141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru alþjóðleg viðmið um það sem tilheyrir trúfélögum. Lífsskoðunarfélög eru mun víðtækari eins og kom meðal annars á daginn í meðförum nefndarinnar. Það kom alveg skýrt fram að það hugtak er algjörlega óljóst. Orðin trúfélag og trú eru ekki óljós hugtök, ekki heldur í hinu alþjóðlega samhengi. Þar vitna ég meðal annars til þess sem hefur komið fram hjá Sameinuðu þjóðunum hvað það varðar.

Peningar eru ekki allt, alveg hárrétt, sem betur fer. En þá spyr ég: Ef það er ekki stóra málið hér að mati hv. fyrirspyrjanda, af hverju var þá ekki málið einfaldlega sett í sérlög og engin fjárútlát úr ríkissjóði? Af hverju var ekki sú leið farin? Til hvers var farið í þennan leiðangur ef aðalmálið var málefnið sjálft? Þá hefði verið hægt að fagna því að þetta yrði gert jafngilt. Af hverju var þetta ekki einfaldlega sett í sérlög, sett með ákveðin réttindi en engin fjárútlát úr ríkissjóði og þau sjá sjálf um að innheimta sín lífsskoðunarfélagsgjöld?

Það er ekki að ástæðulausu sem ég tala um atlögu að kristni og ekki síst kirkjunni. Þegar við skoðum sögu síðustu fjögurra ára sjáum við skýrt í skýrslu innanríkisráðherra að það er búið að skera 25% niður hjá þjóðkirkjunni umfram það sem gengur og gerist gagnvart öðrum þeim sem fjárlögin beinast að. Þetta er mun meira og menn viðurkenna það í skýrslu innanríkisráðherra frá síðasta ári.

Þetta er fyrir utan það sem ég hef undirstrikað, viðhorfið, umganginn og talsmátann gagnvart kirkjunni. Það er þetta sem ég vil draga fram. Ég hefði kosið að við hefðum rætt þetta meira en það er alveg augljóst, og líka þegar maður hlustar á hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans, að menn vilja fá þetta í gegn, menn vilja ekki ræða meira hvaða áhrif þetta hefur og mér (Forseti hringir.) finnst það einfaldlega miður.