141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

fjárfestingar í atvinnulífinu.

[13:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það sem hagtölurnar sýna er að við gætum stefnt inn í ástand þar sem einkaneyslan dregst saman. Þær eru dregnar af kortaveltu liðinna mánaða en hins vegar höfum við ekki séð erlendu kortaveltuna. Auk þess sem óskandi er að sú fjölgun ferðamanna sem hingað hafa komið hafi einhver áhrif til mótvægis.

Þessi ríkisstjórn hefur gripið til fjölmargra aðgerða til að koma efnahagslífinu í gang. Hjartað í þeirri efnahagsstefnu hefur verið að tryggja það að við stöðvum skuldasöfnun ríkissjóðs. Það er að takast þannig að það eitt og sér er stór aðgerð af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Það er forsenda þess að hér verði hægt að losa um fjármagnshöft eins og margoft hefur komið fram hjá Seðlabankanum. Gjaldeyrishöftin eru nokkuð sem við verðum öll að ná samstöðu um að losa um sem allra fyrst til að tryggja hér einhvers konar eðlilega umgjörð fyrir atvinnu- og efnahagslíf í landinu.

Núna er unnið að því að endurskoða áætlunina um afnám haftanna. Mín ósk og von er að við náum samstöðu um það í þinginu vegna þess að það er algert grundvallaratriði. Fjárfestingin hefur sem betur fer farið aðeins upp og við erum núna með tölur sem sýna að atvinnuvegafjárfestingin náði því á síðasta ári að fara aðeins yfir það sem við sáum á árinu 2002. Það skiptir okkur máli að hún er á réttri leið. Þessi ríkisstjórn þarf líka að tryggja það að við höldum áfram að skapa efnahagslega umgjörð fyrir atvinnulífið til að starfa þannig að það geti líka vaxið og aukið við fjárfestingar sínar.

Hjartað í þeirri stefnu er, enn og aftur, að tryggja hér jöfnuð í ríkisfjármálunum og fara fram með (Forseti hringir.) raunhæfa áætlun um afnám haftanna.