141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[14:11]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er á ferð mál sem fjallar í grunninn um eitt grundvallargildi í jafnrétti, það mikilvæga réttlætismál að gera sannfæringu fólks jafnhátt undir höfði hvort sem hún er trúarleg eða veraldleg. Það hefur lengi verið gagnrýnt að í gildandi löggjöf hér á landi sé trúarlegri sannfæringu gert hærra undir höfði en veraldlegri og það stangist á við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Það misræmi er leiðrétt með þessu frumvarpi. Jafnframt er stigið mikilvægt skref í að tryggja jafnrétti foreldra þegar kemur að ákvörðun um hvaða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn þeirra skuli tilheyra.

Það er reyndar mín persónulega skoðun að í nánustu framtíð eigi að afnema sjálfvirka skráningu barna í trúfélög eða lífsskoðunarfélög en það er viðurhlutamikið skref sem rétt er að metið verði ítarlega því að það hefur sannarlega ákveðnar afleiðingar fyrir samfélag okkar. En niðurstaðan er sú að hér er á ferðinni mikilvægt réttlætismál sem skilar okkur fram á veginn í jafnréttisbaráttunni.