141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

rannsókn samgönguslysa.

131. mál
[16:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það leikur enginn vafi á því að þetta mál sem við erum hér að ræða, frumvarp til laga um rannsókn samgönguslysa, er ákaflega mikilvægt. Það sjáum við bara á því að lesa sjálfa markmiðsgreinina, en þar segir í 1. mgr., með leyfi virðulegs forseta:

„Markmið laga þessara er að fækka slysum og auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir.“

Þetta er markmið sem við getum öll sameinast um. Þetta er markmið sem við höfum reynt að vinna að með öðrum hætti í gegnum tíðina og á margan hátt tekist bara nokkuð vel til í þeim efnum. En það er eins og segir í Passíusálmunum: Góð meining enga gerir stoð. Það er auðvitað það sem mér finnst blasa við þegar við lesum þetta frumvarp. Það hefur hið ágætasta markmið en þegar frumvarpið sjálft er lesið verður ekki séð að það nái utan um það sem því er ætlað að gera — þá er ég að vísa til þeirra skipulagsbreytinga sem frumvarpið kveður á um, ég er ekki að tala um aðra þætti frumvarpsins að öðru leyti. Þegar við skoðum þær skipulagsbreytingar sem hér eru boðaðar getur maður hvergi séð í raun og veru efnislegan rökstuðning fyrir því að þær muni að einhverju leyti stuðla að því sem er markmiðið; að fækka slysum og auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir.

Hér er verið að segja að þessar skipulagsbreytingar eigi að leiða til þess að við munum efla og bæta slysarannsóknir. En það er ekki í raun sýnt fram á það, hvorki í greinargerð né öðrum þeim gögnum sem ég hef a.m.k. tiltæk hér, ég er reyndar ekki í umhverfis- og samgöngunefnd, og kemur alls ekki fram nema síður sé í þeim umsögnum sem liggja fyrir um þetta mál.

Og talandi um umsagnir. Í nefndaráliti meiri hluta samgöngunefndar er fullyrt að athugasemdir umsagnaraðila, sem gera þó ýmsar athugasemdir við frumvarpið, séu fyrst og fremst tæknilegs eðlis um einstakar frumvarpsgreinar. Það er með öðrum orðum reynt að draga fram þá mynd að býsna góð sátt sé um þetta mál nema það sem lýtur að tæknilegum atriðum. Að vísu eru síðan í næstu málsgrein raktar ýmsar ábendingar og ýmis gagnrýnisatriði sem fram koma, en engu að síður virðist þessu hafa verið slegið föstu í málsgreininni á undan. Þetta er alls ekki þannig.

Á vef umhverfis- og samgöngunefndar undir þessu máli getur að líta þrjár umsagnir, frá rannsóknarnefnd flugslysa, frá rannsóknarnefnd sjóslysa og síðan í einu slengi umsögn, sem ég ætla að víkja að á eftir, frá allmörgum aðilum í sjávarútvegi og landflutningum. Það er ekki hægt að segja annað en að þeir séu mjög gagnrýnir á þær skipulagsbreytingar sem þetta frumvarp boðar.

Þegar við skoðum umsagnirnar verður ekki annað sagt en að frumvarpið sé flutt í algjörri andstöðu við þá sem við eiga að búa og gleggst þekkja til þessa máls, þ.e. sjómenn, eftir atvikum þeir sem koma að fluginu, þeir sem hafa hagsmuna að gæta varðandi umferðaröryggi á vegum, t.d. atvinnubílstjórar, og ýmis samtök, bæði launþega og atvinnurekenda, sem þessi mál snerta með beinum og óbeinum hætti. Þetta mál kemur þó auðvitað okkur öllum við og er mál af þeim toga að við getum engin okkar skipað okkur í aðra sveit en þá sem vill stuðla að sem mestu umferðaröryggi, öryggi á sjó og öryggi í lofti.

Það sem ég tel vera mikið umhugsunarefni er að mál af þessu tagi sé flutt í andstöðu við allan þennan mikla hóp sem tjáir sig um málið og gerir það af mikilli alvöru. Vitaskuld setja aðilar eins og þeir sem ég vísa hérna til fram sjónarmið sín að gefnu tilefni vegna þess að það er sannfæring þeirra að þetta frumvarp muni ekki stuðla að því að ná því markmiði sem ég vísaði til áðan. Þvert á móti megi benda á að það geti stuðlað að hinu gagnstæða. Það er með öðrum orðum mikil andstaða við þetta frumvarp hjá þeim sem við eiga að búa.

Við þekkjum það að þegar verið er að sameina stofnanir er það yfirleitt rökstutt á tvennan hátt. Stundum er okkur sagt að af því verði fjárhagslegur sparnaður og oftast er reynt að halda því fram að sameining leiði til fjárhagslegs ávinnings og sé hagræðing í ríkisbúskapnum. Nú vitum við að þetta hefur verið skoðað og metið, m.a. af Ríkisendurskoðun. Þar hefur ekki verið hægt nema í fáeinum tilvikum að sýna fram á að raunverulegur fjárhagslegur sparnaður hafi orðið.

Þegar við skoðum frumvarpið verður ekki annað sagt en að þar stangist mjög á staðhæfingar um það hvort um sé að ræða fjárhagslegan sparnað eður ei. Í athugasemdum við þetta lagafrumvarp sem hæstv. innanríkisráðherra flytur, segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Í sameiningunni felst einnig rekstrarleg hagræðing og mun heildarfjöldi nefndarmanna minnka en nú eru í rannsóknarnefnd flugslysa þrír nefndarmenn, fimm í rannsóknarnefnd sjóslysa og þrír í rannsóknarnefnd umferðarslysa auk sama fjölda varamanna í hverri nefnd.“

Þarna er því slegið föstu að eitt markmiðið sé að auka sparnað.

Flettum nú aðeins aftar. Þar getur að líta umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis. Þar kveður við allt annan tón. Þar er sko ekkert verið að tala um neinn sparnað. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Miðað við framansagt má gera ráð fyrir, verði frumvarpið óbreytt að lögum, að útgjöld ríkissjóðs vegna rannsóknarnefndanna muni aukast um allt að 6 millj. kr. á ári frá forsendum fjárlaga fyrir árið 2012.“

Þannig að hér rekst hvort á annars horn, umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og síðan athugasemdirnar sem fylgja frumvarpinu sjálfur. Við erum því í nokkrum vanda stödd. Hins vegar virðist það vera nokkuð sannfærandi sem fjárlagaskrifstofan segir okkur hérna, enda blasir við þegar við skoðum frumvarpið að öðru leyti að gert er ráð fyrir auknu starfshlutfalli formanns nefndarinnar, hinnar nýju sameinuðu rannsóknarnefndar samgönguslysa. Það er kannski ekki við öðru að búast þar sem ljóst er að þetta verður mun umfangsmeira verkefni fyrir formann nefndarinnar en hefur verið væntanlega fyrir formenn þeirra nefnda sem hingað til hafa starfað að rannsóknum einstakra þátta samgönguslysanna.

Síðan er hitt sem ég sé ekki að hafi verið tekið á, sem er ábending, m.a. frá rannsóknarnefnd sjóslysa, um að þessi skipulagsbreyting sem hér er lögð til verði til þess að menn þurfi að kaupa margs konar sérfræðiþjónustu út fyrir raðir nefndarinnar sem hingað til hefur verið til staðar innan rannsóknarnefndanna sjálfra. Það er auðvitað í eðli sínu býsna ólíkt að rannsaka ástæður sjóslysa eða ástæður umferðarslysa eða ástæður flugslysa, eins og þessari nýju nefnd á að vera falið samkvæmt frumvarpinu.

Mér finnst því blasa við að það verður enginn fjárhagslegur sparnaður og mögulega verður þetta til þess að kostnaðurinn við þessar rannsóknir aukist.

Nú gæti ég vel tekið undir að ef það er nauðsynleg forsenda fyrir því að ná góðum faglegum tökum á rannsóknum umferðarslysa, sjóslysa og flugslysa að kosta til þess meiru fé, er það skynsamleg forgangsröðun. Hin fjárhagslegu rök í mínum huga á annan hvorn veginn vigta nú ekki mjög mikið eða mjög þungt.

Þá komum við að hinu sem er gamall kunningi þegar við ræðum um sameiningar stofnana og slíkra hluta, það eru röksemdirnar um hinn faglega ávinning. Þá erum við hins vegar komin út á dálítið hálli braut. Hvernig á að meta faglegan ávinning? Þegar menn halda slíku fram er það jafnan gert með almennu orðalagi. Sameining stofnana gerir það að verkum að hægt er að byggja upp meiri sérfræðilega þekkingu. En eins og umsagnaraðilar vekja athygli á bendir mjög margt til þess að því verði alveg öfugt farið, einfaldlega vegna þess að eðli þessara slysa — umferðarslysa, sjóslysa, flugslysa — sé svo ólíkt að allar líkur séu á því að kaupa þurfi slíka þekkingu utan frá, með tilheyrandi kostnaði auðvitað sem enginn telur eftir sér. Það er þannig ekki hægt að færa nein fagleg rök fyrir þessari sameiningu. Enda sér maður þau ekki, hvorki í greinargerðinni sem frumvarpinu fylgir né nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Þar er, eins og hv. þingmaður Ásbjörn Óttarsson benti á, einfaldlega tekinn sá kosturinn að segja bara sem svo, eftir að hafa farið lauslega yfir röksemdir þeirra sem gagnrýna þetta frumvarp: Okkur finnst meira sannfærandi það sem þeir segja í ráðuneytinu. Okkur finnst það svona meira sannfærandi. Þeir vita þetta sennilega bara betur. Þeirra rök eru sterkari. Þar með er því máli einhvern veginn ýtt út af borðinu. (Gripið fram í.)

Ég tel hins vegar að þegar við skoðum umsagnirnar sé alls ekki hægt að víkja sér undan því að taka efnislega afstöðu til mjög alvarlegrar gagnrýni sem kemur fram í þeim.

Ég ætla að vekja athygli á umsögn rannsóknarnefndar sjóslysa. Eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fór yfir áðan eru þeir nú að verða dálítið langþreyttir. Þeir hafa sent inn umsagnir á fyrri stigum, því þetta mál er gamall kunningi í þinginu, og komast að því eftir að hafa lagt í þetta mikla vinnu að sennilega þjónar það engum tilgangi. Það sé í engu tekið tillit til athugasemdanna og þess vegna telji þeir frekar ólíklegt að það þjóni miklum tilgangi að eyða miklum tíma núna í að koma með frekari ábendingar. Þeir vísa í sínar gömlu umsagnir sem þeir segja að standi enn fyrir sínu, sem bendir til þess að lítið hafi verið tekið tillit til ábendinga þeirra, sjónarmiða þeirra og tillagna.

Síðan spyrja þeir þeirrar grundvallarspurningar sem við eigum auðvitað að þurfa að svara hér: Er æskilegt að breyta því fyrirkomulagi sem er núna? Hefur það reynst illa? Höfum við rekið okkur á það að þetta fyrirkomulag hafi reynst illa við rannsóknir sjóslysa, svo ég taki nú bara dæmi? Erum við ekki einmitt þvert á móti sem betur fer að upplifa að það hefur dregið úr tíðni sjóslysa? Það hafa, guði sé lof, komið ár þar sem ekki hefur orðið banaslys á sjó, sem er árangur sem ég hygg að fæst okkar hefðu leyft sér að trúa fyrir einhverjum árum síðan að gæti orðið, þótt við öll vonuðumst til þess. Ætli það hafi ekki eitthvað með það að gera að við höfum farið vandlega ofan í ástæður sjóslysanna og reynt að læra af þeim?

Auðvitað koma margir aðrir þættir til; betri skip, betri aðbúnaður, betri upplýsingar um veður, betri fjarskipti, væntanlega betri hönnun skipa og ýmislegt annað eins og forvarnastarf slysavarnafélaganna, meiri vitund sjómanna sjálfra og útgerða o.s.frv. En það hlýtur líka að skipta máli að við höfum aflað okkur upplýsinga um ástæður sjóslysa í gegnum starf sjóslysanefndar og gert okkur betri grein fyrir því hvar við þyrftum að láta bera niður til að reyna að tryggja það að við gætum dregið úr slysum á sjó, banaslysum á sjó. Hið sama á auðvitað við um flugslys og umferðarslys.

Rannsóknarnefnd sjóslysa vekur sömuleiðis athygli á því að miklu heppilegra sé að sú þekking sem ég er að vísa til sé innan rannsóknarnefndarinnar sjálfrar í stað þess að þurfa að leita út fyrir nefndina, en nýja fyrirkomulagið mun að þeirra mati leiða til þess.

Ég tek undir það sem segir í þessari umsögn, með leyfi virðulegs forseta:

„Þá er ekki annað vitað en að það fyrirkomulag sem nú er á skipan rannsóknarnefndar sjóslysa og annarra rannsóknarnefnda sem rannsaka samgönguslys hafi reynst vel og því varar nefndin við breytingum á skipan nefndarinnar.“

Er þetta ekki kjarni málsins? Við höfum hérna fyrirkomulag sem hefur reynst vel í hvívetna. Hvers vegna að leggja upp í þessa skógarferð, einhverja óvissuferð, með allt þetta mál og umbylta fyrirkomulagi sem allir eru sammála um að reynist vel, þar sem enginn fjárhagslegur sparnaður er og ekki er heldur hægt að sýna fram á faglegan ávinning? Samt ætlum við að fara þessa ferð. Til hvers? Hvað vakir fyrir mönnum? Aukinheldur er þetta síðan gert í andstöðu við alla þá sem við eiga að búa, umsagnaraðilana.

Í nefndaráliti er sagt að flestir umsagnaraðilar geri einhverjar tæknilegar athugasemdir. En hér hef ég rakið mjög veigamiklar athugasemdir frá sjálfri rannsóknarnefnd sjóslysa sem kvartar undan því að á hana sé ekki hlustað.

Ég tel það líka heilmikil tíðindi að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Sjómannasamband Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, skuli senda frá sameiginlegt álit, til að reyna að auka á alvöruna og þungann í málinu, þar sem varað er við þessum breytingum með mjög alvöruþrungnum hætti.

Bent er á að ekki sé verið að auka skýrleika né skilvirkni þeirra laga sem eru í gildi. Einnig er vakin athygli á því að með frumvarpinu sé dregið úr sjálfstæði rannsóknarnefndanna sem hefur hins vegar verið styrkt meðvitað með núgildandi lögum að gefnu tilefni og hefur reynst vel. Það er bent á að hvergi hafi verið sýnt fram á hver yrðu samlegðaráhrifin við þessar slysarannsóknir. Þvert á móti, eins og ég benti á úr umsögn rannsóknarnefndar sjóslysa, væri þetta til þess fallið að færa þekkinguna út úr nefndinni.

Það hefur líka verið bent á að ekki gildi sömu alþjóðlegu reglur um rannsókn slysa og að sérstök sjónarmið gildi um hverja tegund starfsemi, eðli málsins samkvæmt. Það blasir auðvitað við. Það þarf engan sérfræðing til að sjá að um þær gilda mismunandi reglur og það liggja önnur lögmál til grundvallar sem valda umferðarslysum en t.d. sjóslysum eða flugslysum.

Síðan er það hitt sem mér finnst vera kjarni málsins. Það er engin rök að finna fyrir því að það sé aðkallandi að gera þessar breytingar, að rannsóknum sé ábótavant eða hafi verið það. Það ríkir góð sátt eins og við sjáum á umsögnunum um þessi mál. Engin rök eða gögn eru lögð fram sem sýna fram á neina hagræðingu eins og ég hef bent á. Þvert á móti virðist manni af lestri umsagnar fjárlagaskrifstofunnar að þetta muni leiða til kostnaðaraukningar, þótt ég geri í sjálfu sér engar athugasemdir við það að við ætlum að verja meira fé til rannsókna á samgönguslysum í heild. En það er auðvitað illt ef við leggjum meiri fjármuni í fyrirkomulag sem hefur ekki hin faglegu rök á bak við sig. Það er það sérkennilega í þessu máli.

Loks vil ég benda á eitt. Nú vitum við að hluti af þessari starfsemi, rannsóknarnefnd sjóslysa, er staðsett í Stykkishólmi. Ég hef ekki séð það í gögnum málsins hvernig ætlunin er að reka þessa starfsemi í framtíðinni. Hugmyndin er að steypa þessum þremur nefndum saman, ná samlegðaráhrifum eins og sagt er í þessum efnum. Það verður væntanlega gert með því að koma þessari starfsemi fyrir á einum stað.

Ég sé að það kemur fram í bráðabirgðaákvæði að gert er ráð fyrir að forstöðumönnunum þremur verði boðið starf rannsóknarstjóra hjá hinni nýju nefnd. Sömuleiðis verði öðrum starfsmönnum nefndanna boðið starf hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa. Hvar fer þessi starfsemi fram? Hvernig sjá menn það fyrir sér? Fer hún fram á einum stað? Það virðist blasa við af lestri frumvarpsins að ætlunin er að steypa þessari starfsemi saman á einn stað, það er eiginlega það sem yfir þessu máli öllu vakir. Það er ein meginástæðan fyrir því að menn eru farnir af stað í þetta ferðalag.

Ég hefði talið, í ljósi þess að þetta mun valda röskun, í ljósi þess að hæstv. innanríkisráðherra, ráðherra sveitarstjórnarmála, ber lögformlega skylda til þess að ræða slíkar breytingar við sveitarstjórnarmenn á þeim stöðum og þeim svæðum sem um er að ræða, að hæstv. innanríkisráðherra hefði eytt orði á það að ræða þetta mál við sveitarstjórnarmenn. Mér er ekki kunnugt um að útskýrt hafi verið fyrir þeim né nokkrum öðrum hvernig þessi mál yrðu í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Ég vara mjög við samþykkt þessa frumvarps. Eftir því sem maður kynnir sér það betur, af lestri frumvarpsins, athugasemdum og enn fremur með því að fara yfir umsagnirnar, virðist blasa við að þetta mál hefur í raun og veru engan sjáanlegan tilgang. Það er svona „af-því-bara“ frumvarp. Það hefur ekki fjárhagslegan sparnað í för með sér. Það er ekki hægt að sýna fram á faglegan ávinning. Þá spyr maður: Til hvers er eiginlega þessi ferð farin?