141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2010.

505. mál
[16:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi spyrja hv. þingmann Ásbjörn Óttarsson hvort í undirskrift hans án fyrirvara undir álit fjárlaganefndar felist samþykki hans á því hvernig þetta var framkvæmt, þetta sérstaka dæmi.

Það sem vantar inn í þetta að mínu mati er að undanfarin tvö ár hafa lokafjárlög og ríkisreikningur ekki stemmt við fjáraukalögin. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort einmitt þetta hafi verið rætt þegar unnið var að áliti fjárlaganefndar. Hver greiðir úr ríkissjóði umfram fjárheimildir? Það hleypur á tugum milljarða, 40–50 milljörðum. Þetta eru ekki litlar upphæðir.

Í 41. gr. stjórnarskrárinnar, af því að við erum nú að breyta stjórnarskránni og viljum fara að henni, stendur, með leyfi forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Það má sem sagt ekki greiða út peninga úr ríkissjóði. Það má ekki samkvæmt stjórnarskrá, ekki samkvæmt lögum, fjárreiðulögum o.s.frv., heldur samkvæmt stjórnarskránni sjálfri. Þá spyr maður sig: Hvernig stendur á því að einhver opinber starfsmaður, forstöðumaður einhverrar stofnunar fer umfram fjárlög í greiðslum sínum því að hann er að brjóta stjórnarskrána?

Það er athyglisvert að í þessari greiningu er talað um að fara þurfi að fjárreiðulögum o.s.frv., en ég hef ekki séð talað um stjórnarskrána.