141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 200/2012 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

465. mál
[15:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þeirri tillögu sem ég mæli hér fyrir er leitað heimildar Alþingis til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2012 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál, og fella inn í þann góða samning reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 66/2010, um umhverfismerki ESB. Í þeirri reglugerð er kveðið á um stofnun og notkun á valfrjálsu kerfi umhverfismerkja innan Evrópusambandsins og þar er jafnframt lýst þeim kröfum sem þarf að uppfylla svo menn og stofnanir geti notað umhverfismerki sambandsins.

Innleiðing þessarar merku reglugerðar kallar hins vegar á setningu löggjafar hér á landi um umhverfismerkjakerfið og notkun þess á Íslandi. Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hefur þess vegna þegar lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í staðfestingu þess frumvarps fælist innleiðing á ákvæðum reglugerðarinnar.

Frú forseti. Þetta frumvarp er að finna á þingmáli sem ber númerið 287. Ég veit að það gleður alla þingmenn sem á mig hlýða að ekki er gert ráð fyrir því að verulegur fjárhagslegur eða stjórnsýslulegur kostnaður hljótist af því að innleiða reglugerðina hér á landi enda er kveðið á um það í henni að umsýslukostnaður verði innheimtur í tengslum við afgreiðslu umsóknar um heimildir til þess að nota þetta góða merki.

Þessi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, eins og ég hef þegar rakið, kallar á lagabreytingar hér á landi. Þess vegna var hún á sínum tíma tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Þess vegna er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í þessari ákvörðun felst þannig að aflétta megi þeim stjórnskipulega fyrirvara.

Frú forseti. Ég legg til að þegar þingmenn hafa rætt þetta mál til hlítar verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.