141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[15:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þannig að það sé sagt, svo menn reyni nú að læra eitthvað af sögunni, ætla menn ekki að stoppa þetta mál, sem lagt er fram af hálfu stjórnarflokkanna, bara til þess að stoppa það, það er ekki þannig, heldur lítum við á efnisinnihaldið. Ég hef að vísu ekki borið það upp formlega innan flokks míns en ég hef hins vegar fylgst með því sem fulltrúi okkar sjálfstæðismanna í nefndinni, hinni þverpólitísku nefnd, hefur sagt og hvernig hann hefur nálgast málin. Ég styð þá nálgun með öllum fyrirvörum. Ég vil vinna að því að niðurstaðan verði sem skynsamlegust og skili því sem mér heyrist við flest vera sammála um, að leikreglurnar verði skýrar og að komið verði í veg fyrir einhverja mismunun á markaði.

Við munum reyna, í samvinnu við sérfræðinga á fjölmiðlamarkaði sem og Samkeppniseftirlitið, fjölmiðlanefndina og aðra, að draga upp hinar og þessar sviðsmyndir í ljósi reynslunnar, í ljósi þeirra áhrifa sem hinir nýju miðlar geta haft á þróun fjölmiðla almennt til skemmri og lengri tíma. Ýmsar spurningar munu koma upp: Er þetta leiðin til að koma í veg fyrir að hér verði ástand líkt og á Ítalíu undir stjórn Berlusconis? Er þessi leið vel til þess fallin að hafa skýrar leikreglur eða erum við bara að tala um einhverja gamla veröld sem er ekki lengur til? Það kann líka að vera að þetta sé með allt öðrum hætti.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra tvennt. Annars vegar: Hvernig sér hæstv. ráðherra dreifikerfið koma inn í myndina? Nú er verið að úthluta hugsanlegum leiðum varðandi dreifikerfið og kanna hvort það kunni að hafa áhrif á dreifingu fjölmiðla og þá hugsanlega vald þeirra á markaði.

Í öðru lagi er í greinargerðinni vísað til Noregs varðandi endurskoðun á fjölmiðlalögunum sem hófst þar 2011. Veit ráðherra eitthvað um framvindu þeirrar endurskoðunar og þá í hvaða átt sú vinna stefnir?