141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[16:45]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma upp og fagna þessu frumvarpi. Ég held að í því felist mikil réttarbót og skref sem er löngu tímabært að taka.

Mig langaði þó að biðja hv. flutningsmann meirihlutaálitsins að fara aðeins betur í þá umræðu sem fór fram um þá breytingu sem gerð er með 9. gr. frumvarpsins. Hv. þingmaður lýsti þeirri skoðun sinni hvað það mál varðar að hann hefði talið að lengra mætti ganga, en í frumvarpinu er lögð til sú breyting að skráning fari ekki eingöngu eftir skráðu trúfélagi móður heldur beggja foreldra. Sú breyting að barnið heyri til sama félagi og báðir foreldrar þess er að sjálfsögðu mjög mikilvæg og góð og í átt að jafnrétti. En ég velti fyrir mér af hverju í ósköpunum þurfi að skrá nýfædd, ómálga börn sjálfkrafa í trúfélög. Af hverju er þörf á því? Ræddi nefndin það eitthvað frekar? Ef við erum sammála um það yfir höfuð að eðlilegt sé að skrá ómálga börn í trúfélög ættu foreldrar þeirra ekki að minnsta kosti að hafa fyrir því að mæta sjálfir og skrá börnin eftir að hafa tekið umræðu um það og tekið þá ákvörðun? Af hverju þarf þessi skráning að gerast sjálfkrafa? Viljum við það?

Mig langaði að vita hvort nefndin hefði farið betur yfir þetta því að það segir í nefndaráliti meiri hlutans að tekið sé undir þau sjónarmið sem fram komu og rétt sé að halda umræðunni áfram, en það verði að gefa rými. Hvaða rými er verið að gefa? Hver yrðu næstu skref, hvað er lagt til, hvenær eigum við að taka málið upp aftur? Mér finnst þessi rökstuðningur vera mótsagnakenndur.