141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

viðbrögð ráðherra við ummælum forstjóra Útlendingastofnunar.

[13:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég verð að segja alveg eins og er að tilefnið er alvarlegt. Það eru ákveðin vandamál sem snerta þennan síaukna fjölda og ekki síst hversu langur málsmeðferðartíminn var. Það hefði verið fullkomlega eðlilegt að ráðherra kallaði á fund sinn forstjóra Útlendingastofnunar og aðra þá sem snúa að þessu máli. Það sem mér fannst ósmekklegt var að í kjölfarið á eðlilegri umfjöllun embættismannsins, að mínu mati, þar sem bent var á ákveðna þætti fer hæstv. ráðherra í að segja að sér finnist þessi ummæli sérstaklega ósmekkleg og að þess vegna þurfi fundinn, ekki vegna vandamálsins heldur vegna ummæla forstjórans.

Ég velti fyrir mér hvort þetta hafi ekki þær afleiðingar að aðrir forstjórar stofnana undir hæstv. innanríkisráðherra eða öðrum ráðherrum, af því að mér hefur fundist vaxandi ásýnd núverandi ríkisstjórnar að koma svona fram, að það verði til þess að menn þori ekki að benda á það sem (Forseti hringir.) ekki fari rétt og ekki sé best á komið heldur bara þegi yfir því. Það er þöggun.