin vil ég aftur vekja athygli hv. þingmanna á vinnu þeirrar nefndar sem nú stendur yfir um aðgengi stjórnmálahreyfinga og annarra hreyfinga að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga og atkvæðagreiðslna. Það mál getum við kannski tekið til umræðu síðar í þinginu, hvort sem næst að klára það eða ekki, en það verður að minnsta kosti eitthvað sem við getum tekið til umræðu í þinginu og þá held ég að þetta þing geti sagt að það hafi staðið vel að umræðu um þessi mál.