141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reifaði í máli mínu þau rök sem standa fyrir því að fara þessa leið. Þau eru kannski ekki endilega efnisleg heldur fyrst og fremst þau að í viðleitni til að skapa sátt um mál, sem margir telja viðkvæmt, sé eðlilegt að skref eins og þingmaðurinn lýsir — sem ég er efnislega sammála — komi fram í frumvarpi sem er sent til umsagnar og allir sem telja sig málið varða í samfélaginu og hafa á því sterkar skoðanir hafi möguleika á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Það eru í raun og veru veigamestu rökin að mínu viti fyrir því að stíga ekki þetta skref í þessum áfanga. Ég er í hjarta mínu þeirrar skoðunar og tilbúinn að beita mér fyrir því í þinginu í mjög náinni framtíð að fram komi frumvarp í þá veru. Ég tel mjög mikilvægt að við tökum þessa umræðu. Ég held að það væri mun farsælla og eðlilegra til framtíðar að upplýst ákvörðun fylgi því þegar einstaklingar, hvort sem þeir eru börn eða fullorðnir, eru skráðir í trúfélag og hið sama eigi að sjálfsögðu að gilda um lífsskoðunarfélög. Ég er tilbúinn að taka þá umræðu á þessum vettvangi og hvar sem er.

Niðurstaða meiri hlutans er að lagfæra fyrirkomulagið þannig að börn verði ekki lengur skráð sjálfkrafa í sama trúfélag og móðir. Það er mikilvægt skref og ber að fagna því. En þetta er bara áfangi á þessari leið eins og ég hef rakið.