141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

sveitarstjórnarlög.

449. mál
[15:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framlag hans til umræðunnar og hans jákvæðu viðbrögð. Ég er sammála honum um að við erum að svara hér kalli tímans. Það er tímabært að þetta komi fram.

Ég vil einnig þakka hv. þingmönnum Ólafi Þór Gunnarssyni, Lúðvík Geirssyni og Loga Má Einarssyni fyrir framlag þeirra til þessarar umræðu og jákvæð viðbrögð. Ég legg áherslu á að við munum að vinna þetta í mjög nánu samstarfi við sveitarfélögin og Samband íslenskra sveitarfélaga, enda er málið sprottið upp úr þeim sameiginlega jarðvegi. Það var ein af þeim tillögum sem fram komu í sameiginlegri nefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins undir formennsku Þorleifs Gunnlaugssonar. Þar var þetta ein áherslan sem þessir aðilar lögðu til sameiginlega og sameiginlega erum við að leggja úr vör með þetta. Við hefðum aldrei hreyft okkur án þess að það væri gert í mjög nánu samráði við sveitarfélögin og samtök sveitarfélaganna.

Ég er sammála þeim áherslum sem hér komu fram að þetta er það fyrirkomulag sem mun ryðja sér til rúms mjög hratt á komandi árum. Það var vísað í kosningar innan stjórnmálaflokka. Hér erum við að taka á íbúakosningum. Síðan munum við færa okkur upp á skaftið, þá verða sveitarstjórnarkosningar og síðan verða kosningar á landsvísu. Það er gott að framkvæma þetta sem tilraunaverkefni þannig að við lærum á kerfið, þær ögranir sem þar eru og líka þær hættur sem eru í þessu fólgnar.

Ég er hjartanlega sammála því sem fram hefur komið hjá öllum sem hafa tekið til máls í umræðunni. Þetta mun verða til hagræðis og hagsbóta fyrir kjósendur, fyrir samfélagið, fyrir skattgreiðendur og fyrir lýðræðið.