141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

469. mál
[14:36]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að búið sé að skipa nefnd sem ekki eigi eingöngu að endurskoða lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna annars vegar og starfsmanna á hinum almenna vinnumarkaði hins vegar heldur jafnframt kerfið í heild sinni. Ég tel að þetta mikla tap lífeyrissjóðanna í hruninu knýi á um að við endurskoðum hug okkar gagnvart sjóðsmyndunarkerfinu. Við höfum fram til þessa kallað sjóðsmyndunarkerfið besta kerfið í heimi vegna þess að það á að vera betur í stakk búið til að taka á öldrunarvandamálinu en gegnumstreymiskerfi. En sjóðsmyndunarkerfi getur það ekki ef það er að tapa fjármunum sem fólk hefur greitt inn í sjóðsmyndunarkerfi í gegnum iðgjöld.

Við megum heldur ekki gleyma því að sjóðsmyndunarkerfi tryggir ekki jöfnuð. Fólk fær greitt út úr sjóðsmyndunarkerfinu í samræmi við iðgjaldagreiðslur og ef viðkomandi var á lágum launum þá fær hann lágar lífeyrisgreiðslur. Það kemur heldur ekki í veg fyrir fátækt þannig að almannatryggingakerfið eða gegnumstreymiskerfið verður alltaf að vera þarna til staðar. Þetta er bara spurning um hvernig jafnvægi eigi að vera á milli þessara tveggja þátta lífeyriskerfisins. Hrunið ætti kannski að kenna okkur að betra er að hafa það jafnara en ekki svona ójafnt eins og það er orðið hér á landi.

Frú forseti. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að þrýsta á nefndina að skila niðurstöðum sem allra fyrst. Það liggur á að endurskoða lífeyrissjóðakerfið og jafnframt að tryggja að fólk sjái fram á lækkun iðgjalda vegna þess að við höfum hér betra lífeyrissjóðskerfi.