141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er á ferð mikilvægt réttlætismál sem felur í sér að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga í landinu á við skráð trúfélög og virða þar með í reynd jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Hún kveður einmitt sérstaklega á um jafna stöðu borgaranna fyrir lögum án tillits til trúarbragða, skoðana og annarra þátta, auk þess sem stjórnarskráin undirstrikar rétt manna til trúfrelsis sem og rétt þeirra til að standa utan trúfélaga.

Annað meginmarkmið þessa frumvarps er að tryggja jafnrétti foreldra barns við ákvörðun um hvaða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn þeirra skuli tilheyra. Sú regla hefur verið við lýði í okkar samfélagi áratugum saman og er í gildandi lögum að barn skuli við fæðingu tilheyra sama trúfélagi og móðir þess.

Í 4. gr. þessa frumvarps eru lagðar til breytingar á 3. gr. gildandi laga um skilyrði fyrir skráningu trúfélags. Lagt er til að skilyrði skráningar trúfélags verði að um sé að ræða félag sem leggi stund á átrúnað eða trú. Þá er lagt til að skilyrði skráningar lífsskoðunarfélags verði að um sé að ræða félag sem byggist á veraldlegum lífsskoðunum, miði starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og fjalli um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti.

Þar að auki er lagt til að félagið hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug, tilgangur þess stríði ekki gegn lögum, góðu siðferði eða allsherjarreglu, að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem taki þátt í starfsemi þess og styðji lífsgildi félagsins. Jafnframt eru sett þau skilyrði að félagið sjái um tilteknar athafnir og er þar vísað í skírn, nafngjafir, hjónavígslu, fermingar, útfarir o.s.frv.

Í stjórnarskrá lýðveldisins er ekki að finna ákvæði sem vernda iðkun annarrar sannfæringar en trúarlegrar. Ákvæði 63. og 64. gr. stjórnarskrárinnar veita eiginlegum trúfélögum, trúarskoðunum og trúariðkun sértæka og ríkari vernd en öðrum trúfélögum eða annars konar sannfæringu en trúarlegri. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að í mannréttindasáttmála Evrópu er skýrt kveðið á um hugsana-, samvisku- og trúfrelsi. Það er þetta samhengi sem hefur verið gagnrýnt með tilliti til okkar samfélags og okkar löggjafar. Ákvæði í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi eru efnislega sambærileg við 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hvað þetta varðar. Það er því ljóst að vernd íslensku stjórnarskrárinnar er lakari en vernd þessara sáttmála og að mati fræðimanna stangast hún á við 9. gr. mannréttindasáttmálans og 18. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Meiri hlutinn bendir á að upp hafa komið efasemdir um að 63. gr. stjórnarskrárinnar um trúfrelsi uppfylli viðmið 65. gr. um jafnrétti, þ.e. að ekki megi mismuna sannfæringu eftir því hvort hún er trúarleg eða ekki.

Nefna má að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt almenna umsögn um skýringar á ákvæðum 18. gr. samningsins. Þar er lögð áhersla á að hugsana- og samviskufrelsi sé verndað til jafns við trúfrelsi og að verndin sé hvorki takmörkuð við hefðbundin trúarbrögð né sannfæringu eða hefðir sem styðjist við hefðbundin trúarbrögð.

Þá hefur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkt ályktun um afnám trúarlegs óumburðarlyndis en þar eru ríki hvött til að tryggja að stjórnskipun þeirra og lög veiti virka vernd fyrir hugsana-, samvisku- og sannfæringarfrelsi. Allsherjarþingið hefur sömuleiðis hvatt til þess að gripið sé til aðgerða á vegum ríkjanna til þess að efla umburðarlyndi og virðingu fyrir sannfæringu annarra.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að taka þau mannréttindasjónarmið sem liggja að baki frumvarpinu alvarlega og því sé brýnt að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga til að reyna að tryggja að mismunun eigi sér ekki stað í garð fólks eða hópa vegna trúar þeirra eða lífsskoðunar.

Virðulegi forseti. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. gildandi laga um skráð trúfélög skal barn frá fæðingu tilheyra sama skráða trúfélagi og móðir þess, eins og ég nefndi hér áðan. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þessu ákvæði þess efnis að séu foreldrar barns við fæðingu þess í hjúskap eða skráðri sambúð skal það heyra til sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og foreldrar þess en vera ella utan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrana. Ef foreldrar, sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu barns, heyra hins vegar ekki til sama trú- eða lífsskoðunarfélags skulu þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá hvaða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn skuli tilheyra. Fram til þess tíma verður þessi staða barnsins ótilgreind. Í þriðja lagi, ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist skal barn heyra til sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og það foreldri sem fer með forsjá þess en ella vera utan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrið.

Það kemur fram í áliti meiri hlutans að þetta fyrirkomulag í gildandi lögum hefur verið gagnrýnt talsvert á undanförnum árum. Við vitnum til sjónarmiða og yfirlýsinga Jafnréttisstofu frá 1. desember 2008 þar sem fram kemur að tæpast sé í samræmi við jafnréttislög og bann þeirra við mismunun á grundvelli kyns að kyn, þ.e. móðernið, ráði því alfarið í hvaða trúfélag barn er skráð frá fæðingu. Einnig taldi Jafnréttisstofa að ekki væri að sjá að í því felist neinir hagsmunir, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að barn sé sjálfkrafa skráð í trúfélag hvort sem það fylgir skráningu móður eða föður. Þessi álitamál voru rædd ítarlega í nefndinni en sambærileg sjónarmið komu fram hjá nokkrum umsagnaraðilum. Jafnframt kom fram það sjónarmið að betur færi á því að upplýst samþykki barnsins lægi fyrir við skráningu í trúfélag eða lífsskoðunarfélag, enda væri annars verið að grafa undan getu barnsins til að taka sjálfstæða ákvörðun.

Það kemur fram í álitinu að meiri hlutinn hefur fullan skilning á þessum sjónarmiðum og telur rétt að haldið sé áfram að skoða þessi álitaefni þótt ekki séu lagðar til frekari breytingar í þessum áfanga. Raunar má færa gild rök fyrir því að ganga hefði mátt enn lengra og afnema sjálfkrafa skráningu barna í trúfélag eða lífsskoðunarfélag. Það er rétt að komi fram að ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það skref væri eðlilegt og mundi vilja beita mér fyrir því að það yrði stigið í nánustu framtíð. Hins vegar má vel fallast á þá afstöðu meiri hlutans — og ég geri það — að eðlilegt sé að gefa aðilum í samfélaginu ákveðið rými til að vega og meta slíka breytingu, koma sjónarmiðum sínum á framfæri í opnu umsagnarferli og þess vegna sé rétt að slík breyting, sem kalla má býsna róttæka, komi fram í næsta áfanga breytinga á þessum lögum.

Meiri hlutinn telur með öðrum orðum mikilvægt að tiltöluleg sátt sé um þau viðkvæmu mál sem hér um ræðir og er niðurstaða meiri hlutans mörkuð í því ljósi. Ef breytingar eiga í reynd og framkvæmd að leiða til góðs skiptir miklu máli að ríkjandi skipan sé í engu kollvarpað heldur að örugg skref séu tekin í rétta átt með tilliti til mismunandi sjónarmiða, eins og gert er með fyrirliggjandi frumvarpi. Meiri hlutinn áréttar að með þeim breytingum á aðild að skráðu trúfélagi sem hér eru lagðar til er fyrst og fremst verið að jafna stöðu þeirra sem fara með forsjá barns við fæðingu þess og tryggja jafnræði þeirra. Trúfélagsleg staða barna mun því taka mið af stöðu beggja foreldra innan eða utan trúfélaga.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á öðrum lögum til að tryggja jafnræði lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög á öllum sviðum samfélagsins. Með þeim breytingum sem lagðar eru til á lögum um sóknargjöld er gert ráð fyrir að skráð lífsskoðunarfélag öðlist rétt á ákveðinni hlutdeild í tekjuskatti, álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu að ekki sé hægt að segja fyrir um hversu mikil fjölgun gæti orðið á einstaklingum sem framlag vegna sóknargjalda miðast við, þar sem lífsskoðunarfélög muni við skráningu fá greidd framlög úr ríkissjóði vegna sóknargjalda í stað þess að fjármagna sig af sjálfsaflafé.

Það er mat fjárlagaskrifstofunnar að líkur séu á að einstaklingum sem ríkissjóður greiðir sóknargjöld með fjölgi um fleiri hundruð og jafnvel þúsundir til lengri tíma litið og megi gera ráð fyrir því að þessi fjölgun hafi í för með sér lækkun á einingarverðsviðmiðun framlaga vegna sóknargjalda. Ég vil hins vegar leggja á það ríka áherslu og meiri hlutinn bendir á það að hvergi í umfjöllun meiri hlutans eða í þessu frumvarpi er neinn fótur fyrir því að ætlunin sé að skerða tekjur ríkisins af sóknargjöldum. Afar mikilvægt er að fram komi að við erum ósammála því sjónarmiði sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Með hliðsjón af þessu og lögum um sóknargjöld er það mat meiri hlutans að sóknargjöld séu félagsgjöld sem íslenska ríkið hefur tekið að sér að innheimta en ekki framlög úr ríkissjóði með einstaklingum sem ríkissjóður greiði sóknargjöld með. Tekur meiri hlutinn ekki undir umsögn fjárlagaskrifstofunnar heldur telur þau sjónarmið sem þar koma fram raunar stangast á við eitt meginmarkmið frumvarpsins.

Að lokum áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að íslensk lög uppfylli ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Líkt og þegar hefur verið greint frá er eitt af meginmarkmiðum hans að viðhalda jafnrétti og jafna stöðu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga svo og foreldra við ákvörðun um hvaða skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn þeirra skuli tilheyra. Meiri hlutinn telur þessi réttindi afar mikilvæg og breytingarnar sem frumvarpið felur í sér markvisst skref til úrbóta og réttarbóta í þessum efnum.

Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir álit meiri hlutans rita Björgvin G. Sigurðsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, framsögumaður, Skúli Helgason, Björn Valur Gíslason, Lúðvík Geirsson og Birgitta Jónsdóttir.