141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

viðbrögð ráðherra við ummælum forstjóra Útlendingastofnunar.

[13:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Flóttamannatúrismi er reyndar mjög umdeilt hugtak, ekki aðeins annars staðar á Norðurlöndunum heldur einnig hér á landi, og vafasamt að slíkt eigi við, hvað þá þegar ýjað er að því að fólk komi hingað sem eins konar ferðamenn til að fá ókeypis húsnæði, mat og viðurværi. Það voru ummæli af því tagi sem ég taldi ekki viðurkvæmileg og vildi fá skýringar forstjóra Útlendingastofnunar á.

Þegar þingmaðurinn gerir því skóna að ég hafi ýjað að einu eða öðru um framtíð þessa forstjóra í embætti er það algjörlega úr lausu lofti gripið. Það sem ég hins vegar gerði var að efna til fundar með forstjóranum þar sem ég lýsti viðhorfum mínum og viðbrögðum við þessum ummælum og forstjóri Útlendingastofnunar gerði grein fyrir þeim forsendum sem hún byggði ummæli sín á.

Við áttum mjög gagnlegan og góðan fund, það get ég fullvissað hv. þingmann um. Eins og ég hef sagt eru eftirmál af þessum málum aðeins á jákvæðum nótum. Við ætlum að reyna að stíga skref sem eru til þess fallin að gera þá verkferla sem hafa verið til umræðu skilvirkari og hraðvirkari. Ég er ekki sannfærður um að þetta snúist einvörðungu um fjármagn og mannafla, heldur hugsanlega einnig um verklag, ekki aðeins hjá Útlendingastofnun heldur öllum þeim sem að þessum málum koma. Ég hef lýst því yfir að ég hafi hug á því að taka þessa verkferla til skoðunar og það mun ég gera á næstu dögum. Það er ekkert nema jákvætt í þeirri stöðu sem við erum að vinna úr núna í þessu (Forseti hringir.) mjög erfiða viðfangsefni sem eru hælisleitendur og mál sem þeim tengjast.