141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar um það frumvarp sem nú er til umræðu um breytingu á lögum um skráð trúfélög, frá árinu 1999, með síðari breytingum. Þetta snertir, eins og hefur komið fram í umræðunni, lífsskoðunarfélög o.fl.

Markmið breytinganna með þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar er að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga. Jafnframt er ætlunin að tryggja jafnrétti foreldra við ákvörðun um hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn þeirra skuli tilheyra. Lögunum er ætlað að tryggja jafnræði lífsskoðunarfélaga á við trúfélög á öllum sviðum. Þetta er að mínu mati afar óljóst og mjög opið. Það kom meðal annars fram í máli gesta sem komu á fundinn og reyndar voru einnig uppi efasemdir af hálfu þeirra sem teljast til stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar um hvað mundi falla undir lífsskoðunarfélög. Það er alls ekki hægt að segja að það sé alveg skýrt eftir meðferð nefndarinnar, hvað þá að lesa frumvarpstextann sem slíkan.

Það má spyrja hvort raunhæft sé og rétt — það var meðal annars dregið fram af hálfu nefndarmanna — að leggja lífsskoðunarfélög og trúfélög að jöfnu, sér í lagi þegar erfitt er að draga mörkin við þau lífsskoðunarfélög sem kunna að falla undir skilgreiningu frumvarpsins. Rétt er að draga fram að sérstakri nefnd hefur verið falið að fjalla um hvort félög geti fallið undir skilgreiningu frumvarpsins. Það undirstrikar að mínu mati algjörlega hversu matskennt þetta ákvæði er í frumvarpinu. Alls konar hlutir voru dregnir fram sem voru að mínu mati að hluta til fjarstæðukenndir en samt ekki þannig að menn gætu tekið af allan vafa um það hvað mundi falla þarna undir og hvað ekki. Ýmis dæmi voru dregin fram sem sýna að málefnið er ekki nægilega vel reifað eða rætt, hvorki innan nefndar né utan.

Ég hlustaði á umræðuna hér áðan og mér fannst andsvörin draga enn frekar fram hversu mikið við þurfum að ræða þetta mál í heild sinni. Öll umræða er að sjálfsögðu ákjósanleg en greining á frumvarpinu, hvaða áhrif það hefur á kirkju og samfélag, er eftir. Við eigum eftir að meta hvaða félagslegu áhrif frumvarpið hefur til skemmri og lengri tíma. Ég held að það hefði ekki skaðað ef sú vinna hefði farið fram en það er alveg ljóst að vegna þrýstings innan ríkisstjórnarflokkanna, meðal stuðningsmanna þeirra og ekki síður hjá þeim sem menn hafa kallað varadekk ríkisstjórnarinnar, hefur mikið kapp verið lagt á að fá þetta fram.

Í 4. gr. frumvarpsins eru sett fram skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags. Það er álit minni hlutans að þau skilyrði sem þar eru sett fram séu of matskennd, óljós og opin og gefi of víðtækt svigrúm til túlkunar. Minni hlutinn tekur jafnframt undir gagnrýni umsagnaraðila í þessum efnum um nauðsyn þess að setja fram skýra skilgreiningu á hugtakinu lífsskoðunarfélag. Það var svolítið erfitt að fá skýra skilgreiningu, eins og ég hef ýjað að, þannig að það væri hafið yfir mestallan vafa hvað mundi falla þar undir enda þarf sérstök nefnd, þá væntanlega stjórnsýslunefnd, að fjalla nákvæmlega um þetta atriði.

Minni hlutinn vísar í umsögn biskups Íslands frá því í vor um nákvæmlega þetta sama mál. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hugtakið lífsskoðunarfélag er nýtt af nálinni og á við um félag sem sinnir athöfnum sem hingað til hafa einvörðungu verið skilgreindar á hinu trúarlega sviði. Um margt eru skilin óljós í milli trúfélags og lífsskoðunarfélags. Með frumvarpinu verður heimilt að skrá lífsskoðunarfélög líkt og trúfélög og veita þeim þau réttindi og skyldur sem skráð trúfélög njóta samkvæmt lögum. Skráning lífsskoðunarfélags á þennan hátt er þekkt frá Noregi, en ekki öðrum Norðurlandanna. Í Noregi eru það sérstök lög sem eiga við um lífsskoðunarfélög.

Hér er allróttæk breyting,“ — heldur biskup Íslands áfram — „sem stefnt er að með hagsmuni eins félags í huga, félags sem skilgreinir sig með þeim hætti sem lagafrumvarpið gerir og býður upp á athafnir við helstu tímamót ævinnar. Nú munu þær athafnir fá lagastoð með sama hætti og skírn og hjónavígsla á vettvangi trúfélags. Þetta er nýmæli og verður áreiðanlega vandi að ákvarða, þegar fram í sækir og fleiri félög æskja þessa réttar, með hvaða hætti það skuli metið.“

Hér vil ég bæta við „fleiri félög æskja þessa réttar“ að við vorum einmitt að reyna að nálgast þetta í minni hlutanum í umræðunni. Hvað ef alls konar félög reyna að skilgreina sig á þann veg að þau vilji veita barni nafn eða koma fólki í skráða samvist og þau æskja þessa réttar en hafa einhvern allt annan tilgang en bara að skíra, ferma og gifta? Hvernig á að meta þau? Þetta er allt mjög undarlegt.

Síðan heldur biskup Íslands áfram, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir skilgreiningu frumvarpsins í 4. gr. má færa rök fyrir því að skilyrði til skráningar séu of opin og illa skilgreind. Frumvarpið kveður á um að til að lífsskoðunarfélög fái skráningu þurfi þau að bjóða upp á athafnir eins og skírn eða nafngiftir, fermingu, hjónavígslu og útför. Í greinargerð segir þó að ekki þurfi félög að bjóða upp á þær allar heldur aðeins hluta þeirra. Þetta þýðir að hvaða félag sem er getur boðið upp á einhvers konar manndómsvígslu og sótt um leyfi.“

Það gefur að skilja að þegar menn sjá möguleika á að fá úthlutað fé úr ríkissjóði þá segir sagan að þeir muni finna leiðir til að stofna félög um einhverjar manndómsvígslur til þess að fá fjárstuðning frá ríkinu. Með fullri virðingu fyrir slíkri nefnd sem á að ákvarða hvaða félög séu tæk eða ekki þá undirstrikar þetta hversu óljós skilgreiningin er. Þetta er í rauninni mjög óljós og opinn tékki fyrir hugsanleg félög í samfélaginu til að fá stuðning úr ríkissjóði.

Þótt miklar efasemdir væru settar fram um óljósa skilgreiningu hugtaksins lífsskoðunarfélag — sem ég vísaði í — og réttmæti þess að leggja trúfélög og lífsskoðunarfélög að jöfnu var lítill vilji hjá meiri hluta nefndarmanna að fara betur yfir málið enda augljós ætlun meiri hlutans, eins og ég gat um áðan, að knýja málið í gegnum þingið eins og menn ætluðu að gera síðastliðið vor. Það sem skilur á milli og undirstrikar að knýja eigi málið í gegn er ákveðið umsagnarferli sem málið fór í frá því að það var lagt fram í vor og síðan aftur núna, en það var engin önnur heimild til þess að greina nákvæmlega áhrifin. Á frekar undarlegum fundi allsherjar- og menntamálanefndar fyrr í morgun um stjórnarskrána — þyngra en tárum taki að hugsa til þess hvaða málsmeðferð það grundvallarplagg í íslensku samfélagi hlýtur — og í þessu máli er algjörlega ómögulegt að fá meiri hluta þingsins og allsherjar- og menntamálanefndar til þess að greina efnahagsleg og félagsleg áhrif slíkra frumvarpa. Ég hefði einmitt haldið að á grundvelli kröfunnar um upplýsta umræðu og þess að menn kalla eftir sjónarmiðum sem hafa ber í heiðri, eins og það var orðað hér áðan, að auðsótt hefði verið að fara betur yfir þetta tiltekna atriði.

Minni hlutinn telur einnig einsýnt að ætlun meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar ásamt innanríkisráðherra sé að skerða sóknargjöld trúfélaga. Því er minni hlutinn alfarið andsnúinn. Það hefur ekkert annað komið fram af hálfu meiri hlutans við umræðu og meðferð frumvarpsins fyrr en í rauninni núna, en það skiptir akkúrat engu máli. Af hverju segi ég það? Jú, af því að ég benti margítrekað á það við umræðu við fjárlögin sem því miður allt of fáir þingmenn stjórnarinnar hlustuðu á því að það var ákveðinn tilgangur með þeirri miklu umræðu eins og að vekja athygli á ýmsum málum sem tengjast fjárlögunum, m.a. þessu. Við bentum ítrekað á, þrátt fyrir orð meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar núna, að það væri alveg ljóst að erfitt er að fara út fyrir skilning fjárlagaskrifstofunnar sem segir hreint og klárt að ekki sé meira í þessum potti, honum verði úthlutað og dreift eins. Þess vegna munu sóknargjöldin væntanlega skerðast. Þá munu menn segja: Það er að einhverju leyti búið að bæta í sóknargjöldin. Það hefur ekkert með það að gera, akkúrat ekkert, og menn verða að hafa það hugfast.

Það var ömurlegt að hlusta á umræðuna í kjölfar þess að biskup Íslands tilkynnti í nýársávarpi sínu að fara í söfnun til að styrkja tækjakaup á Landspítalanum, nokkuð sem á sér langa sögu, m.a. af hálfu kvenna, að styrkja og efla starfsemi Landspítalans í gegnum tíðina, áratugasögu Landspítalans, að þá skyldi einmitt hnýtt í biskup Íslands, fyrstu konuna sem gegnir því embætti, af því að hún setti þetta svona fram.

Ég undirstrika að sú umræða sem varð í kringum fjárlögin skiptir máli og að menn átti sig á því. Síðan í samhengi við orð biskups Íslands varðandi söfnunina til Landspítalans þá komu fram ranghugmyndir, meðal annars af hálfu þeirra þingmanna sem hafa tekið þátt í fjárlaganefnd og ýmissa annarra þingmanna, sérstaklega Samfylkingarinnar, þess efnis að líta allt öðrum augum á sóknargjöld en þau þýða raunverulega. Ég mun fara yfir það á eftir og vitna í umsögn frá KFUM og KFUK varðandi það hvað sóknargjöld eru nákvæmlega.

Samkvæmt þessu frumvarpi munu lífsskoðunarfélög við skráningu, miðað við skilning meiri hluta, sjálfkrafa öðlast þau réttindi og skyldur sem skráð trúfélög hafa. Lífsskoðunarfélög munu þá fá greidd framlög úr ríkissjóði sambærileg sóknargjöldum fyrir skráða félaga sem eru 16 ára og eldri í stað þess að fjármagna sig af sjálfsaflafé. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir hækkun á þessum útgjaldalið, ekkert annað hefur komið fram, potturinn er sá sami enda er þetta ítrekað í umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Vegna mikils halla sem er á ríkisrekstrinum um þessar mundir og stefnumörkunar um að afkoman nái jafnvægi eftir tvö ár þarf að leitast við að sporna gegn nýjum útgjöldum af þessum toga sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í útgjaldaramma innanríkisráðuneytisins. Í tengslum við þetta frumvarp mætti gera ráð fyrir að því yrði náð fram með því að lækka einingaverðsviðmiðun framlaga vegna sóknargjalda þannig að heildarútgjöldin verði óbreytt þótt einstaklingum í trúfélögum og lífsskoðunarfélögum fjölgi.“

Þetta er að mínu mati afar skýrt af hálfu fjárlagaskrifstofunnar. Fjármála- og efnahagsráðuneytið gerir ráð fyrir lækkun á sóknargjöldum vegna tilkomu lífsskoðunarfélaga vegna þess sem er tilgreint að fari í þennan pott. Þetta er augljóst að mínu mati.

Síðan er náttúrlega alveg makalaust að sjá hvernig fjárlagaskrifstofan lítur á sóknargjöldin, eins og ég gat um áðan, og fleiri, eins og þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna, að þeir telji þjóðkirkjuna vera hreina og klára ríkisstofnun sem hún er ekki. Með frjálsum samningum milli ríkis og kirkju í gegnum tíðina, þar sem markvisst hefur í rauninni verið tekið fyrir að þjóðkirkjan sé ríkiskirkja, fram hefur farið fjárhagsleg aðgreining fjármagns þess sem fer til þjóðkirkjunnar og skýrt er getið í lögum hvernig hlutverki hennar er háttað, hefði ég haldið að menn áttuðu sig á því að hún er ekki ríkisstofnun.

Ég bendi á umsögn kristilegu félagasamtakanna KFUM og KFUK um þennan þátt umsagnar fjárlagaskrifstofunnar en samtökin benda á að um grófan misskilning sé að ræða, misskilning sem ég hef farið yfir, eða jafnvel beinar rangfærslur um eðli sóknargjalda og innheimtu þeirra. Rangfærslur þeirra sem hafa eitthvað út á kirkjuna að setja virðast vera mjög víða. Benda KFUM og KFUK á bráðabirgðaskýrslu nefndar innanríkisráðherra sem ætlað var að meta áhrif niðurskurðar fjárveitinga á starfsemi þjóðkirkjunnar, sem er frá nóvember 2011, máli sínu til stuðnings. Í umsögn KFUM og KFUK segir um bráðabirgðaskýrsluna, með leyfi forseta:

„Hér kemur skýrt fram að litið er á sóknargjöld“ — þ.e. af hálfu fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins — „sem félagsgjöld sem ríkið hefur tekið að sér að innheimta en ekki framlög úr ríkissjóði með „einstaklingum sem ríkissjóður greiðir sóknargjöld með [svo]“. Fráleitt er að gefa í skyn að hér sé um einhverjar „meðlagsgreiðslur“ að ræða.“ — Eins og hefur komið fram af hálfu stjórnarmeirihlutans.

„Eins og ljóst er af framangreindri bráðabirgðaskýrslu innanríkisráðherra var á sínum tíma ekki ásetningur ríkisvaldsins með breyttu innheimtufyrirkomulagi að skerða tekjustofna sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga, heldur gera einfaldlega innheimtu þeirra einfaldari fyrir ríkissjóð.“ — Það var tilgangurinn, en ekki að skerða tekjustofna sókna þjóðkirkjunnar eins og þessi ríkisstjórn hefur síðan gert. „Það er því fráleitt“ — segir í umsögn KFUM og KFUK — „að stilla þessu upp eins og fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins gerir. Auk þess getur það tæpast verið í anda frumvarpsins, sem er að jafna stöðu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, að skerða tekjur þeirra trúfélaga sem fyrir eru og þar með vega að starfsgrundvelli þeirra, með jafnóforskömmuðum hætti og álitsgerð fjárlagaskrifstofunnar gerir ráð fyrir.

Þessu til viðbótar er ástæða til að minna á skýrslu til innanríkisráðherra frá nefnd sem ætlað var að meta áhrif niðurskurðar fjárveitinga á starfsemi kirkjunnar, dags. 30. apríl 2012. Þar kemur fram að þjóðkirkjan hefur tekið á sig 25% meiri skerðingu en aðrir vegna niðurskurðar í tengslum við aðgerðir eftir hrunið.

Að óreyndu verður því ekki trúað að það sé ásetningur hins háa Alþingis að vega svo gróflega að starfi safnaðanna um allt land sem stefnir í ef forsendur í álitsgerð fjárhagsnefndar verða látnar ráða för.“

Svo mörg voru þau orð. Það er margt hægt að finna að þessu máli. Það er sjálfsagt og eðlilegt — kannski í ljósi þess hvernig samfélagið hefur þróast og ekki síst þess vegna — að við tökum umræðuna um hvort eigi yfir höfuð að gilda það sama um lífsskoðunarfélög og trúfélög. Vilja menn það? Af hverju vilja menn það og af hverju förum við þá ekki út í dýpri og víðtækari umræðu sem slíkt málefni kallar í rauninni á?

Ég árétta það sérstaklega að menning og saga okkar Íslendinga einkennist og mótast mjög af kristni, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Þetta frumvarp er angi af þeirri viðleitni stjórnvalda að draga úr mikilvægi kirkju og kristni. Eftir að ég legg þetta nefndarálit fram kemur einmitt fram andúðin og sá litli skilningur sem er uppi af hálfu margra þeirra sem tilheyra stjórnarflokkunum. Þetta hefur kristallast strax upp úr áramótum. Andúð er kannski of stórt orð en alla vega hefur ekki verið sérstök fylgni við það að styðja og efla kirkjuna í landinu. Ef við ætlum, frú forseti, að umbylta þeim grunni sem kristni er fyrir íslenskt samfélag þá þarf að mínu mati mun meiri og dýpri umræðu.

Um leið og við Íslendingar undirstrikum stjórnarskrárbundna reglu okkar um trúfrelsi samkvæmt núgildandi stjórnarskrá, sem mér er mjög kær, þá undirstrikum við það, sérstaklega trúfrelsið, en viðurkennum einnig að við erum kristin þjóð. Það á ekki að vera neitt feimnismál fyrir okkur Íslendinga að við höfum að grunni til mótað menningu okkar og sögu og hefð á grundvelli kristninnar. Þó að margir hafi viljað umbylta allri þeirri sögu síðustu missirin þá er það einfaldlega þannig og ég er sannfærð um það að hluti af því góða í íslensku samfélagi, kærleikanum sem hefði kannski mátt vera meiri á umliðnum missirum, er svo sannarlega til staðar því að grundvöllurinn er sterkur, kirkjan og kristni er sterk í íslensku samfélagi og kærleikurinn er enn til staðar og getur veitt okkur von um glæsta framtíð. Við eigum ekki að afneita þessari sögu okkar þó að margir vilji gera það.

Það er engin tilviljun að mikil lýðræðishefð er í landinu. Það er heldur engin tilviljun að þegar við skoðum þau lönd þar sem lýðræðishefðin er hvað mest þá er þar trúfrelsi. Þetta eru iðulega samfélög þar sem kristni hefur skipt miklu máli. Það er engin tilviljun að í mestallri Evrópu, ja, drjúgum parti allrar Evrópu, þar sem kristni hefur átt mjög sterkar rætur, eru líka sterkustu vígi lýðræðishefðarinnar sem við Íslendingar viljum svo sannarlega tilheyra og tilheyrum enn. Ég undirstrika að margir sakna þess að við fáum ekki að tala um það hversu kristin við erum og að við séum sú kristna þjóð sem við stöndum fyrir. Með því erum við ekki að kasta rýrð á önnur trúarbrögð, engan veginn, eða einhverjar aðrar skoðanir, en við eigum ekki að vera feimin að viðurkenna þetta grundvallaratriði í íslensku samfélagi.

Í nefndaráliti mínu undirstrika ég að við eigum að viðurkenna auðveldlega þá sögulegu, trúarlegu og siðferðilegu þróun sem kristnin hefur haft á íslenska þjóð, tungu og menningu. Íslensk saga, menning og þau gildi sem íslenskt þjóðfélag byggist á eru samofin hinni kristnu arfleifð. Ég tel brýnt að þessi sjónarmið verði virt þegar greidd verða atkvæði um þetta frumvarp því að margt er enn óljóst, eins og ég kom inn á hér áðan, skilgreiningin á lífsskoðunarhlutverkinu er algjörlega óljós fyrir utan þau efnahagslegu en ekki síst félagslegu áhrif sem kunna að verða af svo víðtækri breytingu.

Sumir sem hafa talað við mig hafa sagt að þetta sé eitthvert tildur við tískustrauma. Það er ekki þannig, ég ber mikla virðingu fyrir öðrum trúarbrögðum og ekki síður öðrum skoðunum, en við eigum að taka umræðuna um hvort gera eigi það sem tengist trúarskoðunum jafngilt og svo er spurning hvort við hefðum ekki átt að gera eins og Norðmenn og setja að minnsta kosti sérstök lög sem snerta eingöngu lífsskoðunarfélögin.

Margt kom fram á fundi nefndarinnar sem fær mann til að spyrja: Er þetta frumvarp nægilega vel búið til þess að koma í veg fyrir misnotkun á almannafé, misnotkun á því að menn fari í kringum þann ramma sem er verið að reyna að setja með þessu frumvarpi? Ég hef miklar efasemdir um að þetta sé rétta leiðin til að virða lífsskoðanir fólks í landinu. Ég efast verulega um þá aðferðafræði sem ríkisstjórnin og hennar fylgifiskar setja fram, fyrir utan málsmeðferðina og ekki síður málflutninginn í umræðunni allri af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, hversu beint og óbeint er alltaf vegið að kirkjunni í landinu og kristinni trú um leið.