141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2010.

505. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti fjárlaganefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2010. Nefndin fór vandlega yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2010. Nefndin tók helstu athugasemdir og ábendingar Ríkisendurskoðunar fyrir á fundum sínum og skrifaði viðeigandi ábyrgðaraðilum bréf þar sem óskað var eftir skýringum og viðbrögðum við athugasemdunum. Nefndin fór yfir öll svör sem bárust og lagði mat á þau. Í nokkrum tilfellum reyndist nauðsynlegt að fá viðkomandi aðila til fundar við nefndina þar sem farið var nánar yfir svörin og sjónarmið gesta. Í framhaldinu var tekið tillit til svara og viðbragða í álitinu. Álitið er almennt byggt upp þannig að í upphafi er greint frá athugasemdum Ríkisendurskoðunar, reifuð sjónarmið ábyrgðaraðila og þeirra sem athugasemdin beindist að og síðan er afstaða fjárlaganefndar birt ásamt kröfum um nánari úrbætur eða skýrslur sem notaðar verða við ákvörðunartöku síðar í málinu.

Í áliti fjárlaganefndar vegna endurskoðunar ríkisreiknings 2009 var sú ákvörðun tekin að fjárlaganefnd skyldi framvegis fjalla ítarlegar en áður um ríkisreikning hvers árs og skila Alþingi niðurstöðu í formi skýrslu sem tekin yrði til umræðu á þinginu. Tilgangurinn er þríþættur:

1. Að draga fram helstu athugasemdir Ríkisendurskoðunar á ríkisreikningi, álit fjárlaganefndar á þeim og gera formlegar tillögur til úrbóta.

2. Að hvetja til umræðu um eftirlit og framkvæmd fjárlaga með það að markmiði að leggja grunn að betri og agaðri stjórn ríkisfjármála sem ekki er vanþörf á.

3. Að fylgja því eftir að úrbótum verði hrint í framkvæmd.

Mun ég nú fara yfir helstu athugasemdir nefndarinnar en því miður leyfir sá tími sem mér er úthlutaður ekki að ég fjalli efnislega um þær allar vegna umfangs þeirra og fjölda. Vil ég sérstaklega taka fram að röð athugasemda byggir ekki endilega á mikilvægi þeirra.

Þrátt fyrir gildistöku laga um fjárreiður ríkisins frá árinu 1997 hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið aldrei lagt fram ríkisreikning og lokafjárlög samhliða eins og gert er ráð fyrir í lögunum. Frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2010 var ekki fremur en önnur frumvörp til lokafjárlaga á liðnum árum lagt fram samhliða ríkisreikningi. Ríkisreikningur var lagður fram í júní 2011 og frumvarp til lokafjárlaga var lagt fram 20. október 2011.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 2010 kom út í nóvember 2011. Fjárlaganefnd afgreiddi álit sitt um skýrsluna í lok nóvember 2012, þ.e. ári síðar. Nú um miðjan janúar 2013 fjöllum við síðan um skýrsluna á Alþingi. Öllum má ljóst vera að þessu verður að breyta. Í raun má segja að við séum nú fyrst að ljúka umræðu um rekstur ríkissjóðs fyrir árið 2010. Á sama tíma eru stærstu fyrirtæki landsins að skila ársskýrslum og ársreikningum fyrir árið 2012.

Fyrsta athugasemdin sem ég mun koma að hér snýr að afleiðusamningum Íbúðalánasjóðs. Ríkissjóður lagði Íbúðalánasjóði til 33 milljarða kr. árið 2010 vegna bágrar fjárhagsstöðu sjóðsins sem orðið hefur fyrir miklum útlánatöpum sem og tapi vegna afleiðusamninga. Fjárlaganefnd spurði fjármála- og efnahagsráðuneytið hvers vegna Íbúðalánasjóður geri afleiðusamninga og hvort hann hafi haft til þess heimildir. Fjármála- og efnahagsráðuneytið vísaði þessum spurningum til velferðarráðuneytisins og í svari þess kom fram að með afleiðusamningum hafi verið ætlun Íbúðalánasjóðs að draga úr vaxtaáhættu í kjölfar umtalsverðra uppgreiðslna viðskiptavina á lánum sjóðsins. Afleiðusamningar hafi verið gerðir í samræmi við áhættu- og fjárstýringarstefnu Íbúðalánasjóðs.

Í svari velferðarráðuneytisins kemur einnig fram að með breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, samanber 5. gr. laga nr. 57/2004, var Íbúðalánasjóði gert skylt að koma upp áhættustýringarkerfi í því skyni að halda jafnvægi milli inn- og útgreiðslna og gera áætlanir þar um. Í reglugerð nr. 544/2004, um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs, segir í 2. gr. að stjórn Íbúðalánasjóðs skuli samþykkja stefnuna, þ.e. áhættustýringarstefnuna, og staðfesta breytingar sem gerðar eru á henni að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Jafnframt skal kynna Ríkisábyrgðasjóði og fjármála- og efnahagsráðuneyti fyrirhugaðar breytingar. Í reglugerðinni er þannig ekki gert ráð fyrir því að afla þurfi heimildar fjármála- og efnahagsráðuneytis á fjár- og áhættustýringarstefnu Íbúðalánasjóðs eða einstökum aðgerðum henni tengdum. Íbúðalánasjóði hefur á hinn bóginn borið að kynna fjármála- og efnahagsráðuneytinu stefnuna.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í nóvember 2005 um aðdraganda og gerð lánasamninga Íbúðalánasjóðs við fjármálastofnanir vegna áhættustýringar segir á bls. 29:

„Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 544/2004 er með skýrum hætti mælt fyrir um hvernig standa skuli að breytingum á áhættustýringarstefnu sjóðsins. Þar segir að stjórn Íbúðalánasjóðs skuli samþykkja stefnuna og staðfesta breytingar, sem á henni eru gerðar, að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Jafnframt skal kynna Ríkisábyrgðasjóði og fjármálaráðuneyti fyrirhugaðar breytingar.“

Af þessu má ráða að beinlínis er gert ráð fyrir að leitað sé umsagnar og stefnan kynnt áður en henni er hrint í framkvæmd. Fyrir liggur að sjóðurinn sinnti ekki þessari lagaskyldu sinni fyrr en um það bil hálfu ári eftir að breytingunni á stefnunni var hrint í framkvæmd í lok desember 2004. Þannig hefur Ríkisábyrgðasjóður til dæmis enn uppi ákveðnar efasemdir í þessu efni, samanber bréf hans frá 3. október 2005. Í því bréfi sjóðsins segir:

„Að mati Ríkisábyrgðasjóðs skortir því enn lagaheimild fyrir umræddum lánssamningum.“

Á bls. 29 í áðurnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar segir enn fremur:

„Þá verður bréf Fjármálaeftirlitsins frá 10. maí og 22. júní sl. ekki túlkað á annan hátt en þann að lagagrundvöllur aðgerðanna hafi að minnsta kosti þótt óljós á þeim tíma eða hann hafi í það minnsta ekki verið kannaður nægilega.“

Þó að rík ástæða sé til mun fjárlaganefnd að þessu sinni ekki fjalla nánar um þetta mál þar sem málefni Íbúðalánasjóðs eru enn til rannsóknar af hálfu Alþingis.

Sú skýrsla Ríkisendurskoðunar sem ég vitnaði í, sem var gefin út í nóvember 2005, hefur aldrei verið tekin til umræðu á Alþingi.

Við gerð fjárlaga fyrir árið 2013 voru veittir 13 milljarðar til Íbúðalánasjóðs og er vandi hans hvergi nærri leystur.

Nú mun ég víkja að ábendingum samkvæmt skuldabréfum í vörslu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Skuldabréf í vörslu og innheimtu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar upp á 9 milljarða kr. hafa ekki enn verið skráð í lánakerfi ríkisins. Fjárlaganefnd óskaði eftir upplýsingum um stöðu innheimtunnar, hvort lánin væru í skilum og til hvaða aðgerða hefði verið gripið til að tryggja eignir ríkisins. Heildarfjárhæð þeirra samninga sem Þróunarfélagið hefur gert nemur 14,5 milljörðum kr. og hafa 5,8 milljarðar verið greiddir. Ógreiddir eru 8,7 milljarðar kr. og af því eru ógjaldfallnar afborganir 3,8 milljarðar kr. Ekki eru því öll lán í skilum og munar þar mest um skuldabréf Háskólavalla upp á 4,7 milljarða kr. Útistandandi kaupsamningsgreiðslur frá Háskólavöllum og dótturfélögum eru nú í samningsferli samfara fjárhagslegri endurskipulagningu sem unnið er að í samráði við Þróunarfélagið. Markmið viðræðna er að tryggja hagsmuni ríkisins en veð er í þeim eignum sem seldar voru. Fjárlaganefnd mun óska eftir því að fá upplýsingar um framvindu málsins og að fjármála- og efnahagsráðuneytið meti líkur á því að samningsaðili geti staðið við greiðslur kaupverðs þegar drög að samningum liggja fyrir.

Sementsverksmiðjan hf. var seld Íslensku sementi ehf. 2. október 2003. Kaupverðið var hins vegar aldrei innt af hendi og gagnrýndi Ríkisendurskoðun hvernig haldið var á þessum málum af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytis og eftirlitsstofnana sem komu að málinu.

Fjárlaganefnd óskaði nánari upplýsinga frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Ríkisendurskoðun um hvaða ástæður stofnanirnar teldu fyrir því að innheimtan endaði með þeim hætti sem lýst er í skýrslunni. Í svarbréfi Ríkisendurskoðunar kemur fram að það hafi tekið ESA fimm ár að gefa álit á sölunni og Samkeppniseftirlitið ár í viðbót til að gefa sitt samþykki. Á þessum tíma rann út bankaábyrgð fyrir greiðslu kaupverðs og kaupandinn var kominn í greiðsluþrot. Í framhaldinu var samþykktur nauðasamningur sem skilaði fyrrgreindri fjárhæð í ríkissjóð. Vegna fyrirvaranna var ákveðið að kaupverð yrði ekki greitt við undirritun heldur mundi seljandi útvega bankaábyrgð fyrir allri fjárhæðinni en vegna mistaka við skjalagerð var bankaábyrgðin ekki höfð ótímabundin eins og ráð var fyrir gert í sölusamningi.

Fjárlaganefnd telur skýringar fjármála- og efnahagsráðuneytisins á afdrifum málsins ófullnægjandi þar sem innra eftirlit ríkisins átti að sjá til þess að kröfurnar töpuðust ekki þrátt fyrir þá agnúa sem fyrir hendi voru. Eins og fyrr greinir voru fjárhagslega sterkir aðilar valdir til kaupanna og þeir hefðu átt að vera færir um að útvega þær tryggingar sem öruggar voru taldar og fjármála- og efnahagsráðuneytinu bar að sjá til þess að verkferlar héldu þessu máli í lagi. Fjárlaganefnd beinir þeim tilmælum til ráðuneytisins að málið verði afgreitt innan þess með tilhlýðilegum hætti og að ráðuneytið fari yfir veikleika í verkferlum auk þess að endurskoða vinnubrögð og eftirlit með efnahagsreikningum svo atburðir sem þessi geti ekki endurtekið sig.

Fjárlaganefnd óskar eftir að ráðuneytið skili fjárlaganefnd skýrslu eða ítarlegu minnisblaði um ferli sölunnar og hvernig staðið var að innheimtu söluandvirðisins fyrir lok desember. Á grunni þeirrar skýrslu mun fjárlaganefnd gera tillögu um frekari skoðun á málinu ef þörf er á.

Ríkisendurskoðun hefur undanfarin ár bent á að eftirlitið sé ekki nægilegt. Þeir aðilar sem bóka fyrrgreindar kröfur bera ábyrgð á þeim nema ábyrgðin sé falin öðrum. Fjárlaganefnd telur að þær brotalamir sem lýst er hér við innheimtu á kröfum ríkissjóðs séu óviðunandi. Þá telur nefndin það óásættanlegt að stofnanir ríkisins skýri það sem aflaga fer með því að enginn beri ábyrgð og beinir þeim tilmælum til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að skýrt verði kveðið á um hver beri ábyrgð á sérhverri bókhaldsstöðu í efnahag ríkissjóðs og þar með verði ábyrgðaraðilar skilgreindir sem allra fyrst. Er óskað eftir því að fjármála- og efnahagsráðuneytið gangi frá málinu við viðkomandi aðila.

Ríkisendurskoðun gagnrýndi meðferð landbúnaðarráðuneytisins á tilteknum eignum Lánasjóðs landbúnaðarins sem haldið var eftir við sölu hans til Landsbankans árið 2005. Gerði stofnunin athugasemd við þá ákvörðun ráðuneytisins að ávaxta 214 millj. kr. af þessum eignum, þ.e. handbæru fé sjóðsins, í bankabréfum hjá Kaupþingi banka í stað þess að skila því til ríkisféhirðis. Stærsti hluti þessa fjár tapaðist við fall bankans. Fjárlaganefnd beinir þeim tilmælum til fjármála- og efnahagsráðuneytis að tryggt verði að hvorki ráðuneyti né stofnanir ríkisins geti haldið eftir fé með þessum ámælisverða hætti og að því verði framvegis alltaf skilað til ríkisfjárhirslu.

Á árinu 2010 voru gjaldfærðir rúmlega 27 milljarðar kr. vegna ríkisábyrgða samanborið við rúmlega 3 milljarða árið 2009. Þessi hækkun stafar einkum af því að ríkissjóður yfirtók ábyrgðir af Ríkisábyrgðasjóði vegna Lánasjóðs landbúnaðarins en við fall Landsbankans hf. urðu virkar ríkisábyrgðir vegna skulda sjóðsins. Lánasjóðurinn var seldur bankanum árið 2005 fyrir tæpa 3 milljarða kr. Í kjölfar falls bankans var tekin ákvörðun um að greiða gjaldfallnar afborganir af kröfum sem ríkisábyrgð fylgdi til að koma í veg fyrir að ríkissjóður yrði fyrir tjóni vegna dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Ríkisendurskoðun hefur ekki upplýsingar um hvers vegna skuldir lánasjóðsins voru skildar eftir í gamla Landsbankanum en eignir hans fluttar í nýja bankann. Nefndin óskaði einnig eftir upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um hvers vegna ábyrgðir og eignir sem áttu að standa þeim til fullnustu fylgdust ekki að. Að sögn fjármála- og efnahagsráðuneytis var þegar búið að gefa út umrædd skuldabréf og þau óuppgreiðanleg og því ekki unnt að breyta því að ríkið bæri hina einföldu ábyrgð á greiðslu þeirra færi kaupandinn í greiðsluþrot þrátt fyrir að Alþingi tæki ákvörðun um sölu sjóðsins. Skýrt hafi komið fram í útboðsauglýsingu og meðfylgjandi gögnum að tilboðsgjafi mundi yfirtaka skuldbindingar lánasjóðsins sem í flestum tilfellum voru með ríkisábyrgð. Samkvæmt þessu virðist hafa verið erfitt að koma í veg fyrir að ábyrgðirnar féllu á ríkissjóð. Fjárlaganefnd telur mikilvægt að fjármála- og efnahagsráðuneytið fari yfir þetta mál til að kanna hvort og þá hvernig megi draga af því lærdóm um meðferð ríkisábyrgða með það að markmiði að tilvik sem þetta geti ekki komið upp að nýju.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið stofnaði SpKef sparisjóð í apríl 2010 í því skyni að taka við eignum og innstæðuskuldbindingum Sparisjóðsins í Keflavík samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins með vísan til heimildar í 1. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins kemur fram að það sé mat stjórnenda Sparisjóðs Keflavíkur að eigið fé sjóðsins sé neikvætt um 11 milljarða kr. og að rúmlega 19 milljarða kr. vanti upp á að sparisjóðurinn fullnægi kröfum Fjármálaeftirlitsins um lágmarks eigið fé. Í skýringum við árshlutareikning Landsbankans í lok júní 2011 kom síðan fram að ágreiningur væri á milli aðila um verðmat á eignum sparisjóðsins. Bankinn mæti eignirnar á rúma 43 milljarða en að þær hafi áður verið metnar á tæpa 59 milljarða. Munar þarna um 16 milljörðum kr. Við sameiningu SpKef sparisjóðs við Landsbankann virðist hafa verið gengið út frá því að eigið fé sparisjóðsins væri neikvætt um 11 milljarða kr. og að sá kostnaður kæmi til með að lenda á ríkissjóði.

Úrskurðarnefnd sem sett var á laggirnar með samningi milli íslenska ríkisins og Landsbankans hf. í því skyni að skera úr um endurgjald til Landsbankans hf. vegna yfirtöku á SpKef sparisjóði kvað upp úrskurð 7. júní 2012. Niðurstaða nefndarinnar var sú að endurgjald til Landsbankans hf. vegna yfirtöku á innstæðum og eignum SpKef sparisjóðs skyldi nema tæplega 19,2 milljörðum kr. Með úrskurðinum er endanlega leyst úr ágreiningi milli aðila um greiðslu til Landsbankans hf. vegna yfirtöku á SpKef sparisjóði. Uppgjör til Landsbankans verður samkvæmt samningi aðila í formi ríkisskuldabréfs sem er á gjalddaga 9. október 2018. Fjárlaganefnd bendir á að það munar um 8 milljörðum kr. á niðurstöðu ríkisins og gerðardómsins og hefur nefndin af þeim sökum óskað eftir greinargerð frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um það með hvaða hætti staðið var að yfirtökunni og mati á eignum. Einnig hefur fjárlaganefnd óskað eftir greinargerð um rekstur sjóðsins frá því að ríkið yfirtók hann og þar til hann var endanlega sameinaður Landsbankanum. Var óskað eftir að þær lægju fyrir eigi síðar en í lok desember 2012.

Fjárlaganefnd bendir á að málefni sparisjóðanna eru til rannsóknar af hálfu Alþingis og bíður nefndin eftir niðurstöðu hennar.

Fram hafa komið efasemdir um lögmæti þess að Seðlabankinn ræki félag sem héldi utan um eignasafnið og því óskaði fjárlaganefnd eftir viðbrögðum bankans við þeim athugasemdum. Í svarbréfi bankans kom fram að í lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, er hvorki að finna ákvæði sem beinlínis heimila bankanum að stofna og eiga dótturfélag né ákvæði sem bannar slíka ráðstöfun.

Fjárlaganefnd óskaði eftir að fjármála- og efnahagsráðuneytið legði mat á það hvernig til hefði tekist við að ná markmiðunum en ráðuneytið vísaði alfarið á Seðlabankann. Fjármála- og efnahagsráðuneytið annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga og að mati fjárlaganefndar ber því að taka afstöðu til þeirra þátta sem nefndin spurði um enda beitti ráðuneytið sér fyrir fyrrgreindri hagræðingu. Fjárlaganefnd telur eðlilegt að fjármála- og efnahagsráðuneytið annist þessa eignaumsýslu fyrir hönd ríkissjóðs en ekki Seðlabankinn, samanber 13. gr. laga nr. 115/2011. Þá mun nefndin gera sérstaka athugun á málinu.

Í áliti sínu á skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2009 lagði fjárlaganefnd áherslu á að samkomulag um uppgjör staðgreiðslu á milli ríkis og sveitarfélaga yrði endurskoðað, m.a. í ljósi aukinna vanskila, og óskaði eftir niðurstöðum endurskoðunarinnar fyrir 1. desember 2011. Sá vilji nefndarinnar hefur ekki gengið eftir en í september 2012 var endurskoðuninni ekki enn lokið. Ráðuneytið hefur nýlega hafið viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga og eru Ríkisendurskoðun og Fjársýslan einnig inni í málinu. Fjárlaganefnd leggur áherslu á að fjármála- og efnahagsráðuneytið ljúki málinu sem allra fyrst og tilkynni nefndinni um niðurstöðuna. Þá leggur fjárlaganefnd áherslu á að fjármála- og efnahagsráðuneytið meti hvort ríkissjóður hafi orðið fyrir tjóni af núverandi fyrirkomulagi og geri nefndinni grein fyrir því mati. Jafnframt leggur fjárlaganefnd áherslu á að reglulega verði fylgst með uppgjöri milli ríkis og sveitarfélaga.

Árið 2009 yfirtók ríkissjóður 300 millj. kr. eftirlaunaskuldbindingar Landsbanka Íslands vegna ríkisábyrgðar á þeim. Að mati Ríkisendurskoðunar er eðlilegt að þessi skuldbinding færist yfir til NBI hf. Fyrir liggur sérstök ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins þess eðlis að tilgreindar lífeyrisskuldbindingar fylgi gamla bankanum, en hún er að mati Ríkisendurskoðunar á skjön við hina almennu ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um flutning eigna, skulda og skuldbindinga vegna innlendrar starfsemi bankans yfir til NBI hf. Í samningaviðræðum skilanefndar og erlendra kröfuhafa Landsbanka Íslands kom fram að þeir gætu ekki sætt sig við að NBI hf. verði skuldsettur meira en um var samið því að það muni rýra getu bankans til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart þeim, samanber samkomulag þar um.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið bendir á að rökstuðningur Fjármálaeftirlitsins fyrir þessari ákvörðun hafi verið sá að annað gæti falið í sér óréttmæta mismunun annarra kröfuhafa og það hafi því ekki verið á færi ráðuneytisins að breyta ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Með því að færa kröfuna yfir í nýja bankann hefði ríkissjóður þar með þurft að greiða nýja bankanum kröfuna að fullu. Þar sem mælt var fyrir um það í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum Landsbanka Íslands við Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans hafi verið ákveðið að semja við NBI hf. um útborgun eftirlaunaréttinda umræddra starfsmanna með sama hætti og áður hefði verið gert. Annars hefðu einstakir aðilar eftirlaunasjóðsins átt beinar kröfur á hendur ríkissjóði vegna þeirrar ábyrgðar sem ríkið gekkst í þegar stofnað var hlutafélag um Landsbanka Íslands. Jafnframt var NBI hf. fyrir hönd ríkissjóðs falið að lýsa innleystri ábyrgðarkröfu ríkissjóðs við slitameðferð Landsbanka Íslands hf. Fjárlaganefnd telur óheppilegt að Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið séu ósammála um með hvaða hætti málið var leyst.

Að mati Ríkisendurskoðunar kann að vera ástæða til að kanna hvort ekki sé rétt að eftirlaunaskuldbindingar hjúkrunar- og dvalarheimila sem fá greidd daggjöld frá ríkinu, og eru nú að hluta færðar hjá launagreiðanda, verði að fullu færðar hjá ríkissjóði þar sem reksturinn er á ábyrgð hans. Fjárlaganefnd óskaði eftir að fjármála- og efnahagsráðuneytið staðfesti að ekki væri gert ráð fyrir að daggjöld stæðu undir þessum lífeyrisskuldbindingum og að ótvírætt lægi fyrir að ríkissjóður bæri ábyrgð á þeim. Fjármála- og efnahagsráðuneytið er ósammála fullyrðingu Ríkisendurskoðunar um að „þar sem ekki er gert ráð fyrir að daggjöld standi undir þessum skuldbindingum eru þær íþyngjandi í rekstri þeirra“.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið bendir á að samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar eru greiðslur daggjalda fullnaðargreiðsla af hálfu ríkissjóðs fyrir veitta þjónustu.

„Því er það mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins að ekki sé bein lagaskylda á ríkissjóði vegna þessara lífeyrisskuldbindinga, umfram það sem falli á ríkissjóð vegna bakábyrgðar á B-deild LSR, þegar iðgjaldagreiðslur og lífeyrishækkanir á hverjum tíma standa ekki undir heildarskuldbindingu sem hefur myndast. Bakábyrgð vegna Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga er hins vegar hjá einstökum launagreiðendum en ekki ríkissjóði eins og talið er í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það misræmi sem er í fjárhæð lífeyrisskuldbindingarinnar og iðgjalda og áætlaðra lífeyrishækkana frá launagreiðendum hefur verið fært til skulda í ríkisreikningi. Fjármála- og efnahagsráðuneytið og velferðarráðuneytið eiga nú í viðræðum við Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu um stöðu lífeyrisskuldbindinga aðildarfélaga þeirra.“

Nauðsynlegt er að ljúka málinu sem fyrst. Fjárlaganefnd telur að daggjöld þurfi að standa undir öllum rekstrarkostnaði, þar með talið heildarkostnaði vegna lífeyrisréttinda allra starfsmanna. Því er krafa nefndarinnar að stofnanirnar greiði jafnóðum allan kostnað vegna lífeyrisréttinda starfsmanna til lífeyrissjóðs.

Ríkisendurskoðun bendir á að samkvæmt tryggingafræðilegu mati þarf að hækka heildariðgjald til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins úr 15,5% í 19,5% til að ná nauðsynlegu jafnvægi. Í framhaldinu lagði fjárlaganefnd meðal annars eftirfarandi spurningar fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið:

a. Leikur einhver vafi á því að ríkissjóði beri að greiða þessa skuldbindingu?

b. Hvaða vinna er í gangi hjá ráðuneytinu til að leysa þetta mál?

Ráðuneytið vísar til sameiginlegrar fréttatilkynningar fjármála- og efnahagsráðuneytis og Fjársýslu ríkisins frá 10. febrúar sl. þar sem afstaða ráðuneytisins er sú sama og fram kemur í lögunum, þ.e. að nægi óbreytt iðgjöld ekki til að standa undir skuldbindingunum beri að hækka iðgjöldin sem lendi alfarið á launagreiðanda í A-deildinni. Ákvörðun iðgjalda sé tekin af stjórn sjóðsins þar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið eigi fjóra fulltrúa. Starfshópur með þátttöku bandalaga opinberra starfsmanna hafi frá því í mars 2011 fjallað um stöðu A-deildar og B-deildar og sé ætlað að koma með tillögur að framtíðarlausnum á vanda þeirra.

Fjárlaganefnd telur afar brýnt að sem fyrst verði gripið til viðeigandi ráðstafana til að stemma stigu við þeim sívaxandi vanda sem felst í því að iðgjöld duga hvergi til að standa undir skuldbindingum sjóðsins. Tryggingafræðileg staða A-deildar hefur lengst af verið neikvæð án þess að tekið hafi verið á vandanum sem nú er orðinn gríðarlegur. Fjárlaganefnd hvetur fjármála- og efnahagsráðuneytið til að vinna eins hratt og vel að lausn þessa máls í samvinnu við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og unnt er og óskaði eftir því að ráðherra skilaði nefndinni greinargerð um fyrirætlanir sínar í því efni fyrir lok desember sl.

Ríkisendurskoðun bendir á að ekki hefur verið gert sambærilegt samkomulag við önnur sveitarfélög en Reykjavíkurborg um uppgjör lífeyrisskuldbindinga vegna samreksturs en fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur átt í viðræðum við þau um þessi mál. Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur að vel sé búið að ná utan um stöðu þeirra þótt ekki hafi verið gengið frá samningum við ýmis sveitarfélög um lífeyrisskuldbindingar lífeyrissjóða sveitarfélaga. Í ríkisreikningi hafi um árabil verið færð varúðarfærsla vegna þessa og nam uppsöfnuð fjárhæð hennar 5 milljörðum kr. í lok árs 2010. Fjárlaganefnd telur nauðsynlegt bæði fyrir ríki og sveitarfélög að sem fyrst verði gengið frá samningum um þessi mál og að æskilegt sé að þeim viðræðum ljúki sem fyrst.

Fjárlaganefnd óskaði eftir upplýsingum um afstöðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins til þessarar ábendingar og hvort ráðuneytið mælti með því að gripið yrði til aðgerða vegna þessa. Fjármála- og efnahagsráðuneytið tekur undir athugasemdir Ríkisendurskoðunar og hefur ítrekað bent velferðarráðuneytinu á þetta og í upplýsingagjöf bæði til ríkisstjórnar og fjárlaganefndar Alþingis. Í öllum greiningum vegna milliuppgjöra á árunum 2010 og 2011, sem send voru fyrrgreindum aðilum, var bent á að taka þyrfti á alvarlegri stöðu þessa liðar. Þrátt fyrir það tók velferðarráðuneytið ekki af nægilegri festu á vandanum. Hann hafi verið ljós allt árið 2010 og 2011, og í veikleikamati ársins 2012 er talað um að útgjöldin geti orðið 920 millj. kr. umfram fjárheimildir og jafnvel meiri. Fjárlaganefnd telur að sú staða sem komin er upp og hefur staðið þetta lengi sé óviðunandi og að velferðarráðuneytinu beri að leysa þetta mál án tafar.

Ríkisendurskoðun bendir á að afstemming gagna við uppfærslu á Orra var ekki gerð með þeim hætti sem Ríkisendurskoðun hefði kosið. Fjárlaganefnd telur mikilvægt að Fjársýslan dragi lærdóm af þeim vandamálum sem fram komu og taki mið af ábendingum Ríkisendurskoðunar.

Fjárlaganefnd telur að leggja eigi áherslu á að stofnanir birti viðurkenndar kennitölur með rekstraruppgjörum sínum sem Ríkisendurskoðun muni síðan endurskoða. Þeim tilmælum er beint til ráðuneyta að þau beiti sér í þessu máli eins og þeim ber skylda til.

Nú mun ég koma inn á einn góðan kunningja til viðbótar, Hörpu. Búið er að færa skuldbindingar ríkisins vegna stofnkostnaðar í skýringar ríkisreiknings. Hins vegar reyndist rekstrarniðurstaðan undir væntingum og verður ekki annað séð en að áframhaldandi hallarekstur sé fram undan að óbreyttum forsendum. Fjárlaganefnd telur afar brýnt að stjórnvöld grípi til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir áframhaldandi hallarekstur.

Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að niðurstaða fáist um hvort ríkissjóði beri að færa til skuldar hjá sér halla A-deildar sem ógreidd iðgjöld í árslok 2010. Um verulega fjárhæð er að ræða. Fjárlaganefnd telur að sú niðurstaða þurfi að liggja fyrir eigi síðar en við útgáfu ríkisreiknings ársins 2012.

Starfsmenn ýmissa félaga og samtaka sem ekki geta talist eiginlegir ríkisaðilar hafa í gegnum tíðina fengið aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga. Má þar nefna starfsmenn sparisjóða, stéttarfélaga, stjórnmálaflokka, sveitarfélaga og ýmissa aðila með bakábyrgð sveitarfélaga, svo sem sjálfseignarstofnana á þeirra vegum. Sama máli gegnir um starfsmenn ýmissa heilbrigðisstofnana sem greiddu iðgjöld til Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga. Það sem upp á vantar til að launagreiðendur geti staðið skil á mótframlagi lendir á ríkissjóði vegna bakábyrgðar hans. Af þessum ástæðum hefur helmingur skuldbindingar launagreiðenda sem nam alls 17,3 milljörðum kr. í árslok 2010 verið færður í ríkisreikningi sem hluti af lífeyrisskuldbindingum ríkisins, þ.e. 8,8 milljarðar kr.

Ríkisendurskoðun lýsir áhyggjum yfir að fjárhagsstaða margra þessara stofnana sé með þeim hætti að ekki verði séð að þær hafi að óbreyttu bolmagn til að standa undir lífeyrisskuldbindingum sínum að fullu þegar til greiðslu þeirra kemur. Það er álit fjárlaganefndar að starfsmenn félaga og samtaka sem ekki geta talist ríkisaðilar fái framvegis ekki aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og rétt sé að breyta lögum sjóðsins þess efnis. Fjárlaganefnd beinir því til stjórnvalda að bregðast við þessari ábendingu.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir helstu atriði fjárlaganefndar og vil að lokum benda á ítarlegt álit nefndarinnar á skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ríkisreiknings 2009. Fjárlaganefnd fagnar því að brugðist hefur verið við ýmsum athugasemdum sem þar koma fram en ítrekar mikilvægi þess að það sem enn stendur út af verði fært til betri vegar sem fyrst.

Fjárlaganefnd þakkar Ríkisendurskoðun fyrir skýrsluna og öllum hlutaðeigandi aðilum fyrir skjót viðbrögð og samstarf við vinnslu hennar.

Þeir sem skrifa undir þetta álit, fyrir utan þann sem hér stendur og er framsögumaður málsins, eru hv. þingmenn Björn Valur Gíslason, Björgvin G. Sigurðsson, Guðrún Erlingsdóttir, Höskuldur Þórhallsson, Kristján Þór Júlíusson, Lúðvík Geirsson, Magnús Orri Schram og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.