141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins út af því sem kom fram í fyrra andsvari hv. þm. Skúla Helgasonar um að ekki sé lengur óljóst hvað falli undir lífsskoðunarfélögin, það kom ekki skýrt fram af hálfu nefndarinnar og gesta hennar. Það er enn ágreiningur um hvort þetta sé skýrt og þá jafnskýrt og gildir um trúfélög. Eins og ég gat um í öðru andsvari gilda aðrar mjög skýrar reglur, m.a. alþjóðleg viðmið, um það sem fellur undir trúfélög. Allt annað gildir um lífsskoðunarfélög. Gott og vel, við höfum rætt þetta.

Varðandi fjárframlagið kom einfaldlega fram hjá hv. þm. Skúla Helgasyni í seinna andsvari að auðvitað er það ekki bara sjónarmið mitt að frumvarpið muni skerða sóknargjöld til kirkjunnar, a.m.k. gera þann grunn ótraustari en nú er, heldur er það einmitt skoðun fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ég skrifaði ekki það álit. Það er rétt að geta þess að ég dró þetta meðal annars fram í umræðu um fjárlög við hæstv. innanríkisráðherra og hann gat ekki neitað því að þessi breyting mundi skerða pottinn til allra sóknarfélaga í landinu af því að ekki væri verið að bæta hann. Það er allt sem styður það sem ég hef sagt í þessu máli, að með því að fara þessa leið, sama þótt það sé ríkur vilji af hálfu meiri hluta nefndarinnar til að líta öðrum augum á málið, er verið að pikka í það sem hefur farið til kirkjunnar. Það finnst mér miður, ekki síst í ljósi þess hlutfallslega miklu meiri niðurskurðar sem sérstaklega þjóðkirkjan hefur staðið frammi fyrir á umliðnum missirum. Við þurfum að taka afstöðu til þessa.

Ég velti fyrir mér, m.a. af því að þetta er það óljóst, hvort ég eigi að biðja um að þetta mál fari aftur til allsherjar- og menntamálanefndar og kem þeim ábendingum hér með á framfæri við forseta.