141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[17:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flutningsmönnum nefndarálita fyrir ræður þeirra og að sjálfsögðu líka öðrum sem hafa fjallað um málið. Þetta er nokkuð sérstakt mál að mínu mati. Ég velti svolítið fyrir mér hvers vegna svo er. Mér finnst mikið vera á sig lagt í þessu frumvarpi og að einhverju leyti sýnist mér að það sé jafnvel gert til að máta ákveðið félag inn í lögin, félagið Siðmennt sem telur um 300 einstaklinga ef ég veit rétt. Frumvarpið opnar um leið gluggann fyrir fleiri til að stofna lífsskoðunarfélög, eða hvað við köllum þau.

Ég hef ákveðnar áhyggjur af þessu því ég tel að þær girðingar, ef má orða það þannig, sem er reynt að setja inn í frumvarpið séu ekki nægilega traustar. Hugsunin sem er annars staðar í frumvarpinu, þ.e. um jafnrétti foreldranna, finnst mér mjög athyglisverð og alls ekki galin. Þó að mörg okkar hafi kannski verið í þeirri stöðu sem verið er að lýsa í frumvarpinu þá hefur það ekki verið vandamál, alla vega ekki þar sem ég þekki til. Heima hjá mér t.d. er það ekki vandamál að vera hvort í sínu trúfélaginu eða ákveða hvort börnin séu skírð eða fermd eða ekki, það hefur ekki verið neitt vandamál fram að þessu. Þau ákveða það sjálf.

Mér finnst þó sérkennilegt að leggja þetta á sig til að ná fram þessum breytingum. Ég ætla að rökstyðja af hverju ég hef efasemdir um þetta. Í fyrsta lagi er að mínu viti ekki skilgreint nógu vel hvað félag þarf að gera eða hvernig það þarf að líta út til að teljast lífsskoðunarfélag. Það var upplýst á þingflokksfundi hjá okkur að fyrir nefndina hefði komið fram einstaklingur í háskólasamfélaginu sem lýsti miklum efasemdum um að það væri hægt að skilgreina þetta út frá frumvarpinu eins og það liti út. Að sá hinn sami mundi lenda sjálfur í vandræðum með að skilgreina hvað væri lífsskoðunarfélag. Ef það er tilfinning sérfræðinga þá tel ég að vanda þurfi betur til og mundi hvetja nefndina til að fara ofan í þann hluta, hvort hægt sé að skilgreina lífsskoðunarfélögin með skýrari hætti og leita þá hugsanlega til sérfræðinga um slíkt.

Hér hefur verið vitnað í nefnd sem á að fjalla um þetta og reyna að skilgreina hvað er lífsskoðunarfélag og hvað ekki. Það stendur í 5. gr. frumvarpsins, minnir mig, að nefndin skuli gefa álit sitt á því hvað sé lífsskoðunarfélag. Það þýðir að ráðherra sá er situr er ekki bundinn af því sem nefndin segir. Ráðherrann getur ákveðið að nefndin hafi einfaldlega rangt fyrir sér um hvort eitthvert félag sé lífsskoðunarfélag ef ráðherranum sýnist svo. Ég held að betra væri fyrir málið, ef menn ætla að klára það í þinginu og fara með það í gegn, að álit nefndarinnar væri endanlegt að því leyti að ráðherrann yrði að fara eftir því. Ég held að það væri til bóta.

Ég er búinn að fara hér yfir skilgreiningarnar á þessu. Ég hef líka áhyggjur af þeim anda sem hefur ríkt allt of lengi hjá ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum gagnvart þjóðkirkjunni. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur því að mér hefur fundist andinn býsna neikvæður og algerlega að ástæðulausu. Fjárlagaskrifstofa Alþingis skrifar hér að sá kostnaður sem mögulega hlýst af lífsskoðunarfélögum er tekinn af heildarpottinum eins og hann lítur út og mun þá minnka framlag til þeirra sem eru fyrir á þessum vettvangi. Í því sambandi er rétt að muna að talið er að ríkissjóður skuldi þjóðkirkjunni á annan milljarð kr. vegna innheimtu sem ríkið hefur tekið að sér fyrir hana og ekki staðið skil á þeim fjármunum öllum. Það er mjög slæmt að ríkið skuli fara af stað með mögulega aukinn kostnað en að sama skapi telja sér ekki fært um að standa við þá samninga sem hafa verið gerðir gagnvart þjóðkirkjunni.

Ég var búinn að nefna 5. gr. þar sem talað er um að leita álits og ég nefndi líka að ég tel það sem kemur fram í 9. gr. ágætt. Ég verð að viðurkenna að ég er smáringlaður í því samt, en ég held að þetta sé til bóta fyrir foreldra barns þar sem þessir hlutir eru kannski ekki alveg á tæru.

Í nefndarálitinu er að venju farið yfir ferlið og hvernig var unnið og annað. Upp úr stendur að ákveðna hluti þarf að skýra sem eru óljósir eða til þess fallnir að mínu viti að opna jafnvel dyrnar fyrir hinum og þessum að stofna hin og þessi lífsskoðunarfélög. Alla vega finnst mér frumvarpið ekki nógu skýrt eins og það lítur út í dag og óttast það, og menn geta að sjálfsögðu haft alls konar skoðanir á því, að hér spretti upp alls konar félög. Það getur vel verið að það sé til góðs, ég skal ekki segja um það. En ef menn sjá sér einhverja féþúfu í þessu þá er það vitanlega slæmt. Þar af leiðandi held ég að það þurfi að skerpa þetta mjög mikið eins og ég nefndi hér áðan.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Þetta er fyrst og fremst tvennt í þessu frumvarpi. Annars vegar þetta varðandi lífsskoðunarfélögin og hitt sem fram kemur í 9. gr. um rétt barnsins. Frumvarpið er að sjálfsögðu ekki flókið en það eru býsna stórir hlutir samt sem er verið að leggja fram í málinu.

Ég legg að sjálfsögðu til og hvet nefndina til að fara yfir og reyna að skerpa á þessu eins og hér hefur verið bent á. Skerpa á viðmiðunum hvenær lífsskoðunarfélag er lífsskoðunarfélag og ganga úr skugga um að álit nefndarinnar sé bindandi. Ég held að það sé til bóta og það þarf að sjálfsögðu að passa að þjóðkirkjan beri ekki skarðan hlut frá borði af þessari lagabreytingu.