141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

viðbrögð ráðherra við ummælum forstjóra Útlendingastofnunar.

[13:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki verið hægt að halda því fram um ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar að þar fari sérstaklega frjálslynt stjórnvald. Það hefur farið vaxandi á kjörtímabilinu að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi verið með eins konar hótanir eða tilburði til þöggunar í garð embættismanna sinna, jafnvel forstöðumanna ríkisstofnana, (Gripið fram í.) sem hafa bent á eitthvað sem betur mætti fara.

Steininn tók þó úr rétt fyrir helgi þegar hæstv. innanríkisráðherra hafði uppi þessi orð til að bregðast við ummælum forstjóra Útlendingastofnunar, með leyfi forseta, orðrétt af visir.is:

„Mér þykja þessi ummæli undarleg, ég er mjög ósáttur við þau og vil að þau verði útskýrð.“

Þegar hann var spurður hvort Kristínu væri sætt í embætti forstjóra eftir þetta svaraði hann:

„Ég vil láta þetta nægja í mínum viðbrögðum að ég ætli að sækjast eftir rökstuðningi og heyra hvað forstjórinn hefur til málanna að leggja.“

Það er augljóst af viðbrögðum blaðamanna og þeirri umræðu sem varð í fjölmiðlum, m.a. hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, að ummælin eru tekin sem þess eðlis að ráðherrann ýi að því að viðkomandi þurfi að velta fyrir sér hvort hann eigi að sitja áfram á sínum stóli. Að mínu mati er gerð tilraun til að þagga niður í forstjóranum.

En hvað sagði forstjóri Útlendingastofnunar? Í fréttatilkynningu á vef Útlendingastofnunar kemur fram að það hafi orðið gífurleg aukning á síðustu árum og afleiðingin sé meðal annars að málsmeðferðartíminn hafi lengst. Reynsla nágrannaríkjanna hafi sýnt að best sé að koma í veg fyrir misnotkun á kerfinu ef málsmeðferðin er skjótvirk og sanngjörn. (Forseti hringir.) Þetta „asylum tourist“, ferðahælisleitandi, er þekkt hugtak á Norðurlöndunum. Er þá ekki í lagi að viðkomandi embættismenn komi fram og bendi á það sem betur megi fara án þess (Forseti hringir.) að verða fyrir þeim árásum frá hæstv. ráðherra sem ég verð að viðurkenna að mér fannst vera? Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það tilfellið?