141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um ársreikninga. Ég vil byrja á að fagna því að meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar hafi komið til móts við tillögu mína og annarra nefndarmanna um að upplýst verði ekki aðeins um tíu stærstu hluthafa heldur alla hluthafa ef þeir eru fleiri en tíu. Meiri hlutinn gerir í breytingartillögu við frumvarpið um ársreikninga kröfu um að í hlutafélögum og einkahlutafélögum þar sem hluthafar eru fleiri en tíu fylgi með ársreikningnum skrá um alla hluthafa í stafrófsröð ásamt upplýsingum um hlutafjáreign hvers og eins þeirra. Þetta er til mikilla bóta. Þessar upplýsingar er reyndar hægt að ná í eftir krókaleiðum í fyrirtækjaskrá en það er auðveldara og aðgengilegra fyrir þá sem vilja kynna sér stjórnarsetu og krosseignatengsl að fletta því upp í ársreikningum eða fylgiskrám með þeim hverjir það eru sem eiga viðkomandi fyrirtæki og hvernig þeir tengjast.

Virðulegi forseti. Við skattgreiðendur eigum rétt á því að fá upplýsingar um eigendur fyrirtækja með takmarkaða ábyrgð. Ástæðan er eins og ég talaði um áður í umræðunni að eigendur slíkra fyrirtækja bera ekki ábyrgð á öllum skuldbindingum fyrirtækisins, það eru eignirnar sem fara upp í skuldbindingarnar og það sem eftir stendur við gjaldþrot fellur á birgja, viðskiptavini og skattgreiðendur. Það er óþarfi að spyrja spurningarinnar: Hvers vegna eigum við rétt á að vita hverjir eru eigendur fyrirtækja eða lögaðila með takmarkaða ábyrgð? Við ættum miklu frekar að spyrja: Hvers vegna er ekki búið að tryggja að við vitum hvaða einstaklingar eiga í fyrirtækjum með takmarkaða ábyrgð?

Ég tel það miður, virðulegi forseti, að meiri hlutinn ætli ekki að skylda fyrirtæki til að birta rafræna lista yfir alla eigendur. Slíkir rafrænir listar mundu auðvelda kortlagningu krosseignatengsla og slík kortlagning dregur úr áhættu við lánveitingar og almennri áhættu í hagkerfinu. Eins og við vitum flest urðu þau miklu krosseignatengsl sem urðu hér til í aðdraganda hrunsins til þess að þegar Glitnir fór í þrot urðu nokkurs konar dómínóáhrif af því þroti. Greiðsluþrot Glitnis dró svo til allt bankakerfið með sér í hrun.

Ég hef brugðist við þessu með því að leggja fram breytingartillögu þar sem fyrirtæki eru skyldug til þess að leggja fram þessa lista yfir eigendur og láta ársreikningaskrá ríkisskattstjóra fá þann lista rafrænt svo ársreikningaskráin geti birt hann á heimasíðu sinni. Það væri til mikilla bóta fyrir þá sem einmitt vilja rannsaka krosseignatengslin og tryggja að þau verði ekki ráðandi afl í íslensku viðskiptalífi eftir hrun eins og þau voru fyrir hrun.

Það veldur líka vonbrigðum að meiri hlutanum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafi ekki fundist ástæða til að skylda fyrirtæki til að birta upplýsingar um raunverulega eigendur. Slíkar upplýsingar gætu dregið úr ávinningi af kennitöluflakki og skráningu lögaðila í skattaskjólum. Ef við næðum að draga úr þessum ávinningi værum við að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja sem eru með starfsemi hér á landi og fyrirtækja sem eru með starfsemi annars staðar. Auk þess værum við líka að jafna samkeppnisstöðu þeirra sem hafa ástundað kennitöluflakk og hinna sem hafa staðið sig vel í rekstri og ekki farið út í slíka leikjafræði.

Raunverulegur eigandi telst vera einstaklingur, ekki eignarhaldsfélag eða annað fyrirtækjaform. Raunverulegt eignarhald fyrirtækja, bæði fjármálafyrirtækja eins og Straums fjárfestingabanka, Arion banka, Íslandsbanka og annarra mikilvægra fyrirtækja eins og 365, er í dag leyndarmál vegna þess að við gerum ekki kröfu um að fyrirtækin upplýsi um raunverulega eigendur. Ef maður skoðar eigendur til dæmis 365 fær maður lista með nöfnum sem segja manni akkúrat ekki neitt. Einn stærsti eigandi 365 er Moon Capital sem á rúm 43% í því fyrirtæki. Ég veit ekki um neinn sem getur upplýst hver stendur á bak við það fyrirtæki. Þetta er algjörlega óviðunandi.

Ég er því með breytingartillögu um að lögaðili þurfi að upplýsa um raunverulegt eignarhald tíu stærstu hluthafa sinna. Sönnunarbyrðin um raunverulegt eignarhald mun hvíla á lögaðilanum sem skilar inn ársreikningi, það er þá hans að tryggja að upplýsingar um raunverulega eigendur komi fram.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er íþyngjandi krafa fyrir fyrirtæki sem hafa opnað hluthafahópinn fyrir erlendum fjárfestum með aðsetur í skattaskjólum. Slík fyrirtæki eru þó nokkur hér á landi. Það getur verið erfitt að fá upplýsingar um það hvaða einstaklingar eru á bak við viðkomandi lögaðila með aðsetur í skattaskjóli, í raun illmögulegt að fá þær fram.

Það er líka spurning, virðulegi forseti, hvort við eigum að sníða löggjöf okkar að skattaskjólum. Ég vil í þessu efni benda á umræðu um fyrirtæki með starfsemi í Bretlandi sem eru skráð í skattaskjólum og hafa á undanförnum árum ekki borgað krónu í skatt í Bretlandi. Nýlega komu fram upplýsingar um að af 700 stærstu fyrirtækjum Bretlands hafa um 230 þeirra aldrei borgað neitt til breska ríkisins. Þetta þykir almenningi, skattgreiðendum, gagnrýnisvert og umræðan um fyrirtæki sem hafa flúið í skattaskjól hefur orðið til þess að margir viðskiptavinir beina frekar viðskiptum sínum til fyrirtækja sem greiða skatta í Bretlandi en til fyrirtækja sem enginn veit hvort borga skatta yfir höfuð og eru þar af leiðandi í mun betri samkeppnisstöðu en fyrirtæki sem hjálpa til við að halda uppi velferðarkerfinu í Bretlandi. Ég geri ráð fyrir að það sé svipað ástand hér á landi, en við höfum ekki fengið upplýsingar um það. Það væri áhugavert að skoða hversu mörg af stærstu fyrirtækjum landsins borga skatta inn í íslenska velferðarkerfið, ekki síst eftir hrun. Mörg fyrirtæki hafa einmitt keypt upp tap annarra fyrirtækja til að komast hjá skattgreiðslum.

Hvað varðar það að sníða löggjöf okkar að skattaskjólum er ég algjörlega mótfallin því. Ástæðan er ekki síst sú að í dag er mjög mikil hætta á því að vogunarsjóðir eða hrægammasjóðir eignist Ísland. Stærsti hluti snjóhengjunnar er í eigu slíkra sjóða. Hrægammasjóðir eru í dag langt komnir með að narta í alla parta hagkerfisins, að minnsta kosti heyrum við fréttir af því þótt við getum ekki sannað það að öllu leyti þar sem við vitum ekki hvað þeir eiga. Við vitum þó og höfum heyrt dæmi af því að þeir hafi eignast fyrirtæki með því að lána þeim með veði í sjóðstreymi viðkomandi fyrirtækis. Þeir hafa keypt upp fasteignir, sérstaklega miðsvæðis, sem þeir leigja á mjög háu verði og stöðugt færri Íslendingar hafa efni á því. Þeir hafa keypt upp kröfur á einstaklinga og fyrirtæki sem ekki hafa getað staðið í skilum vegna forsendubrests. Þetta er allt vegna þess að þeir eru læstir hér inni með mikla fjármuni vegna gjaldeyrishaftanna.

Það hefur líka komið fram í fréttum að þessir hrægammasjóðir hafa lýst yfir áhuga á að lána bæði ríkinu og opinberum fyrirtækjum svo þau geti staðið í skilum af lánum sínum.

Við getum nefnt að minnsta kosti tvö dæmi um hina svokölluðu hrægammasjóði. Það eru tveir bandarískir vogunarsjóðir sem hafa öll einkenni hrægammasjóða, York Capital Management og Burlington Loan Management. Þessir tveir sjóðir eru í eigu Davidsons Kempners og eiga samtals 511 milljarða kr. kröfu á Glitni og Kaupþing. Þetta eru engar smátölur og ættu að sýna okkur fram á að það er mikilvægt að koma böndum á þessa aðila.

Þessir sjóðir eiga helming allra krafna á Glitni og þriðjung krafna á Kaupþing. Síðan er það þessi Davidson Kempner sem á auk þess ALMC vogunarsjóðinn sem er aðaleigandi Straums fjárfestingabanka.

Eins og ég sagði áðan einkennast þessir sjóðir af því sem fræðimenn skilgreina sem hrægammasjóði. Þeir hafa keypt kröfur í þrotabú Glitnis og Kaupþings banka á hrakvirði, þ.e. á eftirmarkaði, „secondary market“, og munu að öllum líkindum reyna að tryggja fullar endurheimtur á þessum kröfum, jafnvel þótt þeir hafi sjálfir aðeins greitt brot af andvirði þeirra þegar þeir keyptu kröfurnar.

Þeir geta tryggt fullar endurheimtur með því meðal annars að hreinsa einfaldlega eignir út úr fyrirtækjum, selja tæki og tól, flugvélar og annað. Þeir geta líka farið í málaferli, bæði hér á landi og erlendis, til að ná fram viðurkenningu á eignarrétti sínum á fullu verði kröfunnar, því verðmæti sem krafan stóð í þegar hún var upphaflega gerð.

Það er óþarfi að minna á að lögheimili hrægammasjóða er nær undantekningarlaust í skattaskjólum. Þar af leiðandi er mjög erfitt að átta sig á því hvaða einstaklingar standa á bak við þessa hrægammasjóði og líka mjög erfitt að tryggja að þeir greiði skatt af þeim hagnaði og arði sem þeir hafa fengið í gegnum eignarhaldsfélögin.

Með því að ganga ekki alla leið og skylda fyrirtæki með takmarkaða ábyrgð til að upplýsa um raunverulega eigendur heldur hv. meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar í raun hlífiskildi yfir kennitöluflökkurum, skattsvindlurum og hrægammasjóðum. Þetta eru alvarlegar ásakanir, en staðan er líka mjög alvarleg þar sem við erum komin með hrægammasjóði sem eiga eignir sem slaga hátt í útgjöld ríkisins á hverju ári. Þarf þá ekki að nefna nema tvo vogunarsjóði af þeim ótal vogunarsjóðum sem eiga hér eignir. Það er mikilvægt að viðurkenna stöðuna og taka á vandanum áður en þessir aðilar hafa eignast meira eða minna allar eignir og auðlindir þjóðarinnar.

Það eru margvísleg rök fyrir gagnsæju eignarhaldi, þ.e. upplýsingum um raunverulegt eignarhald fyrirtækja. Þar er fyrst að nefna að með því að leyfa fyrirtækjum að fela eignarhaldið er Samkeppniseftirlitinu gert mjög erfitt fyrir við að tryggja að samkeppnislögum sé framfylgt, með öðrum orðum að ekki sé samráð á milli fyrirtækja á markaði í gegnum alls konar óbeint eignarhald. Krafan um gagnsætt eignarhald gerir viðskiptavinum kleift að forðast viðskipti við einstaklinga sem hafa ástundað kennitöluflakk. Upplýsingar um raunverulega eigendur gera líka viðskiptavinum kleift að verðlauna einstaklinga sem hafa staðið sig vel í rekstri, einstaklinga sem hafa borgað skatta og skyldur til samfélagsins og ekki ástundað kennitöluflakk til að koma sér undan slíku.

Ef upplýsingar liggja fyrir um alla eigendur fyrirtækja geta lánastofnanir og eftirlitsstofnanir greint mjög auðveldlega krosseignatengsl og þannig metið raunverulega áhættu af lánveitingu til viðkomandi eigenda en það var einmitt ekki hægt fyrir hrun. Við hrunið kom í ljós að bankarnir voru að brjóta lög með lánveitingum til tengdra aðila sem starfsmennirnir voru oft og tíðum ekki meðvitaðir um að væru tengdir aðilar og höfðu í raun engin tæki til að komast að því þar sem eignarhaldsfélag átti í eignarhaldsfélagi sem átti eignarhaldsfélag sem hafði aðsetur í skattaskjóli.

Ógagnsætt eignarhald fyrirtækja gerir fjárfestum kleift að komast undan skattgreiðslum. Meginhvatinn fyrir því að staðsetja eignarhaldsfélag í skattaskjóli er að komast upp með að greiða ekki skatta. Krafan um að upplýsa um raunverulegt eignarhald ætti að tryggja betri skattheimtu.

Ein af forsendum þess að traust aukist í samfélaginu, ekki síst hér á landi, er að upplýsingar um eignarhald séu aðgengilegar öllum rafrænt og að ekki sé notuð gjaldtaka til að takmarka aðganginn.

Ég vil að lokum árétta að meðal forsendna fyrir því að hér séu frjáls viðskipti er að viðskiptavinir, birgjar og allir aðrir sem koma að rekstri fyrirtækja hafi fullkomnar upplýsingar um fyrirtækin. Slíkar upplýsingar verða að liggja fyrir til þess að fólk geti tekið réttar ákvarðanir við kaup á vörum og þjónustu og líka þegar teknar eru ákvarðanir um lánaviðskipti.

Virðulegi forseti. Það er miður að meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar skuli ekki nota tækifærið núna til að tryggja að upplýsingar um raunverulegt eignarhald liggi fyrir á íslenskum fyrirtækjum. Það er skammt til kosninga og ég óttast að þessi bið eftir að fram komi annað frumvarp til breytinga á lögum um ársreikninga verði til þess að ekkert verði gert til að upplýsa um raunverulega eigendur. Ég óttast að við missum af tækifærinu sem við fengum eftir hrun til að draga lærdóm af því og breyta regluverkinu í samræmi við þann lærdóm.

Ég held að mikilvægasti lærdómurinn af hruninu sé sá að við vitum núna að of margir aðilar leyndu markvisst eignarhlutum sínum í stórum hluta hagkerfisins og misbeittu upplýsingum sem þeir fengu gegnum eignarhlutinn til að fá lán til að hreinsa út úr bönkunum og koma þeim peningum út úr hagkerfinu áður en allt hrundi. Þessir peningar streymdu út úr hagkerfinu frá haustinu 2007 vegna þess að sumir höfðu betri aðgang að upplýsingum en aðrir og aðgengi að lánsfjármagni. Þessir peningar streymdu inn í skattaskjól og okkur hefur ekki tekist að fá upplýsingar um hverjir eru þar með eigur sínar. Nú sjáum við, virðulegi forseti, þetta fjármagn flæða hér aftur inn í hagkerfið í gegnum einhverja sérstaka fjárfestingaleið Seðlabankans með sérstökum afslætti sem Seðlabankinn veitir stórum fjárfestum þegar þeir koma aftur inn í hagkerfið með erlent fjármagn. Verið er að nota þetta fjármagn til að kaupa aftur upp fyrirtæki, hluta í fyrirtækjum, eignir sem áður voru í eigu þessara sömu aðila, lögaðila, fyrir hrun.

Þetta verðum við að stoppa. Við skuldum börnunum okkar það að við drögum lærdóm af hruninu og grípum til aðgerða sem koma í veg fyrir annað hrun.