141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurn hans. Það er reyndar að einu leyti ekki alveg rétt með farið. Það er þannig í 9. gr. frumvarpsins að ef um það er að ræða að foreldrar sem eru í hjúskap eða sambúð heyra ekki til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi skuli þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá hvaða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn þeirri eigi að heyra til. Þarna er í raun opnað fyrir meira svigrúm til að taka tillit til eigum við að segja sjálfstæðra skoðana eða sjálfstæðis barna en þegar foreldrar eru báðir í sama félaginu.

Það er niðurstaða innanríkisráðherra að gera þetta með þessum hætti. Ég tel að þetta sé líka umdeilanlegt atriði og maður getur velt fyrir sér hvort í framhaldinu eigi að breyta því sem og því sem hv. þingmaður nefnir um aldursviðmiðunina; að miða við að 16 ára börn geti skráð sig úr félögum en ekki einmitt fermingaraldurinn. Þetta er auðvitað angi af sama máli og svo ég endurtaki það enn og aftur þá er mín skoðun sú að við eigum að hafa upplýsta ákvörðun á bak við skráningu í hvort sem er trúfélag eða lífsskoðunarfélag og það hljóti að vera framtíðin að við beitum okkur fyrir því að það nái fram að ganga hér í þinginu.