141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

rannsókn samgönguslysa.

131. mál
[16:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

(Utanrrh.: Ekki flytja sömu ræðuna …) Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur einhverjar áhyggjur af þessari ræðu minni, þannig að ég hvet hann þá til þess að hlusta vandlega. (Utanrrh.: Ekki ef það er sama ræðan …) Ég mun fara efnislega eins og svo oft áður yfir það málefni sem ég er að fjalla um og mun ekki vera með einhverja frasa eða vitleysu.

Mig langar aðeins að bregðast við (Gripið fram í.) því sem ég gerði ekki í andsvari við hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson áðan. Ég er auðvitað sammála honum í því að það er ofboðslega erfitt að leggja mælistikur á það hvernig til hefur tekist og hvernig þetta muni ganga eftir.

Það sem ég vildi koma aðeins inn á í seinni ræðu minni snýr að því sem kemur fram í umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar kemur hugsanlega skýringin á því af hverju menn fara í þessa vegferð. Þegar menn fóru að draga úr ríkisútgjöldum á sínum tíma var gerð ákveðin krafa á viðkomandi ráðuneyti — sem hefur reyndar að mínu mati ekkert virkað — þ.e. aðhaldskrafa í viðkomandi ráðuneyti því það segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Samkvæmt fyrirliggjandi mati á kostnaði í tengslum við frumvarpið er gert ráð fyrir að ný nefndarskipan muni þýða mun meira vinnuframlag hvers nefndarmanns ásamt því að gera þarf ráð fyrir 30% starfshlutfalli nýs formanns. Þannig er áætlað að nefndin muni kosta um 17,5 millj. kr. á ári sem er 3–4 millj. kr. hækkun frá núverandi samanlögðum nefndarkostnaði.“

Þetta er sú ábending sem við höfum verið með hér, þ.e. að við það að færa þetta í eina nefnd þá eykst kostnaðurinn. Og ekki bara það, það kemur mjög skýrt fram og hefur komið fram í athugasemdum í meðferð málsins á fyrri stigum, að með því að fækka nefndarmönnunum úr þrettán niður í sjö og taka fagnefndirnar úr sambandi, ef ég má orða það svo, mun verða meiri þörf á svokallaðri aðkeyptri þjónustu. Það mun alveg klárlega verða afleiðing af því að gera það með þessum hætti. Það hefur að mínu viti ekki verið hrakið af hálfu framkvæmdarvaldsins hingað til. Það mun verða meiri krafa og mun meiri þörf fyrir aðkeypta þjónustu.

Síðan vil ég vitna aftur í umsögnina, ég held að þar sé hugsanlega hægt að finna ástæðuna fyrir því af hverju þessi vegferð var farin í upphafi. Hér segir, með leyfi forseta:

„Í fjárlögum ársins 2012 er gert ráð fyrir 105,7 millj. kr. framlagi til nefndanna þriggja. Samkvæmt þessari áætlun mun hagræðingarkrafa sú sem innanríkisráðuneytið ætlaði að ná fram með sameiningu nefndanna ekki ná fram að ganga og horfur á að kostnaður haldist óbreyttur frá því sem hefur verið. Miðað við framansagt má gera ráð fyrir, verði frumvarpið óbreytt að lögum, að útgjöld ríkissjóðs vegna rannsóknarnefndanna muni aukast um allt að 6 millj. kr. á ári frá forsendum fjárlaga fyrir árið 2012. Hér er um að ræða“ — ég vil vekja sérstaka athygli á þessari setningu — „hluta af útfærslu innanríkisráðuneytisins á þeim aðhaldsmarkmiðum sem það hefur ætlað sér að ná fram líkt og önnur ráðuneyti til að fylgja eftir stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Ef talin er þörf á að umfang þessarar starfsemi verði lítið breytt þrátt fyrir sameiningu nefndanna verður að gera ráð fyrir að innanríkisráðuneytið muni leitast við að forgangsraða til verkefnisins öðrum fjárheimildum innan síns útgjaldaramma.“

Þetta eru kunnugleg markmið. Þau voru sett í upphafi kjörtímabilsins þar sem menn ætluðu að setja ákveðna ramma utan um hvert ráðuneyti en því miður, virðulegi forseti, hefur það ekki gengið eftir. Það hefur ekki gengið eftir, og nánast bara ekki neitt, vegna þess að ráðuneytin hafa ekki fylgt því. Skýrasta dæmið í því sambandi er þegar Alþingi skilyrti 85 millj. kr. fjáraukalagabeiðni Umferðarstofu sem er undirstofnun innanríkisráðuneytisins, sett var inn í fjáraukalög 85 millj. kr. Var meiri hlutanum í hv. fjárlaganefnd kannski ekki misboðið, ég ætla ekki að nota það orð, en það hafði komið sambærileg niðurstaða frá árinu áður eða beiðni og hún samþykkt. Hvað gerði meiri hlutinn í hv. fjárlaganefnd? Hann setti sérstaka bókun inn í nefndarálitið og skilyrti í fjáraukalögunum að verða við þeirri beiðni, upp á 85 milljónir. Og þannig var það samþykkt á Alþingi að þá yrði skorið niður í innanríkisráðuneytinu á fjárlagaárinu árið eftir um 85 milljónir. Þetta var samþykkt með þeim hætti á Alþingi. Hvert var svo framhaldið? Aldrei var skorið niður um þessa upphæð. Aldrei. Samþykkt Alþingis og bókun meiri hlutans í hv. fjárlaganefnd á sínum tíma gagnvart þeirri stofnun, undir þessu ráðuneyti, hafði ekkert að segja. Samþykkt Alþingis hafði ekkert að segja, ekki neitt. Skilyrt fjárveiting með sérstakri bókun hvarf bara eins og dögg fyrir sólu.

Bent var á það í umræðum um málið hvernig það gat gerst og hvernig menn ætluðu að forðast það. Við í minni hlutanum gerðum kröfu um það, og við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, að skorið yrði þá niður á árinu á eftir, þ.e. um sömu fjárhæð, til viðkomandi stofnunar. Ráðuneytið hafnaði því. Af hverju hafnaði ráðuneytið því? Af því að það sagði: Við viljum bara hafa þetta innan fjárlagaramma ráðuneytisins og skera svo niður um þessar 85 milljónir og koma með tillögu um það. Á hvað bentum við þá? Við sögðum: Já, ætlið þið þá að skera niður hjá stofnunum sem standa við og fara eftir fjárlögum til að rétta þá af sem fara ekki eftir fjárlögum? Það var fátt um svör þá.

En þessi niðurskurður og þessi leiðrétting á rammanum utan um fjárlög viðkomandi ráðuneytis hefur aldrei gengið eftir. Það er hin dapurlega staðreynd.

Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort þetta sé upphafið, eins og tiltekið er í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, að þetta hafi verið markmiðið að menn yrðu að fara í ákveðnar hagræðingaraðgerðir til þess að standast ákveðinn ramma, sem er auðvitað mjög skynsamlegt, ég er ekki að mæla á móti því, en þetta hafi verið eitt af þeim verkefnum sem átti að sýna fram á niðurskurðinn sem átti að verða í viðkomandi ráðuneyti. Svo halda menn einhvern veginn áfram með málið þó svo að við blasi að kostnaðaraukinn verði.

Hver er síðan niðurstaða fjármálaráðuneytisins eða fjármálaráðherrans eða fjármála- og efnahagsráðuneytisins? Hún er jú sú að gangi þetta frumvarp eftir eins og hér er uppálagt og sú hagræðing sem lagt var af stað með í upphafi — sem gat aldrei gengið eftir, það sáu það allir, aldrei var sýnt fram á það með neinum efnislegum rökum — er krafan auðvitað sú, til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, að viðkomandi ráðuneyti skeri niður einhvers staðar annars staðar.

Ég spyr, virðulegi forseti: Er einhver tilbúinn að koma hingað upp og segja: Ja, það mun ganga eftir? Það mun nefnilega ekki ganga eftir. Það sýna dæmin, ekki eitt eða tvö eða þrjú, heldur öll þau sem við höfum verið að fjalla um í fjáraukalögum og lokafjárlögum og þau voru mýmörg. Það er alltaf þessi útþensla, því miður. Þannig að þetta mun ekki ganga eftir. Þetta eru bara orðin tóm að mínu mati miðað við efndir hingað til.

Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort þetta hafi verið eitt af þeim málum þar sem átti að nást fram hagræðing, sem verður ekki, og mjög miklar líkur verða á kostnaðarauka af þessari breytingu. Þar af leiðandi muni þau markmið um að fara í þá hagræðingu sem hér er fjallað um, til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, ekki ganga eftir og verða fyrir bí.

Ég vil að endingu fagna viðbrögðum hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar, formanns umhverfis- og samgöngunefndar, og hvetja hv. þingmann til þess að fara mjög vandlega yfir þetta og fá þessa aðila til að koma inn á fund nefndarinnar sameiginlega og fara yfir málið með rökum. Þetta mál er ekki og mun ekki verða einhver pólitísk ádeila. Hér eigum við að vinna faglega og kalla eftir efnislegum rökum því að það eru gríðarlega alvarlegar athugasemdir sem umsagnaraðilarnir gera, hvort heldur það er rannsóknarnefnd sjóslysa eða þeir aðilar sem ég hef vitnað til, rannsóknarnefnd flugslysa einnig, ekki má gleyma henni. Það er gríðarlega mikilvægt að fara vel yfir málið og kalla eftir rökum. Ef menn hafa ekki rétt á því að fá rök frá viðkomandi ráðuneyti er illa komið fyrir okkur. Það verður að gerast að menn fari yfir þetta með rökum.

Á fyrri stigum málsins þegar meiri hlutinn ætlaði að taka málið út kröfðumst við í minni hlutanum að fá inn aðila til að fara yfir stöðuna með þeim. Eftir þann fund sagði meiri hlutinn: Þetta er alveg rétt, þetta mál verður ekki klárað.