141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

afnám verðtryggingar.

[13:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að já, við þurfum að vinna okkur inn í umhverfi þar sem við þurfum ekki að búa við verðtryggð húsnæðislán. Verðtryggð húsnæðislán hafa verið vandamál lengi. Ég man eftir því að við gerðum könnun árið 2006, þegar staðan var þannig að hér átti allt að vera í lukkunnar velstandi í íslensku efnahagslífi, og þá kom í ljós að við á Íslandi vorum að borga húsnæði okkar svo margfalt oftar til baka en gerist í nágrannaríkjum okkar að við það var ekki búandi. Staðan er auðvitað enn verri þegar krónan hefur veikst.

Staðan er einfaldlega þannig og þess vegna held ég að við hv. þingmaður séum sammála um þetta, en svo er spurningin hins vegar hvort við séum sammála um leiðirnar út úr þessu verðtryggða umhverfi. Verðtryggingin í mínum huga er ekkert annað en skattur vegna þess að við erum með of lítinn gjaldmiðil fyrir efnahagslíf okkar. Þetta er krónuskattur. Verðtrygging á húsnæðisláni er ekkert annað en krónuskattur og þess vegna teljum við í Samfylkingunni að við þurfum að taka alvöruumræðu um stöðu gjaldmiðilsins. Það er aldrei hægt að slíta umræðu um verðtryggingu úr samhengi við stöðu gjaldmiðilsins og hvernig við ætlum að haga þeim málum inn í framtíðina.

Þess vegna hefur það verið stefna okkar í Samfylkingunni að leita leiða til þess að komast inn í aðra mynt og þar höfum við helst horft til evrunnar. Í evruríkjunum eru ekki verðtryggð húsnæðislán. Þannig að ég fagna því að þetta sé rætt og ég vil gjarnan eiga gott samtal um það hvernig við getum komið okkur út úr umhverfi verðtryggingar sem allra, allra fyrst. Ég geri mér grein fyrir því að það verður kannski ekki á næsta ári eða þarnæsta ári sem við göngum inn í Evrópusambandið og tökum upp mynt sem þarf ekki að tryggja eins og við þurfum að gera í dag. En fram að því er ég til í að skoða ýmsar leiðir til að koma til móts við skuldug heimili og þá sem taka lán. Þak á verðtryggingu (Forseti hringir.) finnst mér áhugaverður kostur og ég er mjög opin fyrir því að við skoðum vandlega betri leiðir fyrir lántakendur og skuldara á Íslandi.