141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

rannsókn samgönguslysa.

131. mál
[18:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það kemur í raun og veru fram í nefndaráliti meiri hlutans þar sem sagt er berum orðum að meiri hlutinn minni á það eftirlitshlutverk sem Alþingi og nefndir þess fara með gagnvart framkvæmdarvaldinu og áskilji sér fullan rétt til að grípa inn í ef þörf krefur. Þarna má klárlega skynja áhyggjur meiri hlutans af því að markmið laganna gangi ekki eftir, þ.e. að bætt umgjörð rannsókna leiði ekki af sér að slysum fækki, engar deilur eru um það. Breytingin er líka dálítið merkileg að því leyti til að það er ekki verið að draga úr kostnaði því að rekstrarkostnaður af nefndunum er áfram sambærilegur þó svo að allt fari inn í eina nefnd. Það er auðvitað vitað og viðurkennt og hefur komið fram í meðförum málsins, sem hefur þrisvar sinnum verið lagt fram fyrir þingið, að með því að breyta þessu og sameina nefndirnar í eina mun þörfin fyrir aðkeyptan kostnað aukast. Það blasir við að mikilvægt er að fara í gegnum þetta aftur.

Síðan er umhugsunarvert fyrir hv. þingmenn að lesa til dæmis umsögn frá rannsóknarnefnd sjóslysa sem hefur staðið sig gríðarlega vel og náð miklum árangri. Þegar rannsóknarnefnd sjóslysa sendir inn umsókn og segir að nefndin sjái ekki ástæðu til að veita nýja umsögn um málið vegna þess að ekkert tillit sé tekið til sjónarmiða hennar er það auðvitað umhugsunarvert. Þetta er ekki gert af því bara, það er full alvara á bak við þetta og því alvarleg áminning til okkar við meðferð málsins.