141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

sveitarstjórnarlög.

449. mál
[15:50]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég get alveg tekið undir með honum í þeim vangaveltum hvort við séum að stíga nógu stór skref. Hvort menn eigi að sætta sig við að þetta sé sett fram sem tilraunaverkefni eða hvort menn hefðu ekki bara átt að setja þetta fram með fullum þunga og stíga skrefið alla leið. Ég hefði gjarnan viljað sjá það þannig, en ég held að meira máli skipti að við fáum tækifæri til að láta á það reyna í alvöru til þess að reynslan sýni okkur og þeim sem hafa haft efasemdir í málinu að það er ekkert að óttast, miðað við að rík fyrirstaða hefur verið í þessum málum fram til þessa.

Það hjálpar mjög til að þau sveitarfélög mörg hver sem hafa verið framsækin í þessum efnum vítt og breitt um landið hafa viljað fara fram með þetta verkefni. Þau hafa gert það sem þau hafa haft tækifæri til inni á heimaslóðum og viljað útfæra málið í almennum kosningum líka, vegna þess að drjúgur kostnaðarþáttur og útgjöld eru fyrir sveitarfélög að standa fyrir kosningum samhliða því að það er verið að sækja á með auknar kröfur um þátttöku íbúa í ákvarðanatöku og ýmsum hlutum. Það er auðvitað allt af hinu jákvæða, að sá vilji að setja málið í þennan farveg endurspeglist og komi fram af hálfu hins opinbera, ráðuneytisins og stjórnvalda. Það að menn séu tilbúnir að fara samstiga inn í þetta verkefni þó skrefið sé ekki nema eitt og til ákveðins tíma leiðir til þess að ég er sannfærður um að niðurstaðan verður sú að menn munu halda þessu verkefni áfram.