141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

469. mál
[14:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á almennu lífeyrissjóðalögunum. Í fyrsta lagi er lagt til að hugtakanotkun í lögunum verði færð til samræmis við notkun hugtaka í löggjöf á fjármálamarkaði. Í öðru lagi að lífeyrissjóðum verði veitt heimild til þess að skilyrða greiðslu örorkulífeyris við að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, enda liggi fyrir álit trúnaðarlæknis sjóðsins. Í þriðja lagi að skylda ráðherra til að tilkynna um breytingar á samþykktum lífeyrissjóða í Lögbirtingablaði verði felld brott. Í fjórða lagi að reglugerðarheimild ráðherra er snýr að viðbótartryggingavernd og séreignarsparnaði verði gerð víðtækari og í fimmta lagi að framlag lífeyrissjóða samkvæmt 6. gr. laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, verði ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðanna fyrir árin 2016 og 2017. Að lokum eru lagðar til smávægilegar breytingar sem varða meðal annars reglugerðarheimildir og fresti.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra verði falin heimild til þess að kveða í reglugerð nánar á um þau atriði sem eiga samkvæmt lögum þessum að koma fram í reglum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað. Um er að ræða atriði sem ekki eru talin upp í almennu lífeyrissjóðalögunum með beinum hætti en verða leidd af lögunum. Ráðherra hefur þegar heimild samkvæmt lögunum til þess að kveða í reglugerð á um form og efni samninga um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað. Í ákvæðinu er lagt til að ráðherra verði að auki veitt heimild til að kveða í reglugerð á um þau atriði sem eiga að koma fram í þeim reglum sem um samninga gilda og sem staðfestar eru af ráðherra, þ.e. þarna er verið að tryggja það að ráðherra setji meira kjöt á beinin.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að lífeyrissjóðum verði veitt heimild til þess að skilyrða greiðslu örorkulífeyris við að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, enda liggi fyrir álit trúnaðarlæknis sjóðsins. Samsvarandi ákvæði er að finna í 16. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þarna er verið að leggja til að öðrum lífeyrissjóðum verði heimilt að byggja á slíkum sjónarmiðum og í því sambandi er sérstaklega litið til laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, þar sem meðal annars er mælt fyrir um rétt þeirra sem þiggja örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum til starfsendurhæfingar á vegum starfsendurhæfingarsjóða.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að frestur lífeyrissjóða til að skila tryggingafræðilegri athugun til Fjármálaeftirlitsins verði færður frá 1. júlí til 15. maí ár hvert. Breyting þessi er lögð til þar sem Fjármálaeftirlitið hefur undanfarin ár beint þeim tilmælum til lífeyrissjóða að flýta skýrsluskilum vegna tryggingafræðilegra athugana sjóðanna.

Í 4. gr. frumvarpsins er í a-lið lagt til að skylda ráðherra til að tilkynna um breytingar á samþykktum lífeyrissjóða í Lögbirtingablaði verði felld brott. Upplýsingagjöf lífeyrissjóða til sjóðfélaga samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna þykir fullnægjandi, m.a. þegar litið er til upplýsinga er lúta að breytingum á samþykktum.

Í b-lið 4. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um það með skýrum hætti að tilkynningarskylda gagnvart Fjármálaeftirlitinu taki jafnt til breytinga á endurskoðanda lífeyrissjóðs og þeim aðila sem annast innri endurskoðun lífeyrissjóðsins. Þess vegna er lagt til að á eftir orðinu „endurskoðanda“ í 28. gr. laganna komi: „aðila sem annast innri endurskoðun“.

Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að orðalagi 2. tölul. 3. mgr. 29. gr. laganna verði breytt. Þar er lagt til að kveðið verði á um það með skýrum hætti að verkefni stjórnar lífeyrissjóðs lúti að því að ákveða hvernig fyrirkomulagi innri endurskoðunar verði háttað, annaðhvort með því að ráða forstöðumann endurskoðunardeildar sem hefur það verkefni með höndum að annast innri endurskoðun eða semja við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila til þess að annast þá endurskoðun.

Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að orðin „innri endurskoðun“ komi í stað orðanna „innra eftirlit“ í 1. og 2. málslið 1. mgr. 34. gr. þeirra laga. Um er að ræða breytingar á hugtakanotkun sem er til samræmis við notkun hugtaka í löggjöf á fjármálamarkaði.

Í 7. gr. er lagt til að fyrirsögn VI. kafla verði breytt í: Rekstur, innra eftirlit og innri endurskoðun. Lagt er til að heiti kaflans endurspegli þessa breyttu hugtakanotkun.

Í 8. gr. eru lagðar til breytingar á orðalagi og í 9. gr. er lagt til að 3. málsliður 6. mgr. 40. gr. laganna falli brott. Í núgildandi ákvæðum laganna er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið setji reglur, annars vegar um form og efni fjárfestingarstefnu samkvæmt 36. gr. og 36. gr. a laganna og hvernig henni skuli skilað til eftirlitsins og hins vegar um form og efni skýrslna um úttekt á eignasöfnum síðasta árs og fjárfestingarstefnu. Ráðherra hefur fjallað um þessi atriði í reglugerð nr. 916/2009, um fjárfestingarstefnu og úttekt á ávöxtun lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar, sem sett var með stoð í 56. gr. laganna. Ákvæði reglugerðarinnar hafa því leyst reglur Fjármálaeftirlitsins af hólmi og því eru þessar breytingar lagðar til.

Í 10. gr. frumvarpsins eru í a-lið lagðar til breytingar á 2. mgr. 42. gr. laganna. Þar er um að ræða lagfæringar til samræmis við hugtakanotkun um endurskoðendur, innri endurskoðun og innra eftirlit. Því lagt til að orðin „og innra eftirliti, sbr. 35. gr.“ falli brott. Í b-lið er lagt til að tilvísun til laga um ársreikninga verði breytt til samræmis við núgildandi lög um ársreikninga.

Í 11. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á bráðabirgðaákvæði í lögunum á þá leið að í stað orðanna „og 2015“ komi: 2015, 2016 og 2017. Þar er lagt til að framlag lífeyrissjóða samkvæmt 6. gr. laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, verði ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðanna fyrir árin 2016 og 2017. Í núgildandi bráðabirgðaákvæði laganna er kveðið á um að slíkt framlag lífeyrissjóða verði ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun sjóðanna fyrir árin 2012–2015. Frestur til að framkvæma þessa úttekt var framlengdur um tvö ár í meðförum Alþingis og því er lagt til að bráðabirgðaákvæðinu verði breytt til samræmis við framlenginguna. Þarna er því verið að samræma löggjöf.

Frú forseti. Síðan er lagt til í 12. gr. að lögin öðlist þegar gildi.

Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.