141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[16:57]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir svarið. Ef til vill hef ég misskilið eitthvað en hér stendur samt sem áður í b-lið 9. gr. frumvarpsins að 2. töluliður 2. mgr. 8. gr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Ef foreldrar barns sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess heyra ekki til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga skulu þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barnið eigi að heyra til. “

Þetta er alveg rétt. En í 3. tölulið segir, með leyfi forseta:

„Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og það foreldri sem fer með forsjá þess en ella vera utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrið. “

Þarna hefði mér einfaldlega fundist betur við hæfi að fella út 3. tölulið og láta það sama gilda. Ef foreldrar, hvort sem þeir eru í sambúð eða ekki, geta ekki komið sér saman um í hvaða trúfélagi barnið á að vera er langeðlilegast að þeir bíði með að skrá barnið þangað til það hefur nægt vit til þess að skrá sig sjálft.