141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hræðslan sem mér fannst einmitt einkenna þetta mál fólst í að ekki mátti taka dýpri umræðu um málið. Það mátti ekki greina áhrifin. Það sem ég er að tala um og reyna að setja í samhengi er að ég er ekki viss um að hv. þingmaður taki undir með mér og fagni því að við erum kristin þjóð og viðurkennum það.

Hvaða þýðingu hefur það fyrir samfélagið ef það á beint og óbeint, eins og þessi ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar hafa gert, að vega að kirkju og kristni í landinu? Svoleiðis hefur það verið á umliðnum missirum.

Ég hef margítrekað bent á ummæli þingmanna Samfylkingarinnar um kirkjuna strax upp úr áramótum. Það er fínt með tækjakaupin af hálfu þingsins af því að við greiddum atkvæði með því ákvæði. Það að gera lítið úr kirkjunni, tala hana niður, segja hana vera eitthvað annað en hún er, fannst mér bara ekki til sóma. Það er að hluta til þessi hræðsla að mínu mati, hvernig umgengnin er við kirkjuna og þá sem vilja halda í þá hefð sem íslenskt samfélag byggir upp, a.m.k. enn þá. Ég hefði viljað greina þetta betur. Ég hefði viljað fara yfir þau atriði sem ýmsir nefndarmenn, ég, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson og líka hv. þm. Þráinn Bertelsson, settu fram um ýmis félög. Það voru raunveruleg dæmi um félög sem flokkuðu sig hugsanlega sem lífsskoðunarfélög sem settu fram einhverja manndómsvígslu og fá þá sjálfkrafa greiðslu úr ríkissjóði.

Það er einfaldlega gömul saga og ný að þegar menn sjá möguleika á að fá greiðslur úr ríkissjóði fara þeir oft í slíka vegferð. Það er bara þannig, því miður. Það sem ég vil undirstrika er að með fullri virðingu fyrir lífsskoðunarfélögum, fyrir öðrum skoðunum, pólitískum sem trúarlegum, hefði ég einfaldlega viljað fara betur yfir það hvaða áhrif þetta hefur. Í þessu máli sem öðrum mun stærri virðist stjórnarmeirihlutanum fyrirmunað að leyfa minni hlutanum að fara yfir þau áhrif (Forseti hringir.) sem svona frumvörp hafa. Þau geta haft veruleg áhrif á grundvallargerð íslensks samfélags.