141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kemur hjá hv. þingmanni fjölluðum við nokkuð um það atriði í nefndinni og ég sendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu minnisblað þar að lútandi um þau úrræði sem hægt væri að grípa til til þess að skerpa á skyldum manna til að skila reikningum. Því minnisblaði hefur verið komið á framfæri meðal annars við þann hóp aðila hér í samfélaginu sem vinnur að því að koma í veg fyrir kennitöluflakk og aðra slíka hluti. Verið er að vinna að frekari endurskoðun á þeim lögum sem hér eru undir og kann að vera betra að láta slík ákvæði koma inn í þeirri endurskoðun sem næst er væntanleg sem þá fær hér fulla umfjöllun í þremur umræðum og umsagnir og aðra slíka hluti eins og vönduð málsmeðferð er. Það er kannski betra að gera það þannig en að setja það fram í einfaldri breytingartillögu hér á milli umræðna.

Efnislega er enginn ágreiningur um það milli mín og hv. þingmanns að mikilvægt er að setja slík ákvæði í lögin en álitaefnin eru einfaldlega þau hvort það eigi að gera við þessa endurskoðun laganna eða þá sem næst er væntanleg.