141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

opinber störf á landsbyggðinni.

[14:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Já, við höfum komið að þessum málum og öðrum tengdum. Eins og hv. þingmaður þekkir hefur verið unnið að endurskipulagningu opinberrar þjónustu, ekki aðeins á undanförnum missirum og árum heldur áratugum. Við höfum t.d. stefnt að því, þær ríkisstjórnir sem setið hafa frá aldamótum, að fækka sýslumannsembættum og lögregluembættum með það fyrir augun að efla embættin og flytja þá jafnframt verkefni til þessara nýju embætta, stærri umdæma.

Þegar ég tók við embætti dómsmálaráðherra haustið 2010 stóð til að ráðast í umtalsverðar skipulagsbreytingar á embættum sýslumanna og lögreglustjóraembættum. Var þá stefnt að áramótunum 2011, ef ég man rétt. Ég ákvað að skjóta þessum tímasetningum á frest til ársins 2015 en jafnframt er ákvæði í lögunum sem heimilar okkur að grípa til ráðstafana með þá framtíðarsýn í huga. Þannig höfum við, svo dæmi sé tekið, fækkað sýslumannsembættum á suðvesturhorninu, Hafnarfjörður og Kópavogur heyra undir sama sýslumanninn. Á Vestfjörðum hefur sýslumönnum verið fækkað, á Patreksfirði og Ísafirði, eins og hv. þingmaður þekkir vel, og það sama mun brátt gerast á Blönduósi og Sauðárkróki. Það stendur ekki fyrir dyrum að leggja þessar skrifstofur niður, alls ekki, og hugmyndin er sú að efla þessi umdæmi. Ef við horfum til Norðvesturlands sé ég það fyrir mér, þó að ég muni ekki ráða því (Forseti hringir.) að við höfum sýslumannsembættið á Blönduósi en lögregluumdæmið á Sauðárkróki. Það er mín persónulega sýn. (Forseti hringir.) En við stefnum að því að efla þessi embætti (Forseti hringir.) en ekki draga úr þeim. Að sjálfsögðu hefur það verið í mikilli umræðu og miklu samráði (Forseti hringir.) við sýslumenn, við lögreglustjóra og við lögregluna almennt (Forseti hringir.) og að sjálfsögðu höfum við líka rætt þetta við sveitarfélögin þótt sitt sýnist hverjum um framkvæmdina.