141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Saga kristninnar er ekkert allt of falleg víðs vegar um heim en það dásamlega ef maður skoðar þau samfélög sem hafa síðan sprottið úr kristninni og þróast í árhundruð er einmitt að við sjáum hvernig samfélög byggjast upp. Hvar er mesta opna lýðræðislega umræðan? Hvar er mesta ritfrelsið, tjáningarfrelsið, skoðanafrelsið — í hvaða löndum er það? Í þeim löndum, ekki síst Evrópu, sem hafa byggt þennan grunn á kristninni. Ég fullyrði að það er engin tilviljun. Hluti af því er kærleikurinn sem kemur í gegnum kristnina, hann smitast út í það að fólki finnst eðlilegt að gera kröfu til dæmis um trúfrelsi. Ég held að það sé einstakt að þar sem kristnin hefur ráðið er mesta krafan og skilningurinn á trúfrelsi, skoðanafrelsi, ritfrelsi og öllu því sem okkur Íslendingum er svo dýrmætt. Þess vegna segi ég að það er beint samhengi þar á milli. Hvert skref sem við tökum sem hugsanlega aðeins mélar undan því sem byggir upp kristnina í íslensku samfélagi verðum við að taka að vel ígrunduðu máli og skoða hvaða áhrif það muni hafa á samfélagsgerð okkar og uppbyggingu til lengri og skemmri tíma.

Það er þetta sem ég er að gera af fullri virðingu og ávallt talsmaður þess að hafa umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra, trú annarra og allt það. Það er þetta sem ég vil að menn fari betur í í stórum sem smáum málum. Það getur vel verið að menn segi: Þetta skiptir ekki öllu máli hvað kristnina varðar. Ég er því ósammála. Ég hefði viljað fara betur yfir hvað það þýðir fyrir okkur að plokka smátt og smátt í þau miklu áhrif sem kristnin hefur á íslenskt samfélag.