141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

469. mál
[14:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það má vera, þetta eru smávægilegar breytingar sem við erum að gera hér. Þetta eru svona ákveðnar samræmingar og annað slíkt, svona tiltekt sem er á ferðinni í þessu frumvarpi. Hins vegar er lífeyriskerfið allt til skoðunar í nefnd á vegum fjármálaráðuneytisins. Þar er undir að skoða stöðu lífeyrissjóðanna. Það er líka verið að skoða með hvaða hætti megi færa til samræmis stöðu þeirra sem eru í lífeyrissjóðum hjá hinu opinbera og síðan á hinum almenna markaði. Þannig að allt lífeyriskerfið er undir í þeirri vinnu allri.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að þegar menn eru að skoða jafnróttækar breytingar og þær að færa þessi réttindi til samræmis, vegna þess að það er ekki einfalt mál, séu menn líka að skoða fyrirkomulag lífeyrisréttinda og lagaumhverfi þess til lengri framtíðar. Hv. þingmaður getur átt von á því að sjá fljótlega, hvort sem það næst að ljúka því á þessu þingi eða næsta, svona á næstu missirum, tillögur í þinginu til breytinga á lögum um lífeyrissjóði sem tryggi þá og styrki til lengri framtíðar og jafni líka þessi réttindi.

Frú forseti. Ég held að það sé öllum stjórnmálamönnum kappsmál að tryggja að þeir sem leggja sparnað sinn í lífeyrissjóðina fái sem mest af því til baka. Ég held að við stjórnmálamenn séum sammála um að tryggja þurfi að sá ævisparnaður sem fer í þessa sjóði venjulegs launafólks skili sér til fólks, að fólk fái það sem því ber þegar ævistarfinu lýkur og geti átt öruggt og náðugt ævikvöld hér á Íslandi.