141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir framsöguna og minnihlutaálitið sem hún reifaði vel áðan. Ég vildi rétt hnykkja á ákveðnum atriðum varðandi það sem hv. þingmaður kallaði að væri óljóst í þessu frumvarpi um lífsskoðunarfélögin og skilgreiningu á þeim. Ég held að það sé mikilvægt að við höfum í huga að gert er ráð fyrir því að lífsskoðunarfélögin uppfylli tiltekin mjög nákvæm skilyrði sem eru vel útlistuð í frumvarpinu, þar á meðal að þau byggi á góðu siðferði og gangi ekki gegn almannareglu. Síðan er tiltekin nefnd skipuð fólki úr mismunandi deildum háskólans sem fer yfir allar umsóknir, rétt eins og er í gildandi lögum. Umsóknir um skráð trúfélög þurfa að fara fyrir ráðherraskipaða nefnd sem fer yfir allar umsóknir og veitir samþykki sitt.

Ég held að það sé vel fyrir því séð að fyrirbærin lífsskoðunarfélög misnoti ekki þau réttindi sem þau munu öðlast til jafns við trúfélögin með samþykkt þessa frumvarps. Auðvitað snýst frumvarpið fyrst og fremst um eitt hugtak, eitt grundvallargildi í samfélaginu, jafnrétti. Það er verið að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga við skráðu trúfélögin til samræmis við mannréttindasáttmála Evrópu og svara þeirri gagnrýni sem margsinnis hefur komið fram um að við værum með gloppu í fyrirkomulaginu sem væri okkur ekki til sóma.

Ég held að það sé kjarninn í þessu máli sem við eigum að fagna og síðan hafa í huga þær ábendingar sem einmitt komu frá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og ég reifaði í mínu máli, að efla umburðarlyndi og virðingu fyrir sannfæringu annarra. Það er kannski nokkuð sem við ættum að hafa í ramma í þingsalnum.